13.03.1980
Efri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

114. mál, ráðgjöf og fræðsla varðandi fóstureyðingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er tekið til umr., felur í sér að þrengd er heimild til fóstureyðinga. Samkv. gildandi lögum er fóstureyðing heimiluð af þrenns konar ástæðum: 1) af félagslegum ástæðum, 2) af læknisfræðilegum ástæðum og 3) ef konu hefur verið nauðgað eða hún orðið þunguð sem afleiðing af öðrum refsiverðum verknaði. Með frv. þessu er lagt til að fella niður að félagslegar ástæður geti heimilað fóstureyðingu. Af þessu leiðir aðrar breytingar sem í frv. felast.

Það er skoðun mín, að félagslegar ástæður eigi ekki að réttlæta fóstureyðingu. Í fyrsta lagi eru félagslegar ástæður ákaflega rúmt og teygjanlegt hugtak. Í öðru lagi á að bæta úr félagslegum ástæðum með öðrum hætti en að tortíma mannlegu lifi. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að félagslegar ástæður heimili fóstureyðingu þegar ætla má, eins og það er orðað, að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfitt vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Í lögunum er svo að finna leiðbeiningar um það, til hvers skuli tekið tillit við mat á því, hvað sé of erfitt í þessu sambandi og hvað séu óviðráðanlegar félagslegar ástæður.

Þar er tiltekið sem ástæða fyrir fóstureyðingu að konan hafi alið mörg börn með stuttu millibili og skammt sé frá síðasta barnsburði. Samkv. þessari reglu getur fóstureyðing verið heimil þó að heimilisástæður séu góðar og heilsufar gott á heimilinu. Ef barn er ekki velkomið í heiminn af einhverjum ástæðum skal lífi þess tortímt ef óskað er.

Þá er önnur leiðbeiningarreglan sú, að fóstureyðing geti verið heimil ef konan býr við bágar heimilisástæður, vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.

Þriðja leiðbeiningarreglan er sú, að fóstureyðing geti verið heimil þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.

Tvær síðustu leiðbeiningarreglurnar byggjast vissulega á félagslegum ástæðum. Enginn neitar því, að bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis á heimili eða þroskaleysi móður geti skapað félagslegt vandamál. En spurningin er, hvernig á að bregðast við þeim vanda. Það á ekki að gera með því að veita heimild til fóstureyðingar. Félagslegan vanda á að leysa með félagslegum ráðstöfunum.

Með lögum nr. 25 frá 22. maí 1975 voru heimildir til fóstureyðingar rýmkaðar. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Fóstureyðingum hefur fjölgað ískyggilega. Skráðar fóstureyðingar hér á landi á hverjar þúsund konur á aldrinum 15–49 ára voru árið 1965 1.8, árið 1970 2.1, árið 1975 5.9, árið 1976 6.7, árið 1977 8.4 og á árinu 1978 um 9.3%. Á tímabilinu 1962–1970 voru skráðar 61–109 fóstureyðingar á ári. Á árinu 1975 eru fóstureyðingar 308, árið 1976 367, árið 1977 456 og árið 1978 um 500. Þetta er reynsla okkar af því að heimila fóstureyðingar af svokölluðum félagslegum ástæðum.

Þegar núgildandi lagaákvæði voru sett um fóstureyðingar árið 1975 bar ég fram brtt. við frv. að lögum þessum, þar sem lagt var til að fóstureyðingar yrðu ekki heimilaðar af félagslegum ástæðum. Brtt. náði ekki fram að ganga. Þessi brtt. var tekin upp á ný á síðasta ári í formi frv. til l. sem var samhljóða því sem hér er nú lagt fram. Þá hlaut frv. ekki afgreiðslu. En nú er þess freistað enn á ný að leggja málið fyrir hv. Alþ. í trausti þess að það nái fram að ganga.

Á síðasta ári bar hátt umræður um velferð barnsins. Þess var vænst, að barnaár Sameinuðu þjóðanna yrði okkur einhver hvatning í þessu efni. Hvað hefði verið háleitari hugsjón en að þjóðin hefði sett sér á þessu barnaári það markmið að ekkert íslenskt barn væri óvelkomið í þennan heim af félagslegum ástæðum? En barnaárið leið án þess að til slíks kæmi. Í öllum umræðunum hér á landi á síðasta ári um velferð og rétt barnsins gleymdist helgasti rétturinn, rétturinn til lífsins. Hinir mörgu einstaklingar og félagasamtök, sem létu til sín heyra, véku ekki að því að létta á fargi fóstureyðinganna. Það var aðeins gert í lofsverðum undantekningartilfellum.

