24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3396 í B-deild Alþingistíðinda. (3055)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Guðmundur J. Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Það er sök tveggja virðulegra þm., hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. 7. landsk. þm. Kristínar Halldórsdóttur, að ég stend hér og get ekki annað út af þrálátum fyrirspurnum til mín sem einhvers verkalýðsleiðtoga. (KH: Sem orsökuðust af þrálátum frammíköllum.) Já, og þrálátum frammíköllum mínum. Það er að vísu rétt. Ég þarf því sennilega eitthvað að ræða þessi mál þó ég sé eiginlega kominn í bindindi að ræða húsnæðismál. Ég sat í 12 eða 14 ár í stjórn framkvæmdanefndar byggingaráætlunar og stjórn verkamannabústaða í Reykjavík og hafði hugsað mér að afskiptum mínum af þessum málum tæki nú að linna.

Ég vil fyrst snúa mér að efnisatriðum og ætla ég ekki að fara að gerast forsvarsmaður Alþfl. Þar segir hv. 2. þm. Norðurl. e. að með þessum kaupleiguíbúðum sé verið að stuðla að ójöfnuði. Ja, það er nú svo. Ef þetta er ótakmarkaður fjöldi af kaupleiguíbúðum má vera að það verði og engin skilyrði eru fyrir því að komast í þessar íbúðir. En ef hugsað væri beint út frá fullyrðingum ræðumanns hafa lögin um byggingu verkamannabústaða 1929 verið ójöfnuður. (JBH: Enda hélt íhaldið því þá fram mjög rækilega.) Já, heldur betur og heldur því enn fram að því er virðist vera. En ekki ætla ég hv. 2. þm. Norðurl. e. svo illt. Hins vegar var í því ákveðinn ójöfnuður. Þá voru lán að mig minnir með 2% vöxtum þegar innlán í bönkum voru með 3 eða 31/2% og lánið var til 42 ára.

Það er rétt hjá formanni Alþfl. Sjálfstfl. hélt því fram mjög hatrammlega þá, þó hann hafi síðar gerst talsmaður verkamannabústaða, að þarna væri verið að koma á gífurlegum ójöfnuði í þjóðfélaginu. Ég vara við svona tali. Þegar verið er að ræða um húsnæðismál verður alltaf að hafa ákaflega sterkt í huga að það er ákveðinn fjöldi þjóðfélagsþegna sem býr við erfið kjör. Menn eru öryrkjar, búa við lélega heilsu, geta ekki lagt á sig yfirvinnu eða mikið erfiði eða hafa orðið fyrir einhverjum áföllum sem orsaka það að þeir hafa ekki samkeppnismöguleika á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég vil ekkert afskrifa þessar kaupleiguíbúðir. Mér líst að mörgu leyti vel á þær. Ég held að það mætti hrista aðeins upp í verkamannabústaðakerfinu. Það er orðið nokkuð „stagnerað“. Hitt held ég að verði náttúrlega að vera, ákveðin tekjumörk og ákveðin eignamörk til að komast inn í kaupleiguíbúðir. Hitt er staðreynd að ástandið er þannig að þetta fólk hefur ekki möguleika á hinum almenna húsnæðismarkaði og það verður líka að hafa í huga að sumt af fólki sem á möguleika á verkamannabústöðum er ekki efnað fólk. Ætli þriðjungur af þeim sem hafa fengið verkamannabústaði í Reykjavík séu ekki auglýstir oftar en tvisvar sinnum á nauðungaruppboði? Hér er ákaflega takmarkað af leiguíbúðum og hluti af þessum leiguíbúðum er á svokölluðum frjálsum markaði sem er okurmarkaður. Peningamenn byggja ekki íbúðir til leigu. Þarna hefur því myndast ákveðið gat. Hinn almenni leigumarkaður er ekki lengur til staðar nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég held að það verði að hafa ákaflega vel í huga. Ég skal viðurkenna að þetta getur ekki gengið yfir alla, en fyrir þá sem verr eru settir, hafa takmarkaða vinnuheilsu, hafa takmarkaðar tekjur eða takmarkaða möguleika á öflun tekna hygg ég að þetta form geti verið að ýmsu leyti æskilegt. Það mætti vel segja mér að það eigi eftir að ryðja sér til rúms.

