11.12.1986
Neðri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. til l. um breytingar á lögum nr. 53/1984, um Ríkismat sjávarafurða, á þskj. 263, sem hæstv. sjútvrh. var að lýsa áðan, er að ýmsu leyti táknrænt fyrir ýmis vinnubrögð hæstv. sjútvrh. Þó er það sem betur fer ekki alfarið, en kemur býsna oft fyrir. Frv. er lagt fram 9. des. og það var á dagskrá 10. des., í gær, og þá var hugsunin að afgreiða það til nefndar. Það er eftirtektarvert að breytingalögin eiga að taka gildi 1. jan. n.k. Það virðast vera álög á þessum hæsts. ráðherra að hann hefur þá tilhneigingu að koma ærið oft á síðustu stundu með veigamikil lagafrv. og keyra þau í gegnum þingið á skömmum tíma þannig að þau fá alls ekki þinglega meðferð. Oft tekst þetta hjá ráðherranum en stundum ekki. Eitt dæmið er selafrv. sem hefur haft gott meirihlutafylgi á Alþingi en dagaði uppi a.m.k. tvisvar ef ekki þrisvar, ég man það ekki nákvæmlega, vegna þess hversu seint það hefur verið fram lagt. Það mætti nefna mörg fleiri dæmi um vinnubrögð hjá þessum hæstv. ráðh.

Í frv. þessu er efnisbreytingin sú að Ríkismatið hætti að meta ferskan fisk og eiga lög þessi að taka gildi um áramót n.k. Hverjir skyldu eiga að taka við þessu þjóðhagslega mikilvæga starfi sem er það mikilvægt að það getur tryggt okkur markaði og það getur sett okkur út af mörkuðum?

Í grg. með frv. er sagt að hagsmunaaðilar semji um það sín á milli hvernig þessum málum verður háttað. Jafnframt er tekið fram í grg. að nægur tími ætti að vera til áramóta fyrir hagsmunaaðila til að koma sér saman um hvað við taki. Að vísu skal það viðurkennt að það kom fram hjá ráðherranum að nokkrar umræður hefðu farið fram um þetta í Landssambandi útvegsmanna, Sjómannasambandi, á fiskiþingi, en þar voru ekki samhljóða ályktanir eins og ráðherrann tók fram.

Þetta eru ærið vandasöm mál og mikið í húfi að vel takist. Ef frv. þetta yrði samþykkt á hæstv. Alþingi þá yrði það ekki fyrr en í lok næstu viku jafnvel þó sjávarútvegsráðherrahraði væri á. Það yrðu u.þ.b. 10-12 dagar til áramóta að jólahátíðinni meðtalinni. Virkir dagar mundu vera 5 eða 6. Það má nú segja að þarna sé gefinn ríflegur tími til þess að grunda málið vel. Hví í ósköpunum kemur ráðherrann ekki fyrr með þetta mál?

Ferskfiskeftirlitið hefur starfað í aldarfjórðung, eða frá 1961. Stofnun þess olli á sínum tíma þáttaskilum í fiskmeðferð og það hefur veitt mikið aðhald síðan þó oft hafi á það verið deilt bæði með réttu og röngu. Eitt er þó víst að því hefur hrakað umtalsvert í tíð núverandi sjútvrh. eftir að hann varð yfirmaður fiskmats á Íslandi.

Ein af rökunum í grg. eru að þær forsendur sem lágu að baki stofnunar Ferskfiskeftirlitsins séu ekki lengur fyrir hendi, t.d. hafi aukin sala á ferskum fiski erlendis hvatt menn til betri meðferðar. Hversu haldbær eru nú þessi rök?

