15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Út af fyrir sig er ég ekki mjög undrandi á afgreiðslu hv. sjútvn. Nd. Mér virðist að sjálfstæð umsögn hennar og sjálfstætt mat komi yfirleitt ákaflega lítið fram. Það sé meira og minna ráðherrapantað álit.

Ég minni á að 1984 voru samþykkt lög um Ríkismat sjávarafurða. Ég skýrði frá því við 1. umr. að ég hefði tekið hverja greinina á fætur annarri, bent á mótsagnir milli greina og ég hefði líka bent á að grg. og lagagreinar stönguðust á og frv. væri það illa unnið að forkastanlegt væri. Það má eiginlega best lýsa þessu með gömlu máltæki: Fyrst var spýta, svo var önnur spýta og svo var spýta í kross.

Þegar ég benti á þessa liði fór málið við 2. umr. til virðulegrar sjútvn. Þannig stóð á að hluti nefndarmanna var ekki viðstaddur. Varamenn voru kvaddir til og svo fór að þeir gáfu út álit sem síðan var afturkallað þegar aðalmenn komu aftur og frv. var töluvert breytt og þá til bóta. Síðan fór frv. í gegnum þessa virðulegu deild og komu til Ed. Þar var því aftur breytt og því lýst yfir að ef nefndinni hefði gefist tími til hefði hún flutt fleiri brtt. Og frv. var afgreitt á síðasta degi þingsins. En sá er háttur þessa hæstv. ráðherra, þó greindur sé og ötull ef því er að skipta, að hann er allra manna snjallastur í því að koma með frv. á síðustu stundu og láta þau klúðrast á hv. Alþingi þó drjúgur meiri hluti sé fyrir málinu.

Sem dæmi, og gæti ég nefnt fleira en eitt, er hið margfræga selafrv. sem hefur sennilega átt fylgi 70% þm., en það var afgreitt á síðustu nóttu. Einstakir þm. buðu ráðherra upp á ákveðin hrossakaup ella mundu þeir greiða atkvæði á móti selafrv.

Maður varð nokkuð undrandi að þetta frv. skyldi ekki vera lagt fram miklu fyrr. Þetta er dæmi um slæm vinnubrögð hæstv. ráðh. og veit ég satt að segja ekki hvað veldur því. Ekki verður hæstv. ráðh. vændur um greindarskort og ekki verður hann heldur ásakaður um að geta ekki tekið rösklega til hendi ef því er að skipta.

Ég las hér umsögn Sigurðar Líndals lagaprófessors við fyrri umræðu þar sem hann átelur mjög hvernig gengið sé frá þessum lögum og endar umsögn sína á því að segja, með leyfi forseta:

„Þessi lagasetning hefur tekist miklu miður en skyldi og hlýtur það að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir alþm. hvernig það gerist að lög þannig úr garði gerð komist í gegnum þingið. Einhver brotalöm virðist vera á tæknilegum undirbúningi löggjafar hér á landi.“

Með þetta steinbarn í maganum gengur hæstv. sjútvrh. og nú þarf að klastra upp á.

Það er mál út af fyrir sig, sem ég býst við að menn séu ósammála um, hvort eigi að leggja niður fiskmat ríkisins. Sumir eru þeirrar skoðunar. Það má geta þess kannske til fróðleiks að á sama tíma og menn eru þeirrar skoðunar hér voru Kanadamenn að efla og setja lög um ríkismat hjá sér fyrir þrem árum. Það gerðu þeir m.a. vegna þess að þeir töldu sig verða undir í samkeppni við Íslendinga. Það bar mjög á gölluðum fiski hjá þeim og urðu Íslendingar að ýmsu leyti samkeppnishæfari vegna þess hvað matshættir Kanadamanna voru slakir og frá þeim kom fiskur sem var óhæfur á markaði.

Það má geta þess til gamans að ég veit um tvo menn sem hafa verið hér háttsettir hjá fiskmati íslenska ríkisins en hefur verið boðið of fjár ef þeir vildu hverfa til Kanada og vinna þar um nokkurt skeið við endurskipulagningu kanadíska fiskmatsins vegna þess að af Íslendingum vilja þeir læra. Það er ákaflega athyglisvert að þau lög sem samþykkt voru í Kanada voru að verulegu leyti sniðin eftir íslensku lögunum og þar er meira að segja ferskfiskmat líka, allt á vegum ríkisins. Hins vegar er sá munur á að kaupendur og seljendur verða sjálfir að borga þetta fiskmat, þó á vegum ríkisins sé.

