21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

Síldarsölusamningar við Sovétríkin

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að gera fyrirspurn til hæstv. viðskrh. út af síldarsölusamningum við Sovétríkin og viðskiptum milli Íslendinga og Sovétmanna sem í augnablikinu lítur út fyrir að séu að flosna upp.

Fjölmargir forustumenn verkalýðsfélaga hafa að undanförnu haft samband við mig, öðru fremur úr síldarsöltunarplássum. Ég hef áður skýrt hæstv. viðskrh. símleiðis frá meginefni þess sem hér er um að ræða og sem ég mun ræða og hann hefur svarað því að nokkru í útvarpi og sjónvarpi í gærkvöld. T.d. hefur hann lýst því yfir að hann væri tilbúinn að fara til Moskvu ef þörf væri á og að hann hefði kallað sendiherra Sovétríkjanna á sinn fund o.s.frv.

Ég vil í upphafi taka fram að málflutning minn ber ekki að skoða sem gagnrýni eða árásir á hæstv. viðskrh. nema síður sé og það er ekki dreginn í efa góður vilji hans til að drífa þessi viðskipti áfram. En hér er um svo alvarlegan atburð að ræða að heilar atvinnugreinar munu leggjast í rúst ef samkomulag tekst ekki. Saltsíldarsölusamninga fer síldarútvegsnefnd með. Síldarútvegsnefnd hefur staðið sig í gegnum árin ákaflega vel og hefur frábærlega hæfum mönnum á að skipa. Það má geta þess að Íslendingar einir flytja út meiri saltsíld en öll önnur ríki samanlagt og er það dæmi um góð vinnubrögð.

Íslenskar prjónavörur, sem áætlað var að Sovétmenn keyptu fyrr á árinu fyrir um 8 millj. dollara á þessu ári, hafa þeir aðeins keypt fyrir tæpar 3 millj. dollara eða rösk 30% og ekki útlit fyrir meiri kaup. Fyrir liggur að fjöldi prjónastofa um land allt lokar og hættir starfsemi sem mundi þýða atvinnuleysi á viðkomandi stöðum. Olíusamningar standa nú yfir í Moskvu og hætt er við að lítið verði af þeim af hálfu Íslendinga að óbreyttu ástandi.

Áhrif þess að saltsíldarsalan stöðvast til Sovétríkjanna yrðu geigvænleg. Hátt í milljarð af gjaldeyristekjum þjóðarinnar mundi glatast. Fjöldaatvinnuleysi er þegar að skella á í nokkrum sjávarplássum og tekjurýrnun sjómanna og landverkafólks er gífurleg. Hætt er við að fjöldi fyrirtækja yrði hreinlega gjaldþrota.

Skoðun mín og fjölmargra annarra er sú að þetta verði ekki leyst, ef hægt er að leysa það, nema á æðri stöðum. Ég legg til að hæstv. viðskrh. óski eftir viðræðum við viðskiptaráðherra Sovétríkjanna. Hvort þessi viðræðufundur viðskiptaráðherranna færi fram í Moskvu eða í Höfða verða þeir að koma sér saman um ef af verður. En ég endurtek: Ef hægt er að leysa þessi mál verða þau ekki leyst nema fyrir milligöngu æðstu manna, viðskiptaráðherra beggja ríkjanna.

Benda má á að hæstv. sjútvrh. lagði á sig ferð eða ferðir til Bandaríkjanna út af hvalveiðum, sem eru aðeins brot af því sem er í húfi miðað við þessa samninga, til að ræða við Bandaríkjastjórn um þær veiðar þó Bandaríkin séu ekki kaupandi að hvalafurðum heldur hafi Bandaríkjamenn tekið að sér að vera lögregluríki Alþjóðahvalveiðiráðsins, og mun ég ekki rekja þá sögu hér.

Það er svo að þó að Íslendingar geti selt allar fiskafurðir sínar og meira til í fjölmörgum löndum fyrir gott verð er markaðssvæði síldarinnar ákaflega takmarkað. Nánast er það aðeins í löndunum við Eystrasalt. Sovétríkin hafa verið langstærsti kaupandinn og yfir 75% af saltsíldarmörkuðum okkar hafa verið þar.

Hér er ekki tími til að rekja framkomu keppinauta okkar, Norðmanna og Kanadamanna, á þessum markaði, en hún er allsérstæð. Í skjóli niðurgreidds verðs frá ríkissjóðum þessara landa keppast þeir við að undirbjóða verð Íslendinga. Í fyrra buðu Norðmenn 30% lægra verð og þegar samningar voru að takast við Íslendinga hækkuðu þeir undirboðið upp í 35%. Í ár eru þeir búnir að bjóða 30% lægra verð og eiga ábyggilega eftir að lækka sig. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi, má segja um Norðmenn.

Kanadamenn bjóða 45-50 dollara fyrir tunnuna. Í fyrra fengum við 90 dollara. Auk þess bjóða Kanadamenn fríðindi fyrir sovésk veiðiskip í kanadískri landhelgi. Þeir eru ekki hræddir við njósnir, Kanadamenn, þegar viðskiptin eiga í hlut.

Bæði þessi ríki selja mikið af síld upp úr sjó beint út í sovésk verksmiðjuskip. Um þetta gæti ég flutt mjög langt mál og ítarlegar upplýsingar ef tími gæfist til. En ég endurtek: Það mundi valda ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf ef slitnaði upp úr þessum samningum við Sovétríkin, um viðskipti sem hafa verið báðum ríkjunum til hagsældar í 40 ár.

Ég óska hæstv. viðskrh. gæfu og gengis í þeim erfiðu og vandasömu samningum sem fram undan eru.