Árið sem Ferskfiskmatið var stofnað var frystihúsavæðing ekki fyrir hendi í þeim mæli er síðar varð. Meiri hluti togaranna sigldi þá - og áður og eftir 1961 - með aflann á erlendan markað hluta ársins og sumir hverjir meginhluta ársins. Vandamálið hefur alltaf verið það að meðferð á þeim fiski sem selja á ferskan á erlendum markaði hefur verið betri en á þeim fiski sem landað hefur verið hérlendis. Þetta vandamál var til staðar 1961 þegar togararnir veiddu fyrir erlendan markað. Ef þeir hættu við siglingu af einhverjum ófyrirséðum ástæðum þá var það hráefni gjörólíkt að gæðum. Svo er enn í dag. Ég minnist þess fyrir svona 25-30 árum að ég vann við það af og til í heilan mánuð að vera eftirlitsmaður. Ég vann þá á fiskverkunarstöð og var eftirlitsmaður í sambandi við landanir úr togurum. Ekki var það nú beint á vegum Fiskmatsins - og þó. Það var ekki að sökum að spyrja, ef þeir togarar sem höfðu hætt við siglingu lönduðu hér heima þá var um allt annað hráefni að ræða. Þetta þekkja allir sjómenn. En aftur á móti var þetta ærið erfitt ef farið var út í túr og vitað var að landað yrði heima.

Útflutningur á ferskum fiski hefur aldrei leyst þau vandamál sem eru fyrir hendi að því er varðar gæði og meðferð á fiski sem landað er innanlands. Rökin í grg. eru því mjög haldlítil. Helstu rökin gætu verið þau að á nokkrum stöðum á landinu er hluti af afla settur í gáma og ég býst við því að það séu einu rökin sem hægt er að koma fram með, en hvort það leiðrétti eða rökstyðji slíkar aðgerðir dreg ég mjög í efa.

Í grg. er bent á að í frv. til fjárlaga sé gert ráð fyrir því að ferskfiskmat í núverandi mynd verði lagt niður 1. jan. 1987. Þetta afsakar ekki þau flausturslegu vinnubrögð sem hér eiga sér stað. Frá stofnun Ferskfiskeftirlitsins var séð fyrir tekjustofni til þess að standa straum af kostnaði við eftirlitið. Upphaflega var þar um að ræða 1,5 prómill af verðmæti útfluttra sjávarafurða. Þegar sjóðakerfi sjávarútvegsins var einfaldað að tillögu Matthíasar Bjarnasonar þáv. sjútvrh. var áfram séð fyrir tekjum til eftirlitsins með skatti af útfluttum sjávarafurðum. Það er búið að afnema þetta og hefur verið gert í ráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. En þetta kemur allt í einn stað niður. Í 23. gr. laga um Ríkismatið er heimild til þess að innheimta kostnað af störfum matsmanna hjá kaupendum og seljendum afla. Þetta ákvæði hefur verið notað til að standa straum af kostnaði við stærðarmat en lagaheimildin nær einnig til gæðamats. Þetta eru ekki aukaútgjöld fyrir kaupendur og seljendur því ef þeir ráða menn í þessi matsstörf þá liggur það ekki fyrir að þau verði unnin af sjálfboðaliðum, heldur hefur verið reiknað með að það væru launuð störf. Þetta afsakar því í engu þau flausturslegu og óþinglegu vinnubrögð sem hér á að viðhafa.

Í 2. gr. þessa frv. er lagt til að felld verði niður 1. mgr. 10. gr. laganna um Ríkismatið, en 10. gr. hljóðar svo:

„Matsmenn framkvæma undir stjórn yfirmatsmanna eftirlit það og mat sem lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim gera ráð fyrir.“

Í grg. segir að þetta sé nauðsynlegt þar sem stöður ferskfiskmatsmanna séu lagðar niður. En nú bið ég menn að athuga. Ég fæ ekki betur séð en að stjórn yfirmatsmanna á matsmönnum sé þarna afnumin og þá sé það ekkert bundið við ferskfiskmat. Ef þetta er eingöngu bundið við ferskfiskmat, hvar er það í lögunum? Ég hef ekki rekist á það. Valdið er tekið af yfirmatsmönnum til þess að stjórna matsmönnum og gefa þeim fyrirmæli. Þessi brtt. um að fella þennan lið niður jafngildir því að leggja Ríkismatið niður. Það er svo aftur á móti allt annað mál. Með afnámi þessarar greinar er stjórn yfirmatsmanna afnumin og þeir geta engin fyrirmæli gefið í neinni vinnslugrein séu lögin lesin.