En þó að það væri þagað þunnu hljóði hér á landi um þau grundvallarmannréttindi sem rétturinn til lífsins er, þá var það síður en svo að slíkt gerðist hvarvetna annars staðar. Þannig var t.d. í tilefni barnaársins samþykkt á þingi Evrópuráðsins 3. okt. s.l. ítarleg ályktun um velferðarmál barnsins. Ályktun þessi kveður m.a. á um að vernda skuli rétt sérhvers barns til lífs frá því að getnaður á sér stað. Í ályktun þessari er skorað á ráðherranefnd Evrópuráðsins að hefjast þegar handa um gerð Evrópusáttmála um þau réttindi barnsins sem ályktunin fjallar um. Við Íslendingar erum, svo sem kunnugt er, aðilar að Evrópuráðinu. Okkur varðar því hvað gerist á þeim vettvangi. Þetta frv. er því m.a. eðlilegt andsvar við því sem þar er að gerast.

Mörg fleiri dæmi mætti taka erlendis frá er sýna harðnandi andstöðu gegn fóstureyðingum og vissa tilhneigingu til að þrengja heimildir til að eyða fóstri. Það er ekki að ófyrirsynju, heldur vegna hinnar hörmulegu reynslu sem fengist hefur víða um lönd af frjálsum fóstureyðingum eða rúmum heimildum til fóstureyðinga. Það var því fullkomin öfugþróun sem átti sér stað hér á landi með setningu laga nr. 25. frá 1975.

Með frv. því, sem hér er til umræðu, er því lagt til að bregða á annað ráð. Það er lagt til að þrengja heimildir til fóstureyðinga. Frv. felur í sér að fóstureyðingar verði ekki heimilaðar af félagslegum ástæðum. Enginn neitar samt að félagsleg vandamál eru fyrir hendi. Bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis á heimili eða þroskaleysi móður geta skapað félagslegt vandamál. En spurningin er: Hvernig á að bregðast við þeim vanda? Það á ekki að gera með því að veita heimild til fóstureyðingar. Þjóðfélag, sem leyfir fóstureyðingar af félagslegum ástæðum, lítur fram hjá hinum raunverulega vanda, sættir sig við óleyst vandamál. Félagslegur vandi verður ekki leystur nema með félagslegum ráðstöfunum.

Það vill svo til að í þessu landi búum við við víðtæka almenna tryggingalöggjöf og margs konar opinbera aðstoð í félagslegu tilliti. Við teljum okkur standa allframarlega í þeim efnum og erum stundum harla ánægð með það sem áunnist hefur á síðustu áratugum til lausnar hinum ýmsu félagslegum vandamálum. En satt er það, að mörgu er enn ábótavant og að ýmsu þarf að hyggja. Betur þarf að gera í málum barnshafandi kvenna, svo sem fæðingarorlofi og mæðraheimilum. Barnaheimilum þarf að fjölga og bæta við vöggustofum, dagvistunarheimilum og leikskólum. Það þarf að bæta félagslega þjónustu og ráðgjöf við barnshafandi konur svo að þær fái mætt tímabundnum erfiðleikum. Það þarf að beita almannavaldinu og samhjátp þjóðarinnar um land allt, jafnt í strjálbýli sem í þéttbýli, til aðstoðar við þá konu sem býr við slæmar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu, svo að barnið, sem hún gengur með, verði velkomið í þennan heim og góður aðbúnaður þess sé tryggður.

Ekkert annað er til lausnar þeim vanda sem um er að ræða. En þetta kostar fjármagn. Samt eru það smámunir, sem ekki er til að hafa orð á, samanborið við hið óbætanlega tjón sem blóðfórnir fóstureyðinganna valda nú hinni fámennu íslensku þjóð sem þarf mest af öllu fleiri handa til að halda uppi sjálfstæðri tilveru sinni.

Ég hef flutt frv. um breyt. á lögum um almannatryggingar til að bæta úr vanda einstæðra mæðra, og það mál er einnig á dagskrá þessa fundar.

Við Íslendingar höfum sérstöðu í ýmsum efnum og svo er ekki síst að því er varðar áhrif fóstureyðinga á fólksfjölda í landinu. Í sumum löndum, og þó einkum þeim fjölmennustu, er fólksfjölgun eitt meginvandamálið sem við er að glíma. Fólkinu fjölgar þar um of miðað við efnahag, félagslegar ástæður, náttúruauðlindir og hagnýtingu þeirra til mannsæmandi lífskjara, jafnvel þótt takmarkaðar kröfur séu til lífsins gerðar. Áhrif fóstureyðinga á fólksfjölda í slíkum ríkjum eru oft sett í samband við offjölgunarvandamál sem þar er við að stríða, þótt það breyti engu um eðli þess verknaðar sem felst í fóstureyðingu. Hins vegar er þessu þveröfugt farið hjá okkur Íslendingum. Áhrif fóstureyðinga hér á landi á fólksfjöldann hljóta að vera mikið alvörumál.

