20.12.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

1. mál, fjárlög 1987

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt að taka strax fram að ég viðurkenni þann ákaflega mikla vanda sem er í fyrsta lagi almennt að afgreiða fjárlög. Þar er aldrei hægt að gera alla ánægða og þar verður alltaf ágreiningur um. Svo er einnig nú. Ég verð hins vegar að segja: Það setur að mér býsna mikinn beyg við þann mikla halla í því góðæri þar sem áætlaður er 2,8 milljarða halli á fjárlögunum. Ég óttast að hann verði meiri og ég óttast að með þessum fjárlögum og öðru missi ríkisstjórnin tök á verðbólgunni. Ég vil ekki vera hér með nein brigslyrði um eitt eða neitt, en ég vil vera laus við að hafa samþykkt þessi fjárlög eða tekið á mínar herðar ábyrgð á þessum fjárlögum og greiði því ekki atkvæði.