13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Þeir hv. 3. þm. Reykv. og Reykn. hafa að mestu tekið af mér það ómak að segja það sem ég ætlaði fyrst og fremst að láta uppi. Að óbreyttum aðstæðum hefði ég mjög gjarnan viljað ræða nokkuð ítarlega í sambandi við farmenn hvort í þeirra kjarasamningi sé búið að taka nægilega mikið tillit til þess að þar sem þeir stoppuðu kannske í heimahöfn áður þrjá, fjóra, fimm daga stoppa þeir nú kannske hálfan dag eða einn dag vegna gjörbreyttrar tækni. Þar sem þeir stoppuðu í erlendum höfnum einn, tvo, þrjá daga stoppa þeir núna kannske í hæsta lagi einn dag. Er tekið tillit til þess gífurlega álags sem er á farmönnum þegar þeir sigla á ströndina og í erlendum höfnum og þess að það er ódýrara að láta skipshafnir vinna við að ganga frá farmi, losun og lestun en menn úr landi vegna þess að kaupið er lægra? Að vísu eru komin ákveðin tilboð frá Vinnuveitendasambandinu sem ekki er tími til að fara ofan í, en ég held að þarna hljóti að vera flötur sem hægt sé að ná samkomulagi um og það sé fráleitt að neita að taka tillit til þessara breyttu aðstæðna hjá farmönnum.

Ég þekki töluvert til þessara mála. Það eru alls konar vandamál þarna á ferðinni, samskiptaerfiðleikar og annað. En þetta er gjörbreytt hjá farmönnum, öll þeirra vinnuaðstaða o.s.frv.

Ég mun ekki fara í ítarlegar umræður sem hefði þó verið út af fyrir sig gaman að. Menn deila um birgðastöðu í Bandaríkjunum og birgðastöðu hér heima. Út í það væri hægt að fara nákvæmlega. Aðeins til að skjóta því að ef það borgar sig ekki að selja á Bandaríkjamarkað: Hverjir eru að reyna að komast inn á hann? Það er samkeppnisþjóð okkar Norðmenn, sem hafa selt í Vestur-Evrópu, sem eru að reyna að komast þar inn. Þarna er því til staðar ákveðið vandamál. Hvort hægt er að kenna sjómönnum um það dreg ég í efa.

Ég skal ekki fara í einstök atriði í þessari deilu þó að ég gæti það. Ég vil aðeins minna á að það að stunda sjó á fiskiskipum við Íslandsstrendur árið um kring er ekki orðið á færi, eins og nú er háttað vinnubrögðum, nema manna á albesta aldri. Það er ekki á færi annarra. Það álag er orðið svo mikið.

Það er deila þarna um skiptaprósentu. Það má vel vera að það hafi verið mjög gagnrýnisvert hvernig á þeim málum hefur verið haldið, kannske að sumu leyti af beggja hálfu. En ég ætla ekki að fara út í það þó það væri ákaflega freistandi. Ég geymi mér það ef þetta mál kemur hér fyrir aftur sem ég vona að verði ekki.

En forsrh. gaf í skyn að ekki skipti máli hvort þetta væri deginum fyrr eða seinna. Svo skeði sá stórkostlegi atburður, sem virðist alveg gjörsamlega breyta þingsölum, að hæstv. fjmrh. hitti sjómenn og þeir sögðu honum að þeir vildu semja. Ja, þvílík ógæfa að hann hitti þá ekki fyrir viku. Þá fékk maðurinn allt í einu vitrun og keyrir beint inn í síðuna á forsrh. Þetta er út af fyrir sig ásigling sem er ágæt. Þeir gætu kannske rétt sig af og orðið samsíða. Og ég vil ekkert vera að egna þá eitt eða neitt saman. Mér sýnist hins vegar kominn grundvöllur fyrir því að samningaviðræður hæfust bara í kvöld. Ég hef orð fjmrh. fyrir því að sjómenn vilji semja. Því þá ekki að hætta þessu karpi hér? Þetta eru svo alvarleg mál, bæði fyrir þjóðfélagið og eins að beita þessum neyðarrétti að banna verkföll.

Farmenn voru leystir út úr verkfalli í fyrra. Á nú að gera það aftur? Ég veit að það er vandaverk þarna á ferðinni og hef ekki tíma til að útskýra það. Ef þetta liggur fyrir, af hverju á þá að vera að pressa þessi mál hér og nú? Drífum bara á samningafund og ef sjómennirnir verða eitthvað erfiðir er bara að láta fjmrh. tala við þá, a.m.k. að láta hann hitta þá.

Ég geri út af fyrir sig ekkert lítið úr vandanum. En ég vil mjög alvarlega fara þess á leit við alla þá aðila sem hlut eiga að máli að þeir keyri þetta mál ekki hér í offorsi. Það má sjálfsagt fá þingmeirihluta fyrir afgreiðslu málsins. Það er ófarsælli lausn fyrir alla aðila. Það langsamlega æskilegasta væri að þarna væri hægt að ná samkomulagi. Ég held við séum öll sammála um það. Eigum við þá ekki að leggja þetta karp niður, láta deiluaðila, sem hafa lýst því yfir að þeir vilji hefja viðræður aftur, vinda sér í þær? Gangi það ekki, verði allt gikkfast eftir einhvern ákveðinn tíma, er þá ekki hægt að taka þetta mál hér fyrir aftur?

Ég held að það sé bara til skaða að menn séu með ýfingar og hörkudeilur og að verið sé að veifa hættulegum vopnum eins og að banna verkföll. Að reyna að fá deiluaðila til að setjast niður og semja er mesta gæfusporið, bæði fyrir þjóðina í heild og samningsaðila. Ég vildi biðja menn um að slíðra sverð hér í sölum og hafa þessa lausn í huga sem þeir voru að benda á þm. áðan. Ég held að það sé gæfuleiðin í þessu.