Hv. 7. landsk. þm., svo ég reyni eitthvað að ná mér niðri á þeim ágæta þm., taldi að það væri hrein spurning hvort það ætti nokkuð að vera að lappa upp á þetta kerfi eða hvort það ætti ekki að smíða algerlega nýtt. Það er nú svo. Það er ágætt að vera með nýsköpunarhugmyndir á ferðinni. Hvað er það raunverulega sem verkalýðshreyfingin gerði og hvernig var ástandið? Ástandið var þannig að hluti lífeyrissjóða keypti fyrir um 40%, hluti þeirra miklu minna og stór hluti þeirra varði engu til kaupa á skuldabréfum frá Húsnæðisstofnun ríkisins. Lífeyrissjóður sjómanna keypti fyrir 80%, Lífeyrissjóður Dagsbrúnar og Framsóknar fyrir 45%, Lífeyrissjóður flugmanna ekki fyrir krónu, Lífeyrissjóður lækna ekki fyrir krónu, Lífeyrissjóður verkfræðinga ekki fyrir krónu. Það var einkenni á ástandinu að þeir sem höfðu hæst launin keyptu ekki bréf af Húsnæðisstofnun ríkisins, en þessir aðilar gátu fengið lán hjá Húsnæðisstofnun án þess að þeirra lífeyrissjóðir legðu eitt eða neitt til. (JBH: Hvað kom mikið frá samvinnustarfsmönnum?) Það kom svipað frá samvinnustarfsmönnum og frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, einhvers staðar milli 5 og 7%. (GHG: Hvað kom frá Lífeyrissjóði verslunarmanna til eftirlaunasjóðs?) Já, við skulum ræða eftirlaunasjóð þegar þar að kemur. Ég minnist þess að 1981 eða 1982 þegar átti að lögleiða að lífeyrissjóðir keyptu skuldabréf af húsnæðismálastjórn lágu loforð um að ef þetta yrði ekki lögleitt skyldi t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna, og er óþarfi að vera að tiltaka hann einan, kaupa fyrir 40%. (Gripið fram í.) Það var þm. sjálfur sem gaf þessa yfirlýsingu. (GHG: Þetta er rangt.) Við skulum ekki vera að munnhöggvast mikið, en ég var viðstaddur þegar þessi yfirlýsing var gefin.

Þetta var ekkert bundið við einn lífeyrissjóð. Þetta voru t.d. fyrirtækjasjóðirnir. Olíufélögin hafa sérstaka lífeyrissjóði fyrir sitt starfsfólk. Hvað skyldu þeir hafa keypt mikið, blessaðir mennirnir í olíufélögunum? Ekki fyrir krónu. Lífeyrissjóður Sláturfélagsins, þau hafa lag á að hafa sína lífeyrissjóði, þessi fyrirtæki, til að geta plokkað þetta í reksturinn, hann keypti ekki fyrir krónu.

Það sem verkalýðsfélögin gerðu 1986 var að binda það að lífeyrissjóðir keyptu fyrir 55% af ráðstöfunartekjum sínum, 55%, ekki minna. Og ef ekki ættu viðkomandi sjóðsfélagar ekki rétt á lánum. Þessir samningar voru býsna erfiðir við marga lífeyrissjóði og erfiðastir við marga þá sem hæst voru launaðir. Það má t.d. geta þess, af því að menn eru ákaflega viðkvæmir fyrir Lífeyrissjóði verslunarmanna, að Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna hékk illa í 20%. Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar keypti ekki fyrir eina krónu. Verkamenn, verkakonur og sjómenn lögðu til þetta fé en höfðu ekki möguleika á byggingu. Þetta var allt réttlætið sem fólk er að gráta.

