12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3179 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn er flutt í þeim tilgangi að draga saman í ein lög öll meginákvæði um landhelgi og lögsögu lýðveldisins Íslands á hafinu umhverfis landið og á landgrunninu og lögfesta ný réttindi á þessu sviði Íslendingum til handa með hliðsjón af þróun þjóðaréttar að undanförnu. Frv. hefur verið undirbúið í utanrrn. og er aðalhöfundur þess Hans G. Andersen sendiherra, en aðrir sérfræðingar hafa einnig unnið að fullnaðargerð þess. Þá hefur frv. verið lagt fyrir landhelgisnefnd, þar sem allir flokkar eiga fulltrúa, og komu þar fram margar mjög gagnlegar ábendingar. Þó tel ég rétt að taka það fram, að nm. þar eru ekki þar með bundnir um afstöðu sína til málsins á einn eða annan hátt og geta því tekið afstöðu til hugsanlegra brtt. að vild.

Ég vil segja um málið í heild, að það er einlæg von mín að um það náist, eins og um öll veigamikil skref í landhelgismálinu, sem víðtækust og helst alger samstaða. Skorti eitthvað á að svo geti orðið, þá vænti ég að starf í nefndum þingsins geti leitt til þess, að það megi laga þangað til við getum öll vel við unað.

Í þessu frv. eru m. a. eftirtalin aðalatriði:

1. Sjálf landhelgin, en með því hugtaki er átt við hafsvæðið þar sem ríkið hefur fullveldisrétt hliðstæðan og yfir landinu, er færð úr 4 upp í 12 mílur.

2. Fiskveiðilögsaga okkar, sem hefur síðan 1975 verið 200 sjómílur, hefur ávallt verið ákveðin með reglugerðum sem byggðar hafa verið á landgrunnslögunum frá 1948. Ef þetta frv. yrði að lögum mundi það breytast og 200 mílna fiskveiðilögsagan sjálf verða fest í lög, en ekki hvíla á reglugerð sem ráðh. geta breytt í framtíðinni, heldur mundi þurfa að koma til breyting frá Alþingi sjálfu.

3. Auk þess sem fiskveiðilögsagan yrði þannig lögfest tekur Ísland sér 200 mílna lögsögu yfir vísindarannsóknum á hafsvæðinu umhverfis landið.

4. Þessu til viðbótar tekur Ísland sér 200 mílna mengunarlögsögu. Veitir það íslenskum stjórnvöldum rétt til að gera ráðstafanir til að vernda hafið umhverfis landið fyrir mengun og mengunarhættu.

5. Með 200 mílna efnahagslögsögu og öllu, sem í henni felst, tryggir lýðveldið sér allan rétt til að ráða byggingu mannvirkja eða afnot af þeim innan 200 mílna og gæti þetta í framtíðinni haft þýðingu t. d. í sambandi við hugsanlega olíuvinnslu.

6. Í síðasta lagi vil ég geta þess, að með frv. þessu eru ítrekuð reglugerðarákvæði um miðlínur milli Íslands og Grænlands og Íslands og Færeyja, eins og þau ákvæði voru í reglugerðinni frá 1975, en ákvæðið, sem þar var um að Íslendingar mundu ekki framfylgja fiskveiðitakmörkunum gagnvart Jan Mayen nema að miðlínu, er fellt niður. Þegar þetta ákvæði var sett votu aðstæður töluvert aðrar en þær eru nú og óvissa miklu meiri um hvernig háttað yrði línum á milli landa heldur en nú er. Þótti því skynsamlegt að setja þetta ákvæði til bráðabirgða eða þangað til annað yrði ákveðið, ef ég man orðalagið rétt. Þess ber og að geta, að þáv. sjútvrh., sem gaf reglugerðina út, hv. þm. Matthías Bjarnason, lét í ljós alveg ótvírætt að með þessu væru Íslendingar ekki að láta frá sér nokkurn rétt sem þeir kynnu að eiga eða eignast.

Nú er Jan Mayen-málið komið á dagskrá og fer að líða að því að það verði rætt nánar og ítarlegar heldur en gert hefur verið hingað til. Ég tel því tvímælalaust rétt að afnema nú þetta ákvæði. Það mundi verða okkur til trafala í viðræðum við Norðmenn um það mál ef slíkt ákvæði væri þá enn í gildi. Á hinn bóginn sendum við þeim mjög skýr boð með því að afnema þetta miðlínu eða punktalínuákvæði einmitt nú.