Íslenska þjóðin hefur því sögulega hlutverki að gegna að halda upp í í þessu landi sjálfstæðu ríki með öllu sem því fylgir. í þessum efnum höfum við sérstöðu vegna fámennis þjóðarinnar. Okkur finnst þetta sjálfsagt og eðlilegt og getum ekki hugsað okkur annað en að halda okkar sjálfstæðu tilveru. En það hljóta samt að vera takmörk fyrir því, hvað fámennið leyfir. Einhvers staðar eru takmörkin fyrir því, hve margar hendur þarf til að geta haldið uppi sjálfstæðu ríki og hagnýtingu auðlinda okkar til lands og sjávar. Ef farið er niður fyrir þau mörk er í húfi að þjóðin megni ekki að halda uppi sjálfstæðu ríki með þeim skyldum sem því fylgja. Það er í húfi, að þjóðinni haldist á hinum miklu auðlindum sínum ef hún hefur ekki bolmagn til að hagnýta þær í þurfandi heimi. Sjálf tilvera hinnar íslensku þjóðar er þá í húfi. Að þessu er skylt að huga þegar rætt er um áhrif fóstureyðinga hér á landi á fólksfjölda þjóðarinnar.

En hvað sem þessu líður, svo alvarlegt sem það er fyrir þjóðarheildina, varðar frv. þetta, sem hér er til umræðu, fyrst og fremst einstaklinginn, siðferðilega afstöðu og lífsskoðun. Hér er gengið út frá að félagslegar ástæður geti aldrei réttlætt fóstureyðingu. Það er grundvallaratriði, að þetta mannslíf hefur rétt til þess að vera borið í þennan heim. Réttinn til lífsins verður að viðurkenna. Það er siðferðileg skylda að varðveita líf, jafnvel líf ófædds barns. Fóstureyðing á því ekki að koma til greina nema líf móður sé í fyrirsjáanlegri hættu eða telja megi auðsætt að barnið verði svo vangefið, að ekki verði komist hjá að grípa til örþrifaráða, eða konan hafi verið þunguð af refsiverðu atferli. Á þessari forsendu er frv. þetta flutt.

En fóstureyðingar eru ekki einungis brot á rétti hins veika og varnarlausa mannlega lífs í móðurkviði. Þær fela í sér hættuna á þjóðfélagslegri upplausn. Ef þjóðfélagið viðurkennir að fólk geti notið hamingju, ánægju og unaðar, en það þurfi ekki að bera afleiðingarnar ef það vill það ekki, er það sama þjóðfélag að kippa stoðum undan sjálfu sér og stefnir til hruns. Þá duga jafnvel ekki félagslegar ráðstafanir. Þá getur til þess komið, að jafnvel eigin geðþótti og markræðisjónarmið ráði því, hvort mannlegu lífi er tortímt eða ekki. Fjárhagsleg og félagsleg aðstoð verður þá aldrei einhlít vörn í þessum vanda, því að það er ekki einungis um félagsleg vandamál að ræða, heldur siðræn vandamál. Til þarf að koma lífs- og manngildismat á siðferðilegum grunni. Oft liggur leiðin til varanlegrar hamingju í gegnum andstreymi, að ófríska konan ali barn sitt og lifi með því og fyrir það. Þau eru óteljandi dæmin um börn sem hafa fengið góða umönnum og gott veganesti út í lífið þótt efni ha.fi verið af skornum skammti. Jafnvel ríkidæmi er engin trygging fyrir því, að aðhlynning og uppeldi fari vel úr hendi.

Það verður að byggja á því lífs- og manngildismati sem er undirstaða íslenskrar menningar og arfleifðar. Samkvæmt því mati er rétturinn til lífsins undirstaða allra annarra mannréttinda. Það er aftan úr grárri forneskju að ætla af félagslegum ástæðum að breyta hér nokkru um.

Langt er nú liðið síðan aflagður var sá siður að heimila barnaútburð hér á landi. En barnaútburðurinn var heimilaður af félagslegum ástæðum þeirra tíma: ómegð, fæðuskorti og öðrum framfærsluvandamálum. Ef fóstureyðing hefði á þeim tíma verið framkvæmanleg með sama hætti og nú hefði sú aðferð vafalaust verið notuð í stað barnaúfburðar. Það var nefnilega ekki sama hve lífið hafði langt fram gengið þegar því var tortímt. Samkvæmt Grágás var ekki heimilt að bera út barn eftir að það hafði fengið næringu. Þá hét það morð og varðaði við lög. En verknaðurinn var heimill og löglegur ef barnið hafði ekki fengið næringu. Okkur finnast slík lög og reglur víðs fjarri. En árið 1975 setjum við samt lög sem heimila að mannlegu lífi sé tortímt af félagslegum ástæðum og um lögmæti þess fari eftir því hvað þroska þess lífs sé langt komið. Hér var stigið spor um langan veg aftur á bak, því að félagslegar ástæður eiga aldrei að geta heimilað tortímingu mannlegs lífs, á hvaða þroskastigi sem er.

Kristilegar siðgæðishugmyndir leiddu til afnáms hins forna siðar um tortímingu mannlegs lífs af félagslegum ástæðum. Síðan hefur þjóðin á lögnum ferli við harðæri og áþján megnað að halda í heiðri þau lífsviðhorf sem liggja þessu til grundvallar. Það væri kaldhæðni örlaganna ef þjóðinni ætti ekki að takast þetta á mestu velmegunar- og velgengnistímum sem hún hefur búið við, og með frv. þessu er þess freistað að svo megi verða.