09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

40. mál, lögfræðiaðstoð

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Frv. það um lögfræðiaðstoð, sem hér liggur fyrir, er þannig til komið að í samstarfsyfirlýsingu þeirra flokka, sem stóðu að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1978–1979, var lýst yfir að ríkisstj. mundi beita sér fyrir greiðari aðgangi almennings að dómstólum, svo sem lögfræðilegri aðstoð, án endurgjalds.

Hinn 24. okt. 1978 var skipaður starfshópur til þess að huga að lagareglum um ókeypis lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum með bréfi dags. 27. apríl 1979, og var lagafrv. það, sem fylgdi, lagt fyrir Alþ. í þinglok á s.l. vori, en kom þá ekki til umr. Þáltill. höfðu alþm. Svava Jakobsdóttir og Ragnar Arnalds komið fram með á löggjafarþinginu 1974–1975 um þetta sama efni og var þeirri till. vísað til ríkisstj. Fór fram gagnaöflun í framhaldi af till. þeirra.

Í grg. þessa frv. er skýrt frá fyrirkomulagi lögfræðiaðstoðar í ýmsum löndum og vil ég vísa til þeirra upplýsinga.

Engar lagareglur hafa verið hér á landi til þessa um lögfræðiaðstoð fyrir efnalitla. Hefur starfshópurinn fyrst og fremst mótað tillögur sínar eftir lagareglum í Danmörku og Noregi um þetta efni, en þó með séraðstæður hér á landi í huga. Það er lauslegt mat starfshópsins að reglur frv. um efnahagslega viðmiðun og rétt til að njóta aðstoðar samkv. því muni veita þann rétt u.þ.b. 4/5 hlutum einstaklinga, en liðlega helmingi giftra aðila eða í sambúð.

Reglur frv. um þá málaflokka, sem aðstoðin nær yfir, eru raktar í 1. gr. frv. Svo sem upptalning greinarinnar ber með sér nær aðstoðin til allra þeirra sviða þar sem helst koma til ágreiningsefni og til greina kemur að leggja þurfi fyrir dómstóla. Hafa verður í huga að hér er um að ræða algera nýjung í íslenskum rétti, sem brýn þörf er að vísu á, en óhjákvæmilegt er að láta reynsluna skera úr um hvort reglur, sem hér er gerð till. um, leysi nægilega úr þeirri þörf sem þeim er ætlað að leysa. Að öðru leyti vil ég vísa til frv.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.