Þegar lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins voru sett 1948 var við það miðað að útfærsla fiskveiðimarkanna héldist í hendur við þróun þjóðaréttar, og má segja að svo hafi verið. Samkv. því voru mörkin færð út í 4 mílur 1950–1952, út í 12 mílur 1958, í 50 mílur 1972 og í 200 mílur 1975. Nú er svo komið að á vettvangi Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem hófst árið 1973 eftir margra ára undirbúning, hefur náðst víðtæk samstaða um rétt strandríkja til 12 mílna landhelgi, þar sem strandríkið hefur fullveldisrétt að mestu hliðstæðan því sem það hefur yfir eigin landi. Á Hafréttarráðstefnunni og raunar utan hennar hefur einnig náðst samstaða um 200 mílna efnahagslögsögu þar sem miðað er við víðtækar heimildir strandríkis yfir auðlindum sjávar undan ströndum. Loks hefur einnig náðst víðtæk samstaða um rétt strandríkis yfir landgrunni, landgrunnsbrekku og landgrunnshalla, allt að endimörkum landgrunnsins, einnig utan 200 mílna frá grunnlínu. Er þá fjarlægðin miðuð við lögun og gerð hafsbotnsins. Ég vil þó bæta við að ákvæði um mörk landgrunnsins eru eitt af því viðkvæmasta og erfiðasta sem má segja að sé ekki enn fullfrágengið og togast þar á 2–3 mismunandi hugmyndir á Hafréttarráðstefnunni. En eins og fram hefur komið í umr. um þessi mál, ekki síst af hálfu hv. 5. þm. Norðurl. v., geta niðurstöður þess máls orðið ærið örlagaríkar fyrir okkur Íslendinga og ráðið því, hvort við fáum rétt til landgrunnssvæðis, þ. e. hafsbotnssvæðis, á ýmsum stöðum utan við 200 mílna mörkin. Þar getur verið til mjög mikils að vinna, því að möguleikar eru á að ærin auðæfi sé að finna í hafsbotninum.

Hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefur enn eigi lokið störfum, aðallega vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag um skipan mála á hinum alþjóðlega hafsbotni utan við mörk strandríkja. Þrátt fyrir það þykir nú tímabært að lögfesta þau atriði sem að ofan eru greind, og er það sjónarmið lagt til grundvallar í frv. þessu. Aðalatriðið er að lögfesta þær meginreglur sem nú liggja ljósar fyrir. Eftir vandlega íhugun hefur verið valin sú leið að hafa þetta frv. ekki ítarlegt, heldur aðeins með meginreglum, en ætlast til að einstök svið, einstakir málaflokkar verði ákveðnir með sérstakri löggjöf. Sem dæmi má nefna að við getum búist við því að þurfa alltaf öðru hverju að gera breytingar á þeim lögum, sem gilda varðandi fiskveiðar, eftir ýmsum aðstæðum og vaxandi þekkingu, og getur þá verið viss kostur að grundvallaratriðin séu í einum heildarlögum sem yrðu þá eins konar stjórnarskrá fyrir landhelgi og lögsögu, en auðveldara sé að breyta hinum einstöku lögum þegar Alþingi sýnist svo. Eins má geta þess, að rétt þykir að setja sérstök lög um hugsanlega mengun hafsins sem er flókið mál og getur líka tekið ýmiss konar breytingum á næstu árum. Í því sambandi vil ég minna á að Alþ. hefur nú til meðferðar nokkra alþjóðlega samninga um olíumengun sem lúta mjög að því sviði.

Verði þetta frv. að lögum verður óhjákvæmilegt að gera ýmsar breytingar á nokkrum öðrum gildandi lögum til samræmis, t. d. tollalögum, sóttvarnalögum, áfengislögum o. fl., þar sem finna má í slíkum lögum landhelgisákvæði, sem svo mætti kalla, í flestum tilfellum nú 4 mílur, sem þá mundu breytast í 12 mílur samkv. aðalreglunni sem hér er fylgt.

Herra forseti. Ég vil ítreka það, að þetta frv. er lagt fram í þeirri von að um það geti náðst samstaða og að Alþ. eins og það hefur ávallt gert, þegar mest hefur á reynt í landhelgismálum, verði sammála um að við tryggjum okkur þau auknu réttindi sem í þessu frv. felast. Það hefur alla tíð verið ljóst og ætlan allra þeirra, sem hafa unnið að landhelgismálum, að síðar meir yrði slík heildarlöggjöf sett, og það er skoðun sérfróðustu manna að nú sé tímabært og gagnlegt að ganga til þess verks.

Ég legg svo til að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.