En það er ekki ein báran stök í þessu frv. Manni verður á að spyrja: Hvað um síldarmatið? Síldarmatsmenn Ríkismatsins eiga eftir að taka út rúmar 200 000 tunnur af síld. Ekki gera þeir það fyrir áramót. Eftir áramót geta þeir engin fyrirmæli gefið matsmönnum stöðvanna og þar af leiðandi enga síld tekið út. Ég held að þarna hljóti að hafa skolast til í lagasmíð sjútvrh. og ég vildi biðja hæstv. sjútvn. deildarinnar að athuga þessi mál betur fyrir ráðherrann. Ráðuneytið sjálft veldur þessu greinilega ekki.

Fróðlegt er að upplýsa það nú að í hinum löngu og erfiðu samningaviðræðum um sölu saltsíldar til Sovétríkjanna í haust þá kröfðust Sovétmenn þess að allt mat á síld frá Íslandi færi fram í Sovétríkjunum, af Sovétmönnum sjálfum og Sovétmenn einir önnuðust þetta mat. Íslendingar harðneituðu þessu og vildu hafa matið áfram á Íslandi og í höndum Íslendinga. Þegar íslensku samningamennirnir spurðu hvort ástæða væri til þess að vantreysta íslenska síldarmatinu þá viðurkenndu Rússar að íslenska síldarmatið væri það langbesta sem þeir þekktu og féllu frá þeirri kröfu sinni að Rússar framkvæmdu sjálfir síldarmatið í Rússlandi. Ef þessar lagagreinar eru teknar eins og þær liggja fyrir í frv. - þeim má breyta - en ef það er meining hæstv. ráðh. þá hafa Sovétmenn fengið óvæntan liðsmann sem er íslenski sjútvrh., æðsti maður síldarmatsins. Maður gæti hreinlega haldið að þarna væri KGB-maður á ferðinni. Ef frv. þetta verður samþykkt óbreytt þá geta síldaryfirmatsmenn og aðrir yfirmatsmenn engin fyrirmæli gefið. Er þetta ekki skýrt og skilja menn þetta ekki?

Ef 4. gr. frv., sem er umorðun á 13. gr., verður samþykkt eins og lagt er til í frv., hvað verður þá um 22. gr. laganna sem fjallar um sama efni og 13. gr. á að fjalla um? Það er ekki lagt til að hún sé lögð niður en þó er 22. gr. efnislega öðruvísi. Varla gilda báðar greinarnar, eða hvað? Frv. þetta er illa undirbúið, seint á ferðinni og fagleg ráðgjöf hefur ekki verið úr fyrsta gæðaflokki hjá lagasmið.

Þess má geta að sú spurning vaknar: Hvernig á Verðlagsráð sjávarútvegsins að ákveða fiskverð fyrir tímann eftir áramót? Fiskverð hefur verið miðað við gæðaflokkun Ríkismatsins en nú er það flokkunarkerfi afnumið og hver kaupandi gæti þess vegna tekið upp sitt eigið kerfi. Fróðlegt væri að fá hugmyndir ráðherrans um þessi efni.

Ég vil taka undir það sem segir í grg. að fyrst og fremst er matið til þess að hafa eftirlit með gæðum en ekki verði. En það sýnir að þetta kallar á ýmis vandamál. Ég býst við að það væri nokkuð auðvelt að samræma þetta nýju kerfi. En eins og ég hef áður sagt þá er fiskmat vandasamt og mikið ábyrgðarstarf og eðli starfsins er þannig að um það hljóta eiginlega alltaf að standa deilur. Þess vegna verða öll lög og reglugerðir að vera skýrar og skilmerkilegar. Ef fiskmat bregst þá getur það valdið verðfalli og hruni á ýmsum greinum þeirrar atvinnugreinar sem framleiðir yfir 70% af okkar gjaldeyristekjum. Við höfum eitt nýlegt dæmi. Niðursuðuverksmiðja K. Jónssonar varð fyrir 45 millj. kr. tjóni vegna þess að fiskmat stóð sig ekki nógu vel. Og það var dálítið skondið að fiskmatsmaður fyrirtækisins er eigandinn sjálfur. Var Kristján Jónsson löggiltur framleiðslustjóri, þ.e. fiskmatsmaður, eða sjálfskipaður? Hvernig var því háttað? E.t.v. er þetta 45 millj. kr. tjón ekki það versta og um þetta deilum við örugglega ekki, ég og sjútvrh. Ég held að álitshnekkirinn hafi verið verstur því að þetta átti sér stað á mjög þýðingarmiklum markaði. Svona mætti lengi telja og þetta sýnir hætturnar sem alls staðar leynast. Þess vegna má ekki vera að kasta fram illa sömdum lögum og reglugerðum í þessu máli.

