01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

128. mál, rekstrarafkoma nokkurra fyrirtækja

Spurt er:

1. Hver var rekstrarafkoma eftirtalinna fyrirtækja árið 1981, sem eru að hluta til eða öllu leyti í eigu ríkissjóðs, og hver er áætluð rekstrarafkoma þeirra árið 1982?

1. Járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði.

2. Kísiliðjunnar við Mývatn.

3. Áburðarverksmiðju ríkisins.

4. Álafoss hf.

5. Sementsverksmiðju ríkisins.

6. Siglósíldar.

2. Ef taprekstur hefur orðið eða er fyrirsjáanlegur hjá þessum fyrirtækjum, hvernig er hann fjármagnaður?

3. Hafa einhver þessara fyrirtækja tekið erlend lán undanfarin ár vegna rekstrartaps (1980–82) og hver er greiðslubyrði þessara lána á árinu 1982?

Svar:

Í eftirfarandi yfirliti er spurningunum svarað eins og þær koma fyrir í fyrirspurninni þ. c. 1.1. er svar við fyrstu spurningu, 1.2. er svar við annarri spurningu o. s. frv.

Eftirfarandi upplýsingar fengust hjá viðkomandi fyrirtækjum:

1. Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði.

1.1. Rekstrartap járnblendifélagsins 1981 var 64,4 Mkr. Af því voru 37,3 Mkr. vextir, en 39,1 Mkr. afskriftir. Áætlað tap 1982 er 170 Mkr., þar af vextir 120 Mkr. og afskriftir 62,3 Mkr.

1.2. Eftirtaldar ráðstafanir voru gerðar til að mæta rekstrartapi félagsins:

a) Hlutathafalán skv. upphaflegum fjármögnunaráætlunum voru jafnvirði 44 millj. norskra króna. Þessi lán þurfti ekki að nota til byggingar verksmiðjunnar þar eð hún varð verulega ódýrari en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun. Ásamt með venjulegum rekstrarlánafyrirgreiðslum í banka entust þessi hluthafalán til áramóta 1981/1982.

b) Með bankalánum að upphæð USD 6 millj. til 5 ára frá maí 1982, með ábyrgð eigenda félagsins. Lánið safnar upp vöxtum allan lánstímann.

c) Lánsheimild banka allt að USD 10 millj. ótryggð, en bundin skilyrðum um eignarfjárhlutfall fyrirtækisins. Þessi lánsheimild hefur ekki komið að notum vegna gengisþróunar milli norskrar krónu (NOK) og bandaríkjadollars (USD). Skuld skv. þessari heimild er því engin.

d) Hluthafalán 1982 námu samtals jafnvirði 54,6 millj. NOK, sem að verulegu leyti voru notuð til að greiða upp rekstrarlán skv. lið e).

e) Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um frambúðarfjármögnun félagsins.

1.3. Félagið hefur tekið öll þau lán sem að framan er getið og að hluta til samið um frestun afborgana af lánum. Lánin eru öll í erlendum gjaldmiðli. Svo er um samið í lánasamningum við aðra kröfuhafa að hluthafalán eða vextir af þeim megi ekki greiðast fyrr en seint og með miklum takmörkunum gagnvart öðrum lánveitendum. Því er greiðslubyrði félagsins vegna þessara lána 1982 engin.

2. Kísiliðjan við Mývatn.

2.l. Á árinu 7981 var rekstrarhalli 7 Mkr. Áætlaður rekstrarhalli á árinu 1982 er 6 Mkr.

2.2. Vegna tapreksturs, endurgreiðslu lána og fjárfestinga hefur Kísiliðjan á árunum 1981 og 1982 átt við fjárhagsörðugleika að etja. Fjárvöntun hefur verið mætt með töku erlendra lána og yfirtöku ríkissjóðs og Manville á hluta af skuldum fyrirtækisins samtals USD 1 590 000.

2.3. Í árslok 1981 tók Kísiliðjan hf. með milligöngu ríkissjóðs lán sem nam USD 367 000 og á seinni hluta árs 1982 tók Kísiliðjan lán með milligöngu Landsbankans sem nam 350 þús. þýskum mörkum. Endurgreiðslur þessara lána hefjast á árinu 1983.

3. Áburðarverksmiðja ríkisins.

Rétt er að !aka fram að þetta fyrirtæki heyrir undir landbúnaðarráðuneytið.

3.l. Rekstrarhalli árið 1981 var 19 Mkr. eða 12,5% af veltu. Verulegur rekstrarhalli hefur orðið á árinu 1982 en tölulegar upplýsingar liggja ekki fyrir.

3.2. Rekstrarhalla var að stærstum hluta mætt með erlendum lánum.

4. Álafoss.

Framkvæmdasjóður er eigandi Álafoss.

4.l. Á árinu 1981 var tap á rekstri fyrirtækisins að upphæð 2,9 Mkr. Reiknað er með lítilsháttar hagnaði á árinu 1982.

4.2. Rekstrartapi ársins 1981 var mætt með því að ganga á eigið fé fyrirtækisins.

4.3. Engin erlend lán hafa verið tekin til að mæta rekstrartapi ársins 1981.

5. Sementsverksmiðja ríkisins.

5.1. Rekstrarhalli 1981 var 10,7 Mkr. Gert er ráð fyrir óverulegum rekstrarhalla á árinu 1982.

5.2. Með erlendum lántökum.

5.3. Greiðslubyrði vegna erlendra lána á árinu 1982 nam 6,0 Mkr.

6. Siglósíld.

6.l. Rekstrarhalli 1981 var 3,8 Mkr. Á árinu 1982 var verulegur rekstrarhalli hjá fyrirtækinu, enda framleiðsludagar aðeins 93.

6.2. Fjármögnun taprekstrar er þannig: a) Óendurkræf framlög ríkissjóðs, b) Bráðabirgðalán ríkissjóðs, c) Langtímalán atvinnuleysistryggingasjóðs og d) Langtímalán ríkisábyrgðasjóðs.

6.3. Fyrirtækið hefur ekki tekið erlend lán til að fjármagna taprekstur önnur en lán ríkisábyrgðasjóðs sem að stórum hluta hefur verið varið til fjárfestinga.