23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4108 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þegar ég bað um orðið hafði ég ekki gætt þess, að frv. mun fara samkv. till. hæstv. ráðh. til n. þar sem ég á sæti. Ég hefði að öllum líkindum ekki tekið hér til máls ef mér hefði verið þetta ljóst þá, þar eð ég fæ tækifæri til þess að fjalla um frv. í þeirri n. En að öðru leyti vil ég gjarnan segja það, að ég tel að það svo sem spilli ekki þó að öllum þeim ákvæðum, sem í gildi eru um hafið og hafréttinn, séu sett í einn bálk. Það er vafalaust til hægðarauka. Að öðru leyti sé ég ekki verulegan tilgang með þessu frv., ef undan er skilið það að sjálfa landhelgina eigi að stækka. Það er að sjálfsögðu nýmæli hér og er vafalaust í samræmi við tíðarandann og tímana, að landhelgin verði nú 12 sjómílur í stað þeirra fjögurra sem hún hefur verið lengst eða allt frá því að hún var færð úr 3 sjómílum fyrir mörgum árum.

Í þessu frv. eru, eins og hæstv. ráðh. gat um, fjölmörg atriði sem Íslendingar hafa verið að vinna að og vinna sér rétt til á undanförnum árum og eru staðfesting á því, hversu vel hefur tekist til í þeirri baráttu sem þjóðin hefur átt nú í nærfellt 30 ár, og er ekki nema gott eitt um það að segja.

Ég ætla, herra forseti, með hliðsjón af því, sem ég sagði í upphafi, að geyma mér frekari umsögn um þetta frv., aðeins segja það, að að sumu leyti hefði ég talið réttara að bíða með heildarlagasetningu þar til Hafréttarráðstefnu lýkur, en það má vera að mönnum þyki það of langt og þá hægt að setja ný lög, ef ástæða þykir til.