12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. ræðumönnum fyrir mjög góðar undirtektir og skynsamlegar aths. sem þeir hafa gert.

Það er mjög til athugunar hvernig á að haga orðalagi, t. d. um hugsanlegar lífverur á hafsbotni. Menn veltu þessu dálítið fyrir sér, m. a. í landhelgisnefndinni, en í því sambandi er vert að minnast þess, að það hefur þegar orðið eitt — ekki þorskastríð, heldur krabbastríð á milli Frakka og Brasilíumanna, sem snerist um hvaða krabbategundum Brasilíumenn ættu fulla lögsögu yfir og hverjum ekki, hvað Frakkar mættu veiða þar, svo að slíkt getur komið fyrir.

Hugmyndin með því að nefna ekki Rockall er auðvitað sú sem hv. þm. nefndi, að við lýstum yfir fullri 200 mílna lögsögu gagnvart Rockall og hefur engin breyting orðið á því af okkar hálfu. Bretar hafa hins vegar verið að senda mótmæli, síðast fyrir örfáum vikum, og þeir hafa fengið svör sem á diplómatíska vísu eru eins afdráttarlaus og hörð og þar tíðkast. Ég vænti því að þar sé a. m. k. enginn misskilningur, hvað sem þeir kunna að gera í mótmælasendingum framvegis.

Varðandi Jan Mayen er á þessu stigi búist við að næsta skref í sambandi við Norðmenn verði að þeir Hans G. Andersen og Jens Evensen, sem er fremsti hafréttarsérfræðingur Norðmanna, og báðir verða formenn sendinefnda á Hafréttarráðstefnunni í Genf, ræði sín á milli um þessi mál. Má búast við að það verði á tæknilegum grundvelli.

Hin mikla þýðing, sem hafsbotninn og ytri mörk hans hafa nú á síðasta snúningi Hafréttarráðstefnunnar, er mönnum ljós, þó að það hafi kannske dagað fyrir okkur mörgum í heldur seinna lagi. Það hefur a. m. k. verið viðurkennt nú með því, að einn af sendinefndarmönnum er jarðfræðingur frá Orkustofnun og ég hef fengið heimild fjmrh. til þess að verja nokkru fé, eftir því sem hægt er, á næstu mánuðum til þess að auka söfnun upplýsinga á því sviði.

Ég vil svo ítreka þakkir mínar fyrir undirtektir þm.