16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4267 í B-deild Alþingistíðinda. (3949)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. félmn. (Guðmundur J. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal verða við orðum forseta að lengja ekki mál mitt. Ég get þess, án þess að vera að munnhöggvast við hv. 3. þm. Vestf., að í hans áliti, sem er góðra gjalda vert, er spurningin sú, og er ég nú ekki aflögufær í lögum hvað snertir stjórnarskrá, að það verði að vera ákvæði í lögum um hver skattur sé til sveitarfélags. Hinu sýnist mér ekki nokkur minnsti vafi á að með þessu frv. er hækkaður hlutur sveitarfélaga. Ég geri ráð fyrir að ég verði einn manna við atkvæðagreiðslu sem styðji þetta frv. vegna þess að ég geri ráð fyrir að flestir aðrir hv. þm. verði ósammála, en aðrir nokkuð háðir sínum sveitarstjórnum.

En við getum deilt um tekjuskattslögin. Þar eru margir óvissuþættir og getur enginn sagt hvernig vissir þættir koma þar út. Þar verður reynslan ein að skera úr um. En mér sýnist enginn vafi leika á að það er hækkun til sveitarfélaga því að eins og segir í nál. hefði 6,25%, miðað við árin 1982-1986, verið hin eðlilega álagning miðað við staðgreiðslu. Með því að hækka þetta í 7,5% þýðir það 20% hækkun útsvarstekna miðað við árabilið 1982-1986.

Ég vil aðeins benda á að í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um staðgreiðslukerfi var ekki gert ráð fyrir beinni hækkun gjalda eins og nú virðist stefnt að. Hitt geta menn verið sammála um að óvissuþættir séu ýmsir í framkvæmd tekjuskattslaga, en að þessu leyti virðist ætlunin að nota kerfisbreytingu sem skjól til hækkunar á sköttum sveitarfélaga.

Nú veit ég að það verða feiknin öll af þm. sem munu koma með þau rök að sveitarfélögum veiti ekki af o.s.frv. Þeir gætu meira að segja sannað það hér að viðkomandi sveitarfélög vítt og breitt um landið þurfi 10% útsvarsálagningu og fært fyrir því mörg rök, en það er ekki gert ráð fyrir í kerfisbreytingunni sérstakri hækkun eða hugsunin var ekki sú. Þó hefur verið látið undan sveitarfélögum og hækkað úr 7% í 7,5%. Till. mín er sú að það verði haldið sig við 7% sem er veruleg hækkun frá því sem áður var.

Ég vil líka benda á að ýmsir hafa haldið því fram í sambandi við innheimtukerfið að þetta kæmi verr út fyrir sveitarfélögin. Það er alveg það gagnstæða. Ónýttur persónuafsláttur eykst vegna þess að persónuafsláttur hækkar og þá er það ríkissjóður sem greiðir það. Breytingin er svo hagstæð sveitarfélögum að ríkissjóður greiðir sveitarfélögum útsvar af ónýttum persónuafslætti mánaðarlega. Áður greiddi ríkissjóður þetta ekki fyrr en á bilinu ágúst-desember. Ég verð að segja að mér finnst þarna gengið ákaflega vel til móts við sveitarfélög og þessi ónýtti persónuafsláttur, sem ríkissjóður greiðir mánaðarlega til sveitarfélaga, koma þeim til góða. Og það er út af fyrir sig vel.

En ég bið hv. þm. að vera ekki með þau rök að sveitarfélögum veiti ekki af. Það er ekkert auðveldara en sanna að þau þurfi 10 eða 11%. En hugsunin var aldrei sú að í kerfisbreytingunni væri hækkun. Það má vel vera að einstaka þættir komi til hækkunar. Um það er ákaflega erfitt að fullyrða og menn ósammála um. Aðrir fullyrða að það sé lækkun. En hvað snertir sveitarfélögin um 7,5% er það tvímælalaust hækkun.

Eins og ég segi þýðir lítið að vera að lemja hér í borð og breiða úr sér. Ég býst við að ég einn greiði því atkvæði að sveitarfélögin hafi ekki 7,5% heldur 7%. (Gripið fram í: Er það ekki flokkssamþykkt?) Nei, það er ekki flokkssamþykkt og mér kemur hún hreinlega ekkert við. Þú gast þó botnað fyrir mig ræðuna.