13.03.1980
Efri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

114. mál, ráðgjöf og fræðsla varðandi fóstureyðingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja með því að þakka hv. 2. þm. Austurl. og hv. 3. þm. Vesturl. fyrir þau vinsamlegu orð og viðurkenningarorð sem þeir beindu til mín í máli sínu. En við erum ekki sammála um þetta frv., og þessir hv. þm. hafa báðir komið inn á nokkur atriði.

Hv. 2. þm. Austurl. sagði, að ákvörðunarréttur konunnar væri þungamiðja þessa máls, og hann skírskotaði til frelsisins í því sambandi. Ekki vil ég hér gera lítið úr frelsinu. Ég tel að það sé eitt af mestu verðmætum, sem við getum kosið okkur, að njóta frelsis. Margt hefur verið talað um frelsið og frelsið á marga formælendur. En ég hygg að við getum verið sammála um það, að svo mjög sem við elskum frelsið verðum við að setja því viss takmörk. Við verðum að setja því þau takmörk að það skerði ekki frelsi annarra. Þetta er grundvallaratriði. Menn hefur oft greint á í þessu efni og hefur sjálfsagt gert það frá því að sögur hófust. Og okkur greinir á um það í ýmsum samböndum, hvar á að takmarka frelsið hjá einum til þess að annar njóti frelsis.

Frelsinu hefur oft verið veifað í vafasömum tilgangi og á þann hátt haldið frelsi fyrir öðrum. Eitt af því, sem er ákaflega minnistætt úr sögunni, eru t.d. deilurnar um hvort ætti að gefa svertingjunum í Bandaríkjunum frelsi. það voru ákaflega harðar deilur um þetta og borgarastyrjöld. Þeir, sem vildu það ekki, sögðu að í nafni frelsisins kæmi það ekki til greina, vegna þess að þeir, sem ættu þrælana, ættu að hafa frelsi til þess að ráðstafa þeim og nota þá. Svo voru hinir sem sögðu: Það verður, hversu gott sem frelsið er, að takmarka það vegna þess að svertingjarnir og allt mannlegt líf er borið til sama frelsis.

Með þessum orðum er ég að sjálfsögðu ekki að láta liggja að því, að hv. 2. þm. Austurl. hafi ekki talið rétt að þrælunum væri gefið frelsi. Ég efast ekki um að hann er nákvæmlega á sömu skoðun og ég í því efni. En ég vek athygli á því, að í því máli, sem við hér ræðum um, er ekki bara um að ræða frelsi konunnar, það er ekki bara um að ræða frelsi til þess að tortíma mannlegu lífi, það er líka um að ræða frelsi til að viðhalda mannlegu lífi.

Hv. 2. þm. Austurl. taldi, og svo gerði reyndar einnig hv. 3. þm. Vesturl., að ástæðurnar fyrir hinni miklu fjölgun fóstureyðinga hér á landi, frá því að lögin frá 1975 voru sett, séu e.t.v. ekki fyrst og fremst sú lagsetning, heldur aðrar, m.a. að nú væru fóstureyðingar, sem áður hefðu verið framkvæmdar ólöglega, framkvæmdar löglega og að fóstureyðingar, sem hefðu verið framkvæmdar á íslenskum konum erlendis, væru nú framkvæmdar innanlands. Auðvitað hefur þetta einhver áhrif. En skoðun mín er sú, að hér sé að leita í mjög litlum mæli ástæðunnar fyrir margföldun fóstureyðinga sem hefur átt sér stað frá því að lögin frá 1975 voru sett. Ég hef hér eina tölu sem gefur vissa vísbendingu um þetta, og ég hef áður komið fram með þá tölu hér í umræðum.

Hv. 2. þm. Austurl. virtist mér muna eftir því, eins og orð hans féllu áðan.

Fyrir 1975 var talið að íslenskar konur, sem leituðu til útlanda til að fá fóstureyðingu, færu fyrst og fremst til Bretlands. Það var ekki bundið við Bretland, en fyrst og fremst. En það liggja fyrir upplýsingar úr heilbrigðisskýrslum heilbrigðisstjórnarinnar í Bretlandi um að á árinu 1974, síðasta árið áður en fóstureyðingalöggjöfin var sett, hafi 23 íslenskar konur látið eyða fóstri í Bretlandi. Og þegar við höfum í huga hina miklu aukningu, sem ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni á fóstureyðingum, held ég að þessi tala, þó ekki sé nema ein, gefi visst hugboð um að það sé raunar svo, að löggjöfin sjálf sé höfuðhvati að þeirri fjölgun fóstureyðinga sem orðið hefur frá því að hún var sett.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að það væri ekki ráðlegt að svo stöddu að breyta lögunum, og þá skildi ég hann svo, að það kynni að verða síðar ástæða til þess að breyta þeim og þá á þann veg að þrengja heimildir til fóstureyðinga. En höfum við efni á að bíða aðgerðalausir eftir frekari reynslu á þessum lögum en orðið er? 1978 voru um 500 fóstureyðingar. Við getum öll látið hugann reika og hugsað okkur hver væri breytingin í þjóðfélagi okkar eftir 20 ár ef þessi 500 mannslíf hefðu fengið að halda lífi.

Þá sagði hv. 3. þm. Vesturl. að tryggingalöggjöfin gæti ekki tryggt allt. Ég er honum algjörlega sammála um þetta. Við getum aldrei sett slíka löggjöf að hún leysi öll þau vandamál sem menn kunna að vilja flokka undir félagsleg vandamál. Það verður aldrei. En það þýðir ekki að samt sé ekki ýmislegt og ég vil segja margt ógert í þessu efni. Við eigum að sameinast um að bæta tryggingalöggjöfina þannig að með þeim hætti séu fjarlægð ýmis félagsleg vandamál sem nú heimila fóstureyðingu.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði eitthvað á þá leið, að samkvæmt læknisfræðinni væri það ekki líflát ef fóstri væri eytt innan tólf vikna. Ég held að það sé ekki, hvað sem öðru líður, rétt að telja að læknisfræðin hafi úrskurðað eitthvað í því efni. Hv. þm. sagði að fóstureyðing væri þá samkv. þessari skilgreiningu ekki líflát, heldur aðgerð. Og ef það er þá aðgerð, þá er það eins og þurfi að skera kýli. Það er ekkert annað. En ég held að hér sé um að ræða grundvallarmisskilning. Við værum ekki að ræða þetta mál hér og það væru engar takmarkanir á fóstureyðingum ef gengið væri út frá því að það mætti jafna henni við aðgerð. Það er einmitt það sem við megum aldrei gera og gerum ekki. Og þó að hv. 3. þm. Vesturl. kæmi með eitthvað frá læknavísindunum í þessu efni, þá efast ég ekki um að hann sé mér sammála um að þegar betur er að gáð jöfnum við ekki saman fóstureyðingu og einhverri venjulegri aðgerð.

Þeir hv. þm., sem hér hafa talað eru báðir í hv. heilbr.og trn. sem kemur til með að athuga þetta mál. Ég efast ekki um að þeir muni athuga það af kostgæfni og samviskusemi og nefndin reyndar í heild.

Mér mun hafa láðst í fyrri ræðu minni að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til heilbr.- og trn., og það geri ég hér með og vænti þess sannarlega að af þessu frv. geti eitthvað gott leitt.