Ég vara menn við, sérstaklega sjútvn. Alþingis, að samþykkja í fljótræði einhver lagaákvæði í þessu viðkvæma og þýðingarmikla máli og málum. Ég stóð hér 1984 og varaði við nýjum lögum um fiskmat. Flm. þess lagafrv. var hæstv. sjútvrh. Ég rökstuddi ítarlega að margar greinar í lögunum væru ónákvæmar, ein greinin stangaðist á við aðra og enn aðrar væru óskiljanlegar með öllu. Sjútvn. þingsins lagfærðu frv. mikið en formælandi sjútvn. Ed. lýsti því yfir að nefndin hefði gert fleiri breytingar á lagafrv. ef til þess hefði unnist tími. Ef til þess hefði unnist tími. En lögin voru afgreidd á síðasta degi þingsins. Ég minni á upphaf ræðu minnar þar sem varað er við að kasta málum fram á síðustu stundu. Síðar komu reglugerðir á grundvelli þessara laga sem ollu deilum. Þá var leitað umsagnar eins virtasta lagaprófessors landsins, Sigurðar Líndals. Það er fróðlegt að heyra hvað lagaprófessorinn segir um þetta lagafrv. sem hæstv. sjútvrh. taldi bót mikilla meina og hefði hann fengið að ráða þá hefðu engar breytingar á því verið gerðar. En eins og ég tók fram var í Ed. sagt að vegna tímaskorts hefði ekki verið hægt að breyta þessu. Hvað segir lagaprófessorinn þegar leitað er álits hans á þessum fyrirmyndarlögum? Ég skal taka hér upp niðurlag af umsögn hans:

„Það skal að lokum tekið skýrt fram að hér er enginn dómur á það lagður hvernig æskilegast sé að haga mati og eftirliti með sjávarafurðum til útflutnings, heldur á það eitt að ekki hefur tekist að gera lögin og reglugerðina svo úr garði að neinni stefnu verði framfylgt svo viðunandi sé. Er þó líklega öllum ljóst að á sviði eins og þessu, þar sem miklir hagsmunir eru oft í húfi og veruleg hætta á árekstrum, er sérstök nauðsyn að reglur hvort heldur í lögum eða reglugerðum séu eins skýrar og skilmerkilegar og kostur er.“

Og síðan segir:

„Þessi lagasetning hefur tekist miklu miður en skyldi og hlýtur það að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir alþm. hvernig það gerist að lög þannig úr garði gerð komist í gegnum þingið. Einhver brotalöm virðist vera á tæknilegum undirbúningi löggjafar hér á landi. Reykjavík, 26. maí 1985. Sigurður Líndal prófessor.“

Þess má geta svona til gamans, þó það séu engin gamanmál, að mér er fortalið að í lagadeild Háskólans séu þessi lög lesin upp og reynt að skýra þau og að þau séu svona eins og kennslubókardæmi fyrir laganema um það hvernig lög eigi ekki að vera. Ég vil nú ekki nefna það nafn, það yrði óþinglegt, sem laganemar gefa þessum lögum, en þessi einkunn, sem prófessor Sigurður Líndal gefur Halldóri Ásgrímssyni sjútvrh. og reyndar öllum þm., á sér vart hliðstæðu. Og á nú að endurtaka svipaðan leik? Ég spyr ykkur, virðulegir alþm.: Er ekki nóg komið?