18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3222 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Guðmundur J. Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Í hinni helgu bók má lesa í Mattheusarguðspjalli eftirfarandi: „Ræða yðar skal vera já, já eða nei, nei, en það sem er umfram þetta er af hinu vonda.“ Virðulegi forseti. Þar sem mér gengur illa að hlíta boðorðum helgrar bókar vona ég að mér leyfist að hafa orfá aðfaraorð.

1. Í næstu fjárlögum þarf að gera ráð fyrir meira fé til hjálpar- og stuðningskennslu en nú er og að sem mestur jöfnuður verði milli landshluta.

2. Í deilum um fræðslustjóra á Norðurlandi eystra virðist mér ekki vera um mistök að ræða hjá fræðslustjóra heldur var þetta ásetningur hans.

3. Hvernig færi ef forstöðumenn hundrað ríkisstofnana ásettu sér að ráðstafa meira fé en þeim væri heimilað? Ef það væri liðið væri Alþingi ekki með því að afsala sér fjárveitingavaldinu í hendur embættismanna?

4. Í þessu máli fer ég ekki eftir flokki mínum heldur samvisku minni eins og stjórnarskráin kveður á um.

Virðulegi forseti. Spurt er hvort ég sé með eða á móti frávísunartill. um það mál sem hér á dagskrá er og í samræmi við helga bók skal svar mitt og ræða mín vera þessi: já, já.