Ég held að þetta hafi verið eitt stærra átak í húsnæðismálum og félagsmálum sem gert hefur verið. Þau lög sem nú eru komin hafa gerbreytt þessum hlutum. Hitt ber hins vegar að viðurkenna að verkalýðsfélögin féllu frá kröfum sem þau höfðu lengi gert og má deila töluvert á þau fyrir. Það var að þriðjungur af þeim lánum sem húsnæðismálastjórn veitti - það var undirritað samkomulag um það við ríkisstjórn síðast held ég 1976, gott ef það var ekki undirskrifað líka 1974, - skyldi fara til félagslegra íbúða. Það voru engin ákvæði í þessum samningum um félagslegar íbúðir. Þar kemur að þessum veika punkti í samkomulagi verkalýðsfélaganna. Hvort sem það eru kaupleiguíbúðir eða eitthvert annað hliðstætt form held ég að það sé óhjákvæmilegt og skylda verkalýðsfélaganna að hafa hliðsjón af slíku.

Ég er ekki undirbúinn í að fara að rekja ítarlega gang þessara mála, en ég vildi þó segja að mér virðist ekki vera mikill húsnæðisskortur á Íslandi. Og af hverju segir maðurinn þetta? er spurt. Ég á við húsnæðisskort þannig að húsnæði sé raunverulega til. Erfiðleikarnir eru þeir að ungt fólk, fólk sem er á lágum launum, á erfitt með að ráða við kaupverð íbúða. Ég minnist þess vel að 1984 var ég skammaður af Þjóðviljanum og fleiri dag eftir dag fyrir svik. Þá var Verkamannasambandið að reyna að semja, og opinberir starfsmenn voru í verkfalli, um að fyrst ekki væri greidd vísitala á kaup væri rétt að fella niður vísitölu á öllu öðru líka, m.a. húsnæðislánum. Það var á þessu tímabili sem það myndaðist þetta gífurlega gap sem sligaði margar fjölskyldur og margir eru ekki búnir að ná sér enn. Það var vísitala á lánum og verðbólga, en ekki vísitala á kaupi.

En lítum aðeins á Reykjavík. Ég segi þetta til fróðleiks. Í Reykjavík eru um 90 þús. íbúar. Þeir eru víst sennilega komnir núna upp í 91 þús. Eins og tveggja herbergja íbúðir í Reykjavík, hvað skyldu þær vera margar? 7470. Þriggja herbergja íbúðir eru 8600. Fjögurra herbergja íbúðir eru 7620. Fimm herbergja íbúðir eru 4400. Sex herbergja íbúðir og stærri eru hvað? 5300. Þetta liggur á 35 þús. íbúðum með 90 þús. íbúa eða rösklega 2,55, 2,58 íbúar á hverja íbúð og þó er meiri hlutinn af þeim fjögurra herbergja og stærri. Nýtingin er alveg furðuleg.

Ég get tekið undir það með hv. 2. landsk. þm. að mér finnst engin ástæða til þess að ef einhver selur sex herbergja íbúð eða einbýlishús til að kaupa sér þriggja herbergja íbúð eigi hann að fá sérstakt húsnæðismálalán til þess. Ég get alveg tekið undir það. En ef við förum t.d. í Garðabæ verður þessi tala stærri. Það er betra og stærra húsnæði þar. Sama á Seltjarnarnesi. Ætli Kópavogur og Hafnarfjörður liggi ekki nokkuð svipað og Reykjavík? Þarna er ákaflega lítið nýting á húsnæði. Það þýðir ekkert með lögum að segja fólki að skipta og það megi ekki búa stórt eða rúmt. Hins vegar eru erfiðleikarnir held ég ekki að það vanti svo gífurlega húsnæði heldur eru þeir gagnvart ungu fólki og gagnvart fólki sem er á lágum launum, á við erfiðleika að etja. Það þarf að hjálpa því meira en gert er nú. Við getum deilt um hvaða fyrirkomulag við höfum á því.