Ég gerði athugasemdir en fékk engin svör frekar en oft áður þegar sjútvrh. á í hlut og hann þarf að hespa skuggalegum málum í gegn. Þá er þessi prýðilega vel mælti maður eins og honum sé alls máls varnað sem er náttúrlega ásetningssynd en ekki annað.

Það sem ég var að finna að var í fyrsta lagi það að hér er verið að fjalla um eitt þýðingarmesta mál í íslensku atvinnulífi, 70% gjaldeyristekna koma frá sjávarútvegi. Hvernig staðið er að mati og tryggingu fyrir því að óhæfur fiskur sé ekki settur á erlenda markaði er því gífurlega mikið og stórt mál, svo stórt að það á ekki að hespa það hér í gegn, en þetta frv. var lagt fram tæplega viku fyrir jólafrí og það á að afgreiða það á tæpri viku. Þetta eru vinnubrögð sem heita á kurteislegu máli óþingleg og ég vildi bæta við ósæmileg. Hér eru ýmis flókin lagaatriði, óvenju flókin, vegna þess að þessum lögum var klúðrað svo hræðilega. Það er athyglisvert að þegar þessum lögum var breytt 1984 voru fyrir lög sem núv. hæstv. samgrh. og þáv. sjútvrh. leiddi í gildi. Þau lög voru ákaflega skýr og skilmerkileg, einföld, skýr og skilmerkileg. Það mátti deila um stefnuna í þeim, en það er ekki hægt að deila um lagasmíðina sjálfa. Hún var ákaflega vel af hendi leyst hjá þáv. hæstv. sjútvrh.

Að vísu tók núv. hæstv. sjútvrh. þetta að nokkru leyti í arf frá forvera sínum. Ég skal ekki fjalla um þau vinnubrögð sem áttu sér þarna stað, þessu var sem betur fer breytt töluvert í meðferð Alþingis, en þau þykja þó svo slæm að umsögn eins virtasta lagaprófessors er á þann veg sem ég gat um í fyrri umræðu og las niðurlag á áðan.

Það sem ég taldi fyrst og fremst ámælisvert var fyrirhuguð niðurfelling 1. mgr. 10. gr. laganna. Nú hafa hv. þm. ekki þessi lög um Ríkismat sjávarafurða fyrir framan sig. Í 10. gr. segir:

„Matsmenn framkvæma undir stjórn yfirmatsmanna eftirlit það og mat sem lög þessi og reglugerðir samkvæmt þeim gera ráð fyrir.“

Með því orðalagi sem lagt er til er allt vald tekið af yfirmatsmönnum. Ég var að benda á að ég héldi að þetta væri ekki tilgangur ráðuneytisins heldur væri tilgangurinn sá að leggja niður ferskfiskeftirlitið. Það er svo mál út af fyrir sig, að með því að fella þennan kafla niður, 1. mgr., er allt vald tekið af yfirmatsmönnum, ekki einungis í ferskfiskmati sem ég held að hafi verið tilgangur ráðuneytisins. Það er tekið af eftir orðanna hljóðan og umsögn þeirra lögfræðinga sem ég hef leitað til á þeim örstutta tíma sem ég hef haft til umráða til að fjalla þar um. Þeir benda mér hins vegar á að í grg. standi um 2. gr.:

„Með frv. er gert ráð fyrir að allar stöður ferskfiskmatsmanna verði lagðar niður, en yfirmatsmenn meti ferskan fisk sé leitað sérstaklega eftir úrskurði. Því þykir nauðsynlegt að fella niður þetta ákvæði.“

Þetta stenst nú ekki. En því í ósköpunum að hafa lög þannig að leitað sé í þoku eða dularfulla greinargerð. Ég veit ákaflega vel af hverju þetta er, af hverju þetta er fellt niður. Þetta er fellt niður vegna þess að þær reglugerðir sem hæstv. ráðh. hefur gefið út hafa ekki staðist skv. lögum og aðrar reglugerðir, sem hann hyggst koma með, koma ekki til með að standast.

Ég benti á í fyrri ræðu minni að samkvæmt þessu ákvæði laganna starfa matsmenn undir stjórn yfirmatsmanna. Með því að taka valdið af yfirmatsmönnum er ekki einungis verið að taka það af yfirmönnum ferskfiskseftirlitsins heldur er verið að taka það af öllu fiskmati og þá er nánast verið að leggja Ríkismatið niður. Það er ákveðin stefna og ég veit að hún á sér töluvert fylgi. En þá er bara að koma með tillögur að lögum um að leggja niður fiskmat ríkisins, en ekki að vera að lauma inn í lagagreinar að afnumin séu ákveðin ákvæði sem kippa grundvellinum undan fiskmatinu.

