15.12.1986
Neðri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum mínútum ræddi ég við hæstv. forseta og hann skýrði mér frá því að þetta frv. mundi ekki ganga til atkvæða í nótt, heldur væri ætlunin að ljúka 3. umr. og reyna að hafa atkvæðagreiðslu í því á morgun. (Forseti: Trúlega verður það nú ekki á morgun.) Nei. Því betra. - Að fenginni þessari yfirlýsingu forseta held ég að ég fresti þeirri 70 mínútna ræðu sem ég hef hér og hefði reyndar þurft að koma á framfæri. Þar sem fyrir liggur að ekki verður atkvæðagreiðsla þá held ég að ég geti haft þessi orð mín stutt og örfá.

Ég vil aðeins minna á og segja, held ég, í tíunda sinn. Ég varaði hér við 1984 lagafrv. um Ríkismat sjávarafurða og benti á að þetta stæðist mjög illa, það væru andstæðar greinar, það væru efnislegar mótsagnir og endurtekningar á lögunum öllum. Þetta hefur nú verið rækilega staðfest af merkum lagaprófessor og reyndar fleirum og m.a.s. af hæstv. sjútvrh. sjálfum að það beri að viðurkenna að það hefði mátt orða þetta skýrar.

Ég hef í málflutningi mínum hér varað mjög við því að í þessu felist efnislega mun meira en að ferskfiskmatið verði sett í hendurnar á hagsmunaaðilum. Ég hef reyndar margt um það að segja, er því algerlega andstæður þó að sjálfsagt megi tína þar ýmislegt til um nánara samstarf. Ég vil líka segja að ég tel ákaflega óeðlilegt að hér sé knúið í gegn frv. sem felur í sér mikið dýpri breytingar en virðist vera á yfirborðinu. Og ég sé ekki betur en að þar stefni í hreint óefni.

Það kom fram hjá hæstv. sjútvrh. að vissulega hefðu ferskfiskmatsmenn uppsagnarfrest, að ég hygg allflestir þrjá mánuði, þannig að þess vegna hefði málið mjög auðveldlega getað beðið. Ég hef sýnt fram á að í þessu er ekki sparnaður. Þetta er aðeins tilfærsla. Ríkið leggur á skatt sem það greiðir með ákveðinn kostnað. Sá skattur er lagður á sömu aðila og hér eiga hlut að máli. Þarna er aðeins um millifærslu að ræða. Það koma upp ákaflega mörg álitamál og þó frv. sé eftir aðstæðum nokkuð vel samið, þá býr lagasmiðurinn að því steinbarni, sem samþykkt var hér 1984, að hann þarf að orða hluti þannig að það liggi betur fyrir að reglugerðir hafi ákveðið lagagildi.

Ég hefði haldið að gætinn maður eins og hæstv. sjútvrh. sýndi Alþingi þá virðingu að málið fengi þinglega meðferð. Ég mundi treysta mér til ef til þess gæfist tími að koma með skriflegar lögfræðilegar umsagnir frá þekktum og viðurkenndum lögfræðingum, a.m.k. tveimur, sem staðfesta minn skilning í þessum efnum. Ég hlýt að harma að þessi vinnubrögð skuli vera viðhöfð.

Hæstv. sjútvrh. hefur þá trú að hann geti lamið þetta frv. í gegnum Alþingi á þeim stutta tíma sem eftir er. Fyrst atkvæðagreiðslu er frestað til morguns, þá mundu ítrekuð ummæli mín og röksemdafærsla aðeins lengja þennan fund og sé ég ekki ástæðu þar til. Ég vil hins vegar aðeins lýsa undrun minni á að annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., skuli fylgja þessu frv. athugasemdalaust, án þess að þinglið hans hafi verið gerð grein fyrir frv. á þingflokksfundi. Það er ekki mitt að segja þeim ágæta flokki fyrir verkum. Ég vil aðeins ítreka (TG: Hvaða fréttir hefur þú af því?) Ég hef nú nokkuð góð sambönd. (TG: Það er nefnilega það.) Þetta hefur kannske verið eitthvað rætt á þingflokksfundi, en það hefur ekki verið farið ítarlega í gegnum það. Látum svo útrætt um innanhúsmál flokka og mun ég ekki ræða um það.

Ég vil bara að endingu ítreka aðvaranir mínar. Hér er verið að fremja hin mestu glópskuverk. Þetta verður ekki til heilla fyrir Ríkismat sjávarafurða. Ég held að ég geti tekið undir það að það mætti endurskoða rækilega, eins og boðað er hér í grg. frv., lögin um Ríkismat sjávarafurða og ég gæti stutt það. En þetta „lapperí“, sem hér er gert, gerir það ekki. Ég held að það stefni í gagnstæða átt.

Ekki veldur sá er varir. Ég hef hér í einum fjórum ræðum rakið ítarlega þá annmarka sem á þessu frv. eru. Ég gerði það líka þegar þessi lög voru samþykkt en hafði ekki árangur sem erfiði. En nú vildu allir Lilju kveðið hafa. Nú telja allir gildandi lögum mjög áfátt og ábótavant.

Ég vil ítreka mótmæli mín við þau vinnubrögð sjútvrh. að ætla að reyna að keyra þetta frv. í gegnum þingið á óeðlilega skömmum tíma. Ég vil líka átelja það að hér koma hinar raunverulegu dýpri efnisbreytingar á lögunum ekki fram. Það er látið líta svo út að þetta nái eingöngu til ferskfiskmatsins. Þetta nær lengra og verður örlagaríkt fyrir fiskmatið.

Þetta er, eins og ég hef áður sagt, stórt mál í langstærsta atvinnuvegi þjóðarinnar og þarf vel að vanda en ekki að kasta hér fram á síðustu stundu og reyna að hespa það helst umræðulaust í gegnum þingið. Ég vara við þessu frv. Ég tel að það boði meiri erfiðleika og meiri ógæfu yfir Ríkismati sjávarafurða en ástæða væri til og virðist mér þó að ógæfan á þeim bæ sé næg fyrir og ekki sé á bætandi.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.