23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég stend ekki upp til að ræða þetta frv. efnislega. Ég hef þegar lýst stuðningi mínum við það, ég tel það til bóta og fagna einnig köflum eins og 6. kafla um vísindalegar rannsóknir. Ákvæði um þær hefur skort í íslenska löggjöf. Þarna er tekið af skarið og ákveðnar reglur settar.

Hins vegar stend ég upp til þess að koma á framfæri aths. sem hreyft var við mig fyrir fáum dögum, þess efnis, að í frv, virðast ekki vera ákvæði sem heimila landhelgisgæslu að hafa afskipti af skipum, sem fara í gegnum íslenska efnahagslögsögu, eða a. m. k. að krefja slík skip um tilkynningarskyldu. Við getum nefnt skip á vegum Greenpeace t. d., og það var sérstaklega af því tilefni sem þetta var nefnt. Ég hygg að sú n., sem fær málið, ætti að athuga hvort ástæða sé til að setja í þetta frv. slíkar heimildir um tilkynningarskyldu sem mundu að sjálfsögðu stórlega auðvelda landhelgisgæslu að fylgjast með þeim skipum sem fara um efnahagslögsöguna.

Einnig hefur verið nefnt og reyndar kemur fram í grg. með þessu frv., að gera þarf breytingar til samræmis á tollalögum, áfengislögum og fleiri lögum. Þetta þarf að gera fljótt.