23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4110 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil þakka jákvæðar undirtektir ræðumanna varðandi nauðsyn þess að ráðast í að fá færustu menn okkar til að semja þetta frv. Það getur vel orðið til að hjálpa til að ýta eftir sumum þeim atriðum sem allar þátttökuþjóðir í Hafréttarráðstefnunni hafa enn ekki fallist á. Má þar nefna að þær þjóðir eru til sem hafa ekki viðurkennt að heimilt sé að færa landhelgina út í 12 mílur. Hins vegar eru hinar svo miklu fleiri að við lítum á það sem fullkominn rétt okkar.

Það er sjálfsagt að kanna í n. það atriði sem hæstv. dómsmrh. nefndi. Ég hafði skilið þetta frv. svo, að það væri alveg tvímælalaust að skip sem kemur inn fyrir 200 mílurnar og er eitthvað viðkomandi rannsóknum eða einhver mengunarhætta gæti stafað af, fellur undir annan hvorn þennan flokk, það væri háð þeim afskiptum sem íslensk yfirvöld telja nauðsynleg. Kemur þetta fram aftur og aftur, t. d. í 4. gr., að innan efnahagslögsögunnar hefur Ísland fullveldisrétt að því er varðar rannsóknir, hagnýtingu, verndun og stjórnun auðlinda o. s. frv. Ef skip Greenpeace reynir að trufla þær reglur sem íslenska ríkið hefur sett um hagnýtingu auðlinda eins og hvalastofnsins á þessu áhrifasvæði okkar, þá tel ég að við hljótum að hafa fullkominn rétt skv. væntanlegum lögum til þess að gera þær gagnráðstafanir sem við teljum eðlilegar og nauðsynlegar. En það er sjálfsagt að athuga þetta betur í nefnd.

Hitt er rétt athugað hjá hæstv. ráðh., að útfærsla landhelginnar í 12 mílur leiðir til þess, að það þarf að breyta ýmsum öðrum lögum. Að vísu telja lögfræðingar að fyrst í stað mundi enginn vafi leika á, að seinni lögin giltu. Engu að síður væri æskilegt að þessar breytingar gerðust sem fyrst, og ef þetta frv. verður að lögum er þegar til listi í utanrrn. yfir það, hvaða öðrum lögum verði þörf á að breyta, og mundi þá sjálfsagt viðkomandi rn. verða bent á það mál. En ég taldi ekki rétt að fara lengra út í það í sambandi við þetta frv. sjálft, vegna þess að það snertir önnur rn. en utanrrn., sem má segja að sameini þetta mál í einn bálk.

Ég vil að lokum geta þess í sambandi við orð hv. 1. þm. Vestf., að viðræður við Norðmenn um Jan Mayen hafa staðið undanfarnar vikur og átt sér stað á Hafréttarráðstefnunni. Ákveðið var að fela Hans G. Andersen fyrir Íslands hönd og Jens Evensen fyrir hönd Norðmanna að hefja þessar umr. Síðan hittust þeir og utanrrh. beggja landa í Kaupmannahöfn fyrir nokkru og höfðu þar einn yfirlitsfund. Málið er því á hreyfingu. Það eru algerar frumrannsóknir, og ég vænti þess, að það komi í ljós nú innan tveggja eða þriggja vikna hvernig rétt verður að halda á málinu áfram. Ég hef látið í ljós þá skoðun og geri það á nýjan leik, að ef svo virðist sem grundvöllur sé fyrir samkomulagi sem við Íslendingar viljum athuga nánar muni málið flytjast yfir í formlegri viðræður og þá muni verða rætt í ríkisstj. og við stjórnarandstöðuna hvers konar viðræðunefnd verður skipuð og hvaða form verður haft á því máli. En til þess að undirbúa nokkuð þau tengsl á milli flokkanna allra var landhelgisnefnd endurvakin og hún hefur fengið jafnóðum allar upplýsingar, sem utanrrn. hafa borist varðandi þetta mál.