Ég fellst ekki á lítilsvirðandi tal um svokallaða ráðgjafarþjónustu. Ráðgjafarþjónusta húsnæðismálastjórnar hefur lánað tæplega 600 millj. Ég minnist þess að ég sendi félaga mína marga úr mínu verkalýðsfélagi. Þeir fengu þarna ákaflega góða úrlausn og var í mörgum tilfellum hreinlega bjargað frá nauðungaruppboði. Ég held að það sé ekki af hinu góða að gera lítið úr þessari starfsemi því að margt af því fólki sem var að missa sínar íbúðir fékk þarna ákveðna aðstoð og hefði sennilega þurft meira fé.

Húsnæðisstofnun hefur aldrei haft meira fé handa á milli en hún hefur nú. Hins vegar hafa aukist gífurlega umsóknir. Af hverju það er og af hverju íbúðir hafa hækkað? Ég vara fyrir fram við að taka formann Félags fasteignasala sem örugga heimild fyrir hækkunum á íbúðum. Sannleikurinn er sá að það eru engir sem ýta jafnmikið undir hátt verð á íbúðum og spá hækkandi verði á íbúðum og fasteignasalar. Ég gef ákaflega lítið fyrir þeirra umsagnir vegna þess að þær eru yfirleitt af þeim hvötum að hækka íbúðaverð. Þá verður gróðinn meiri. En það er ekki þar með sagt að það megi ekkert fara eftir þeim. Ég held að hækkun á lánum til eldri íbúða hafi komið af sjálfu sér. Þarna var óeðlilegur verðmismunur og eldri íbúðir voru óeðlilega miklu lægri en nýjar.

Það hafa komið um 4260 umsóknir frá september til áramóta og 523 í janúar og það er spáð hátt í 500 í febrúar. Það er eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði, það kemur alda umsókna miðað við gerbreytt ástand og hækkuð lán. Ég held, þó að ég geri ekki litið úr að þarna sé komið ákveðið vandamál, að það verði að hafa í huga að fólk er ákaflega tortryggið á kerfið. Það er ekki nema hluti af þessu fólki sem stendur í því, eins og áður var, að það hreinlega væri að missa sínar íbúðir eða væri algerlega stöðvað í íbúðaframkvæmdum, þó eru sjálfsagt dæmi þess, heldur er fólk að tryggja sig, komast í röðina tímanlega. Það var upplýst í umræðunum að um 60% af umsóknum hefðu ekki veðheimild á neinum stað og jafnvel ekki sótt um lóð þeir sem óskuðu eftir lánum til nýbygginga.

Nú frétti ég í húsnæðismálastjórn í morgun að af þeim lánum sem ætti að veita 1. mars og hefði átt að vera tilbúið veð og annað annaðhvort um áramót eða 1. febrúar væru yfir 20% af þeim sem ættu kost á útborguðu láni 1. mars ekki komin með neina veðheimild og er þó aðeins vika til stefnu. Þetta sýnir að þær tölur, sem eru óhugnanlega stórar, eru ekki spegilmynd af ástandinu. Hitt er hins vegar annað mál að ef byggingin stöðvast verður það yfirleitt til þess að íbúðir verða dýrari og öruggasta ráðið til að lækka verð á íbúðum er að byggja nógu mikið þannig að framboðið sé.

En náttúrlega eru einhver takmörk fyrir því hvað hægt er að ráðstafa til húsnæðislána. Ég vil t.d. taka fram eins og kom hér fram hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni: Það er mesti misskilningur t.d. að verkafólk víða úti á landsbyggðinni sé með lægri tekjur en verkafólk í Reykjavík. Í fjölmörgum sjávarþorpum allt í kringum landið eru tekjur mun meiri. Fólk leggur gífurlega á sig, langan og strangan vinnudag í sjávarplássum. Hins vegar er tregða til þess að fjárfesta af ótta við að það geti ekki selt á kostnaðarverði. Það er ein ástæðan fyrir fólksflótta. Ég held þess vegna um kaupleiguíbúðir eða íbúðir á félagslegum grundvelli að það mundi verða þó nokkuð mikið af ungu fólki sem væri reiðubúið að flytja út á land í þessi gróskufullu framleiðslubyggðarlög ef það hefði þar húsnæði. Ég vil því á engan hátt afskrifa það.

