06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Sá er háttur hv. þm. Karvels Pálmasonar að hann má vart mæla hér öðruvísi en hann krefjist ekki þess að hv. 7. þm. Reykv. taki til máls líka. (KP: Hann er alltaf að kalla fram í.) Já, mér er einkar lagið að kalla fram í og það er rétt hjá þm. að það er kannske of mikið af því en minna af ræðum.

Þarna er, eins og síðasti ræðumaður gat um, um ákaflega vandmeðfarið mál að ræða og mér fannst bæði hann og hv. þm. Stefán Valgeirsson ræða þessi mál af þekkingu og yfirvegun. Guðmundur Garðarsson er nú einn þrautreyndasti maður í lífeyrissjóðsmálum. Þarna er ákaflega vandasamt verk að vinna. Þarna er t.d. ákaflega hörð togstreita. Ákveðnir landshlutar aftaka að það verði einn lífeyrissjóður og geymsla þess fjár verði á Stór-Reykjavíkursvæðinu eða í Reykjavík. (Gripið fram í: Hvaða skoðanir hefur þm. á því?) Ég verð að beygja mig undir það að viðurkenna að þetta sjónarmið er ákaflega sterkt. Það er m.a.s. svo sterkt að t.d. fyrirmyndarbyggðarlag eins og Bolungarvík treystir ekki öðrum verkalýðsfélögum á Vestfjörðum fyrir sínum lífeyrissjóði heldur hefur sérlífeyrissjóð. Þetta nær því víða. En ég vil benda á að þetta er helsti sparnaðurinn í landinu. Ef það væri þetta gegnumstreymiskerfi, sem ekki er nú verið að leggja til, hefði sparnaður í landinu verið mun minni, lausnir t.d. núna á húsnæðismálunum o.s.frv. hefðu ekki komið til ef ekki væri uppsöfnun, eins og séðasti ræðumaður gat um, hjá lífeyrissjóðunum.

Þá er deilan í sambandi við opinbera starfsmenn. Þeir búa við nokkru betri aðstöðu. Ef þeirra lífeyrissjóður ætti að standa undir útgjöldum eins og gerð er krafa um, t.d. til Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar, þyrfti að greiða í hann 23-24% þegar aðeins eru greidd 10% af aðilum í hina almennu lífeyrissjóði. Síðan hafa orðið breytingar. Lífeyrissjóður SÍS hefur hækkað sínar greiðslur í 7,5% atvinnurekandi og í 5% launþegi. (Gripið fram í.) Já, 11,5% í heild. Það eru greidd : hann 11,5% samtals. Svona hrannast þetta upp.

Hins vegar hefur verið starfandi í landinu sautján manna nefnd til að fjalla um lífeyrissjóðamál og átta manna undirnefnd, hún er nú vonandi látin sú nefnd, og formaður í henni er Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri, valinkunnur sæmdarmaður að allra dómi. Því var spáð fyrir nokkrum árum að þessi nefnd mundi skila áliti þegar Hallgrímur Snorrason, sem var um fertugt, væri sjálfur farinn að nálgast eftirlaunaaldur. Svo seint gengu þessi mál, ekki vegna Hallgríms nema síður sé heldur voru árekstrar það miklir. Hins vegar standa mál þannig nú að þessi átta manna lífeyrissjóðanefnd, sem er samsett af aðilum frá Alþýðusambandinu, Vinnuveitendasambandinu, BSRB, Vinnumálasambandi, Farmanna- og fiskimannasambandi, undir forustu Hallgríms Snorrasonar, skilar áliti og uppkasti að lagafrv. um lífeyrissjóði, bæði réttindi, skyldur, bótarétt og fyrirkomulag allt, í næstu viku. Að sjálfsögðu verður þetta rætt í stjórnum lífeyrissjóðanna, en mér er sagt að í meginatriðum hafi þessi átta manna lífeyrisnefnd náð samkomulagi. Ég geri ráð fyrir með einhverjum sératkvæðum, sér í lagi frá BSRB, en hvað um það. Þessi gagnmerka nefnd, sem búin er að vera að störfum í a.m.k. átta ár, skilar áliti í næstu viku. Ég vil bíða eftir að sjá álit þessarar nefndar því að ef allir höfuðaðilar að lífeyrissjóðunum hafa náð þarna samkomulagi sín á milli er það svo mikið mál að það er yfirgnæfandi möguleiki á að þessi mál öll leysist með samkomulagi og úr þeim göllum, sem flm. taldi réttilega upp að ýmsu leyti, verði bætt.

Þar eru, eins og ég tók fram, hæfir menn og frábærlega hæfur hagstofustjóri, Hallgrímur Snorrason, og mér þykir þetta góðar fréttir. Ég spara mér þess vegna að ræða þessi mál mjög ítarlega. Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni. Þessi mál þarfnast umræðu í stéttarfélögunum, milli lífeyrissjóða. Ég held að okkur greini ekki á um takmark heldur um leiðir. Þetta eru ákaflega flókin og snúin mál En liggi fyrir samkomulag þessara aðila um nýtt lagafrv. tel ég það ákaflega merkan viðburð og pá ætti að fara að koma skriður á þessi mál og pað væri til mikilla bóta.