13.03.1980
Efri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

114. mál, ráðgjöf og fræðsla varðandi fóstureyðingar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. flm. fyrir hans ágætu framsögu og einnig þær margvíslegu upplýsingar sem fram koma í grg. með því frv. á þskj. 180 sem hér er til umræðu.

Ég hygg að það sé ekki ofmælt, að framsetning hv. flm., bæði í ræðu hans áðan og í grg., beri vitni rökfimi og hugsjónaeldi, en þegar það tvennt fer saman kemst maður ekki undan því að leggja við hlustir. Ég tek undir þau orð flm. sem lúta að lífs- og manngildismati byggðu á siðferðilegum grunni, og auðvitað er lífið sjálft okkur dýrmætast allra fjársjóða. Einmitt þess vegna erum við í vanda stödd þegar staðið er frammi fyrir því að hindra þá hringrás sjálfrar náttúrunnar. Við erum í vanda stödd þegar ákvarða á réttinn til lífsins út frá fyrir fram gerðu mynstri, í sumum tilfellum í gerviþjóðfélagi. Þar er sannarlega erfitt að velja og hafna.

Meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir að fóstureyðing sé ekki framkvæmd af félagslegum ástæðum. Enda þótt skoðanir mínar og hv. flm. fari að ýmsu leyti saman varðandi þetta mál tel ég ekki ráðlegt að svo stöddu, — ég endurtek: að svo stöddu, að stíga það skref sem gert er ráð fyrir í umræddu frv. Þessi mál þurfum við að athuga miklu betur.

Hv. flm. segir réttilega að félagslegur vandi verði ekki leystur nema með félagslegum ráðstöfunum. En þá verðum við að gera okkur grein fyrir því, hvers eðlis félagslegar ráðstafanir eru. Almennt má segja að félagslegar ráðstafanir séu lagfæring á hinum ytri fjárhagslegu aðstæðum hópa og einstaklinga í þessu þjóðfélagi Ég ætla ekki að neita því, að í stöku tilfelli sé barn óvelkomið í þennan heim á forsendum fátæktar eða annars aðstöðuleysis móður, en úr því má vissulega bæta í mörgum tilvikum. Hins vegar geta tímabundin eða viðvarandi vandamál fólks verið með svo ólíkum og margvíslegum hætti að tryggingalöggjöf, hversu vel sem hún er úr garði gerð, tryggi alls ekki að afkvæmi sé velkomið í þennan heim, tryggi alls ekki þá móðurhlýju sem er forsenda fyrir líkamlegu og andlegu heilbrigði ungbarnsins.

Þegar við ræðum þessi mál hljótum við að gera samanburð á fjölda fóstureyðinga fyrir og eftir 1975 eða miðað við gildistöku núverandi laga. Svo sem fram hefur komið hefur orðið veruleg fjölgun skráðra fóstureyðinga síðan 1975. En er sú fjölgun eingöngu á forsendum félagslegra ástæðna eða er eitthvað annað sem þarna kemur til?

Ef við athugum fyrst aukninguna fyrir 1975 kemur í ljós að um allverulega fjölgun hefur verið að ræða. Árið 1971 eru skráðar, eins og fram hefur komið, 142 fóstureyðingar, en 1974 eru skráðar fóstureyðingar 224, þannig að um svo mikla aukningu hefur verið að ræða að spurningar hljóta að vakna um framkvæmd þágildandi laga. Voru t.d. skáldaðar forsendur til þess að koma í framkvæmd fóstureyðingu í einhverjum tilfellum? Og spurningar hljóta að vakna um það, hversu margar fóstureyðingar hafi verið framkvæmdar hérlendis og erlendis án þess að þær væru skráðar. Því miður fást aldrei nein svör við þessum spurningum, og þess vegna er tölulegur samanburður afskaplega erfiður þótt ekki sé meira sagt. Miðað við þróunina frá 1971 – 1974 má ætla að veruleg fjölgun hefði orðið á skráðum fóstureyðingum hin síðari ár, enda þótt lögunum hefði ekki verið breytt. Þessi atriði öll verðum við að hafa í huga þegar reynt er að meta áhrif lagasetningarinnar frá 1975. Ég vil hins vegar alls ekki draga fjöður yfir það, að mér þykir tala fóstureyðinganna hér á landi orðin ískyggilega há.

Þá vaknar aftur sú spurning, hvort túlkun laganna og framkvæmd þeirra sé í þeim anda sem ætlast var til. Væri ekki ástæða til þess að fara ofan í saumana á því, svo menn viti raunverulega hvað hér er á ferðinni? Einnig væri fróðlegt að vita hvort vegur þyngra á metum í beiðni kvenna um fóstureyðingu undir yfirskini félagslegra ástæðna sjálf meðgangan eða umönnun barnsins sem sjálfstæðrar veru. Mér er ekki heldur ljóst hver er tillöguréttur föðurins miðað við hinar ýmsu forsendur fóstureyðingar, að sjálfsögðu frá þeim sjónarhóli að um hjúskap eða sambýli sé að ræða. Stundum heyrir maður orð á þessa leið: Jöfn foreldraábyrgð. — Ég ítreka að við getum ekki áttað okkur á þessu út frá tölunum einum saman. Við verðum að skyggnast nánar inn í hina raunverulegu framkvæmd laganna.

Hvað varðar fóstureyðingu fyrir tólftu viku meðgöngu á máli læknisfræðinnar táknar hún ekki líflát, aðeins aðgerð. Hins vegar getur fóstureyðing, að því er ég hef heyrt, valdið ófrjósemi hjá konunum. En burtséð frá allri læknisfræði hljótum við þó iðulega að gera okkur grein fyrir því, á hvaða stigum okkur er leyfilegt að grípa fram í fyrir sjálfu sköpunarverkinu. Í þessu sambandi má einnig minna á að ein tegund getnaðarvarna, sem nefnist lykkja, verkar, að ég held, þannig að hún varnar raunverulegum fósturþroska á frumstigi. Það verður sem sagt frjóvgun. Aftur á móti kemur pillan í veg fyrir frjóvgun. Hins vegar hefur maður heyrt að um margvíslegar aukaverkanir væri að ræða af hennar völdum og það lífshættulegar.

Svo ég haldi örlítið áfram veit ég ekki betur en að konum sé boðin ófrjósemisaðgerð eftir fjórða barn, a.m.k. er það þannig á einum spítala þar sem ég þekki til. Þessi mál eru því síður en svo einföld nú á tímum, á tímum fjölskylduáætlana, agaleysis og undanlátssemi — því miður.

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan vil ég að þessi mál verði athuguð gaumgæfilega með tilliti til reynslu undanfarinna ára. En væri ekki rétt fyrst í stað að þrengja þær starfsreglur sem gilda um fóstureyðingar af félagslegum ástæðum? Ég verð að segja það á þessu stigi, að ég óttast svolítið að ef við göngum lengra muni þeir e.t.v. verða harðast úti sem síst skyldi. En þetta mál mun koma til n., og vonandi á ég þar hlut að því að athuga það gaumgæfilega, eins og ég gat um áðan.