04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5361 í B-deild Alþingistíðinda. (4652)

284. mál, söluskattur

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum var ákveðið með lögum frá Alþingi að framleiðendur verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa mættu draga við söluskattsuppgjör tiltekinn hundraðshluta verðsins frá heildsöluverði með það í huga að bygging húsa á byggingarstað er söluskattsfrjáls. Síðar var á það fallist hér á Alþingi með lagabreytingu að ákvæði þetta ætti einnig við barnaheimili og leikskóla, auk almenns íbúðarhúsnæðis. Frv. það sem hér er til umr. snýst um það að bæta hér enn við og þá þeim byggingum sem ætlaðar eru fyrir félags- og safnaðarheimili, svo og til atvinnurekstrar.

Hv. fjh.- og viðskn. hefur fjallað um mál þetta og komist einróma að þeirri niðurstöðu að sjálfsagt sé að veita því brautargengi. Nefndin mælir því með samþykkt frv.