Þessi grg. er út af fyrir sig nokkuð vel samin, enda greinilega betur að verki staðið en var áður. Í henni stendur að allar stöður ferskfiskmatsmanna verði lagðar niður en yfirmatsmenn meti ferskan fisk. En í lögunum sjálfum: „Matsmenn framkvæma undir stjórn yfirmatsmanna eftirlit það og mat sem lög þessi og reglugerðir settar skv. því gera ráð fyrir.“ Síldarmatið er afnumið, yfirmatsmenn þar eru valdalausir. Hrognamatið er afnumið, afurðamatið er afnumið. Til hvers svona lagasmíð'? Hæstv. sjútvn., meira að segja skipuð aðalmönnum, afgreiðir þetta á morgunstund. (Gripið fram í.) Það var einn varamaður. Ég tek það fram vegna athugasemdar hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar að ég tel það ekki spilla álitinu að hans nafn sé undir en mér virðist það ekki í samræmi við þá þekkingu sem hann hefur á þessum málum.

Í grg. með frv. eru eiginlega öll vinnubrögð eins. Á bls. 2, í grg., stendur að megintilgangur laganna 1984 hafi verið að aðskilja ferskfiskeftirlit og afurðamat. Það er verið að skilja í sundur ferskfiskmat og afurðamat. Ja, nú er mikil nákvæmni í grg. Ferskfiskeftirlit var stofnað 1961 og var þá sérstök stofnun. Árið 1968 var þetta gert að sérdeild í Ríkismati sjávarafurða. Ráðherra er bara 23 árum á eftir tímanum. Hann var að breyta þessu, eftir þessari grg., 1984. Þetta hefur alltaf verið aðskilið, fyrst sjálfstæð stofnun og svo sérstök deild. Annað svipað er í þessum málflutningi og er hann allur með endemum svo að ekki sé nú meira sagt.

Ég gerði einnig athugasemd við 4. gr. og það er út af fyrir sig eðlilegt að menn fylgist ekki með því sem ekki hafa lögin um Ríkismat sjávarafurða fyrir framan sig. Ég benti á að það er lagt til að lögunum um Ríkismat sjávarafurða verði breytt á þann veg:

„Rísi ágreiningur milli fiskkaupenda og seljenda um gæðaflokkun fisks má leita úrskurðar Ríkismats sjávarafurða um þann ágreining.

Yfirmatsmenn úrskurða um slíkan ágreining og greiðist kostnaður af slíku mati af fiskkaupendum og seljendum samkvæmt gjaldskrá Ríkismatsins.“

Gott og vel, þetta er út af fyrir sig ákveðin hugsun. Ég spurði: Til hvers eruð þið þá að halda inni í lögunum 22. gr.? Ég las hér upp 13. gr. eins og ráðherra leggur til að hún verði orðuð, og þá kæmi hún hér inn, en eftir stendur til viðbótar 22. gr. í lögunum: „Ef ágreiningur rís vegna fiskmats eða eftirlits úrskurða yfirfiskmatsmenn í samráði við fiskmatsstjóra og fiskmatsráð. Skjóta má úrskurði um skilning á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim til ráðherra“. Hér eru tvær greinar um sama efni þó nokkuð andstæðar. Ég skaut að þeirri hógværu athugasemd hvort ekki væri rétt að athuga þetta. Sjútvn. hefur ekki talið að það væri svo mikilsvert þó að tvær greinar væru um sama efni og þær væru ekki alveg í takt. Það þótti ekki mikið þegar lögin voru sett þó svo væri. Ég er þess vegna ekkert undrandi á þessum vinnubrögðum. Þetta steinbarn, sem hæstv. sjútvrh. gengur með í maganum vegna fljótfærni sinnar, að lemja þessi lög í gegn á sínum tíma, hlýtur náttúrlega að hafa valdið honum erfiðleikum.

Hér verður sjálfsagt reynt að ræða málið frá því sjónarmiði hvort menn séu með Ríkismati eða á móti Ríkismati. Ég ítreka: Það er álitamál þó að mín skoðun sé afgerandi í því. Það sem um er að ræða er fyrst og fremst að úr lögunum er tekin afgerandi heimild til yfirmatsmanna að stjórna matsmönnum og gefa þeim fyrirmæli og þá er Ríkismatið orðið máttlaust.