Ég skal að vísu viðurkenna að það er ákveðinn vandi hvað hægt er að ráðstafa miklu til húsnæðismála og það eru einhver takmörk, en ég held að ástandið hafi oft orðið verra en núna. En það sem ég hef mestar áhyggjur yfir er, eins og ég hef margsagt áður í þessari sundurlausu ræðu minni, þetta unga fólk, þetta tekjulitla fólk og fólk sem af persónulegum ástæðum, mismunandi ástæðum, hefur ekki möguleika til útborgunar. Það verður að gera meiri ráðstafanir þar.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta að sinni. Ég vil aðeins benda á að sennilega sé hvergi í Evrópu betur byggt, meginhluti íbúða, en í Reykjavík og á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta gildir reyndar ekki bara um Stór-Reykjavíkursvæðið því að það er ákaflega vel byggt úti á landi mjög víða, einbýlishús stór og dýr.

En þá held ég að vandinn, eins og ég sagði áðan, liggi ekki hættulegastur þarna. Verkalýðshreyfingin hefur sagt eða forráðamenn hennar að það sé ekki komin nægileg reynsla á þetta. Hv. 2. landsk. þm. er hér með spádóma, og styðst við ýmsar tölur sem eru athyglisverðar, að kerfið sé sprungið þannig að það anni ekki umsóknum. Á þetta er ekki komin nægileg reynsla til þess að hægt sé að segja að það sé hrunið vegna þess að við vitum ekki enn hve stór hluti af umsækjendum mundi notfæra sér þessi lán. Það eru örugglega meira en 15%.

Ég er ekki móðgunargjarn, en ég verð að segja að mér finnst það gegna nokkurri furðu að verkalýðshreyfing skuli verða fyrir aðkasti fyrir að hafa gerbreytt húsnæðislánakerfinu þannig að lán hafa aldrei verið fleiri eða hærri og aldrei verið jafnmiklir möguleikar. Ég hef enga trú á því að á árinu 1987 verði 500 til viðbótar eða 350-375 á mánuði. Ég held að allt að þriðjungur af þeim sem nú hafa lagt inn umsóknir eigi eftir að falla frá. Þeir eru beinlínis að bíða, þeir vilja koma sér inn í kerfið, eru tortryggnir og hafa hvorki lóð né hús til kaupa.

Ég held að það sé ákaflega nauðsynlegt að byggja smærri íbúðir fyrir aldrað fólk. Það er ótrúlega mikið af því á Stór-Reykjavíkursvæðinu og kannske sér í lagi í Reykjavík. Það búa þetta ein og tvær manneskjur í sex herbergja íbúð og væru að öllu leyti betur komin, þetta er allt orðið fullorðið og aldrað fólk, í litlum og smekklegum þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Það verður að leggja áherslu á þetta.

En fyrst og síðast skulu orð mín vera: Umfram alla muni. Við skulum ekki gleyma þessum félagslega þætti. Þegar ausið er milljörðum inn í þetta kerfi eins og vera ber skulum við ekki gleyma þeim sem hafa versta aðstöðuna og geta ekki notfært sér kerfið. Til þess þurfa að vera sérstakar ráðstafanir. Hitt viðurkenni ég að það eru takmörk fyrir hve miklu hægt er að ráðstafa á ári hverju. Ég mundi vera því meðmæltur, ég er sannfærður um að félög eins og Dagsbrún og Framsókn, sem kaupa fyrir 55%, gætu keypt fyrir 65%. Mér fyndist ekki óeðlilegt að fleiri félög gerðu það, býsna stór hluti. Um betri ávöxtun lífeyrissjóða er ekki að ræða en þær auknu tekjur sem kæmu þarna færu til félagslegra íbúða. En ég held að það hafi verið allt of mikið af gífuryrðum, fullyrðingum um að allt sé hrunið, allt sé ónýtt og allt sé í ólestri. Það er mörgu áfátt enn þá, en það hefur þó aldrei staðið betur heldur en í dag. - [Fundarhlé.]