09.04.1984
Efri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4547 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

284. mál, söluskattur

Flm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Söluskattsmál hafa sannarlega verið til mikillar umr. nú að undanförnu og hæstv. ríkisstj. hefur sérstaklega verið með öll söluskattsmálin til umfjöllunar á sínu borði og ekki enn þá ljóst hvað út úr því starfi kemur. Þetta frv. er í raun og veru eins konar framhaldssaga hér í hv. deild allt frá 1977 því að forsaga málsins er sú að á sínum tíma giltu um öll verksmiðjuframleidd hús, öll einingahús, allt aðrar reglur hvað varðaði innheimtu söluskatts en á öðru húsnæði sem byggt var á byggingarstað.

Við þetta varð vitanlega ekki unað, alveg sérstaklega þar sem hér var um að ræða mjög áhugaverða framleiðslu þar sem gætt var mikils hófs í öllum kostnaði og um verulega atvinnubót að ræða víða í minni byggðarlögum. Þá fluttum við hv. núv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og þáv. hv. varaþm. sem sat þá á þingi, Hannes Baldvinsson, frv. til l. um það að þessu yrði breytt á þann hátt að vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð sem unnin er á byggingarstað, svo og í verksmiðju, á verkstæði eða starfsstöð, yrði undanþegin söluskatti. Hér var í raun og veru ekki um neina nýja undanþágu að ræða heldur aðeins samræmingu við almenna byggingarstarfsemi í landinu þannig að sama . gilti um undanþágu frá söluskatti hvort sem húsið væri byggt á byggingarstað eða byggt í verksmiðjum eins og einingahúsin hafa verið.

Á þessu varð sú breyting að eftir að við höfðum flutt þetta frv. tvisvar tók hæstv. þáv. fjmrh. af skarið, hv. 4. þm. Austurl. Tómas Árnason, og bar fram stjórnarfrv. um það að íbúðarhús yrðu undanþegin söluskatti þó þau væru framleidd í verksmiðjum.

Okkur þótti sannast sagna ekki nóg að gert þó að þetta væri langmikilsverðasti þátturinn því hér er um hreint samræmingaratriði að ræða eins og ég sagði áðan og á ekkert skylt við það hvort undanþágur almennt frá söluskatti eiga rétt á sér eða ekki. Við sem flytjum þetta frv. nú hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson, hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason og hv. 5. þm. Vesturl. Davíð Aðalsteinsson, erum á þeirri skoðun að hér eigi að koma inn í til viðbótar við íbúðarhúsin, barnaheimilin og leikskólana — en við fengum, nokkrir þm., barnaheimilin og leikskólana inn fyrir tveimur árum síðan — eigi að koma félags- og safnaðarheimili. Ekki er að vísu mikið um slíkar byggingar en þó eru þær til. Auk þess eigi atvinnuhúsnæði að bætast við. Um það skuli gilda sömu reglur og gilda nú um verksmiðjuframleitt íbúðarhúsnæði, barnaheimill og leikskóla sem þegar eru inni.

Í raun og veru skiptir atvinnuhúsnæði hér mestu máli. Ég bendi á það að smærri atvinnurekstur vill gjarnan nýta sér þessa möguleika. Hér er ekki um að ræða að stórfyrirtæki fari að láta verksmiðjuframleiða fyrir sig hús af þessu tagi heldur er hér um að ræða m. a. ýmsa smærri iðngarða, úti á landsbyggðinni alveg sérstaklega, og smærri iðnrekstur þar sem svona verksmiðjuframleidd hús koma sér sérstaklega vel.

Ég held að forsaga þessa máls og sanngirni og réttlæting þess sé nægilega rakin í grg. En ég tek það fram að sú mismunun söluskattsinnheimtu sem gildir hér enn þá eftir því hvort vinnan er unnin á byggingarstað eða í verksmiðjum er með öllu óviðunandi og í raun og veru endaleysa. En þrátt fyrir að nú sé mjög um undanþágur frá söluskatti deilt og jafnvel talið að í þeim felist fyrst og síðast möguleikar til undanskots frá skilum er það sem fyrr skoðun flm. að sama regla hljóti að eiga að gilda um verksmiðjuframleiddar byggingar sem aðrar byggingar í landinu. Því skal enn leitað vilja Alþingis til samræmingar og réttlætis í þessum málum og því er frv. þetta flutt.

Ég gæti haft langt mál um söluskattinn almennt, innheimtu hans, skil hans og annað því um líkt. En eins og gengið var frá þessu máli við afgreiðslu þess þegar barnaheimilin og leikskólarnir voru teknir inn í til viðbótar við íbúðarhúsin hygg ég að óvíða, ef nokkurs staðar, sé um betri skil að ræða á sanngjörnum hluta söluskatts en einmitt á hinum verksmiðjuframleiddu húsum. Ég hygg að það sé alveg ótvírætt, það er fylgst það vel með því — sem betur fer, segi ég því að vitanlega er ekki verið að gera þessar undanþágur nema í raun og veru til þess að létta byggingarkostnað, létta ákveðnum kvöðum af húsbyggjendum og öðrum þeim sem þurfa að byggja yfir starfsemi sína t. d. Afleiðing þess að þessi söluskattur væri lagður á aftur að fullu á allar slíkar byggingar yrði einfaldlega hærri byggingarkostnaður og á hann hélt ég að væri ekki bætandi. Ég held að þessi samræming sé því nauðsyn og því leggjum við til að við það sem fyrir er bætist félags- og safnaðarheimili og atvinnuhúsnæðið þó að ég telji enn þá að það hefði átt að vera altæk heimild um það að öll verksmiðjuframleidd hús ættu að falla undir þessa lagagrein.

Ég vil svo, virðulegi forseti, að lokinni þessari umr. leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.