Sjálfsagt geta menn komið með ýmis dæmi, eins og ég tók fram, bæði með réttu og röngu, um Ríkismat. Vegna þess að farið er inn á þá lagasmíð og það sjónarmið tek ég fram eftirfarandi: Fiskmat var sett á laggirnar á Íslandi 1904. Lög um það voru samþykkt á Alþingi 1909. Það var ekki fyrr en 1922 sem slík lög voru sett í Noregi og í umræðum - ég hef þær ekki handbærar en eftir þeim upplýsingum sem ég hef- í norska Stórþinginu var bent á það að norskt fiskmat og gæði norsks fisks hefði verið misjafnari en íslensks og þess vegna þyrfti að setja lög um þetta atriði. Þau voru að nokkru leyti sniðin eftir íslensku lögunum.

Ég held að það hafi ekkert farið á milli mála að við höfum náð þarna ákveðnu forskoti á þessum árum gagnvart Norðmönnum og við höfum búið að því kannske í um það bil 30 ár og það eru engar tilhneigingar, þó að það sé ekki nákvæmlega sama fyrirkomulag í Noregi og hér, til að afnema ríkismat. Það er verið að herða ríkismat í löndunum í kringum okkur.

Ég get þess hins vegar, þó að ríkismat og fiskmat yfirleitt verði alltaf ágreiningsefni, að ég hef þær upplýsingar nýjastar frá þeim sem annast fisksölu að SÍS, sem virðist vera að ýmsu leyti miklu framtakssamara á mörkuðum en Coldwater eða Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, það hefur selt til Frakklands fyrir 6,5 millj. sterlingspunda en seldi árið áður fyrir 2,5 millj. og útlit er fyrir að salan verði mun meiri á næsta ári. Frakkland er ákaflega eftirsóknarverður markaður og þar er fiskneysla mikil og verðlag á fiski mjög hátt. Mér er sagt að Frakkar krefjist yfirleitt ríkismats á þeim sjávarafurðum sem þeir kaupa. Sama gera austantjaldslöndin.

Ég skal senn fara að ljúka máli mínu. Ég held að það sé hreint út sagt fáránlegt að þegar það slys eða sú ásetningssynd hefur einu sinni skeð að samþykkt hafa verið lög sem eru illa úr garði gerð sé komið hér með brtt. sem líta sakleysislega út en gera fiskmat ríkisins enn þá óvirkara. Það væri bara miklu nær að setja fram beina kröfu um það að afnema þetta en ekki að flækja því inn í lagagreinar með sakleysislegu orðalagi. Það kæmi mér ekki á óvart þó þetta færi í gegnum þessa virðulegu deild í dag, stórbreyting sem þingmenn hafa hreinlega ekki haft aðstöðu til að kynna sér vegna þess að lögin liggja ekki fyrir og túlkun á þeim liggur ekki fyrir og hún hefur hvergi komið fram.

Vilja nú virðulegir alþm. ekki hugsa sig dálítið vel um, hverrar skoðunar sem þeir eru á ríkismati eða ekki ríkismati, áður en þeir hespa í gegn á tæpri viku breytingum á mati afurða sem nema 70% af okkar útflutningsverðmætum? Ég tel að út af fyrir sig sé eðlilegt að menn geti skipst þar á skoðunum, en mér er spurn: Því í ósköpunum lagði hæstv. sjútvrh. þetta lagabreytingafrv. ekki miklu fyrr fram? Af hverju er þetta lagt fram núna? Þessu var dreift í þingdeildinni 9. des. og það átti að taka það til umræðu 10. des. Eru þessi vinnubrögð sæmandi hæstv. sjútvrh. og er þetta virðing við grunnatvinnugrein okkar að frv. fari í gegn án þess að menn átti sig á þeim gífurlegu breytingum sem hér eiga sér stað á mjög þýðingarmiklum lögum, þó meingölluð séu? Er ekki full ástæða til að þetta fái þinglega meðferð og a.m.k. 3. umr. verði geymd, þó ekki væri nema í einn dag, til þess að afla lögfræðilegra umsagna fyrst sjútvn. sér ekkert athugavert við þetta?

Ég endurtek að ég víti og átel þessi vinnubrögð en ég tek það hins vegar fram að þau koma mér ekki á óvart miðað við það sem á undan er gengið.