20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

62. mál, samfélagsþjónusta

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Sú till. sem hér er á dagskrá er ákaflega athyglisverð og ákaflega nauðsynlegt að þær hugmyndir sem felast í henni fái skoðun og sérstök ástæða er til að þakka hv. 1. landsk. þm. fyrir hennar framsöguræðu hér áðan. Það var í henni býsna mikill fróðleikur.

Það má nú ræða þessi mál lengi og ég hef gert það hér áður í þessum stól. Þrátt fyrir allt og allt er ákaflega mikil stöðnun í þessum málum. Það er meira um athuganir en athafnir og meira um góðviljaðar yfirlýsingar sem oft vilja verða harla lítils virði. En þessi þáltill. um að skipa nefnd er ákaflega athyglisverð tilraun til úrbóta. Ég finn helst að till. nafnið á henni. Það er stofnanamál á henni mikið, það áttar sig enginn á að það sé verið að ræða um fangelsismál, en ekki treysti ég mér til að segja flm. til í íslensku.

Aðeins örfá orð um ástandið í fangelsismálum á Íslandi. Það er mjög slæmt. Það hefur þó að ýmsu leyti skánað í seinni tíð og langsamlega dugmestur í úrbótum í þessum efnum var Ólafur heitinn Jóhannesson, fyrrv. dómsmrh. Engu að síður er ástandið slæmt og sannleikurinn er sá að það þarf ákaflega sterka persónuleika til þess að dvelja t.d. á Litla-Hrauni um einhvern tíma án þess að það hafi ævilangt mjög skaðleg ef ekki niðurbrjótandi áhrif, ævilangt í mörgum tilfellum, á viðkomandi aðila. Að fróðra manna sögn, það er alltaf hættulegt að vera að nefna tölur, eiga a.m.k. 70% þeirra 50-56 fanga sem þar eru að staðaldri við alvarleg áfengisvandamál að stríða eða eru háðir hinum margvíslegu vímuefnum. Ein raunhæfasta aðgerðin sem eitthvað hefur verið gert af væri að gefa mönnum kost á, það má aldrei segja öllum o.s.frv., en að gefa sem flestum kost á að dveljast á meðferðarheimilum SÁÁ. Meðferðarstofnanir þessar hafa náð undraverðum árangri þó að það sé ekki hægt að fullyrða um hvern og einn. Helstu breytingar á afbrotaflokkum eru þær að þeim sem neyta eiturlyfja eða hafa selt eiturlyf hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og afbrotum undir áhrifum slíkra efna hefur einnig fjölgað. Eitt af því skuggalega, og ég bið þm. að taka eftir, er að eiturlyfjum er í verulegum mæli smyglað til fanga á Litla-Hrauni og dæmi eru til þess að ungir menn hafa komið þaðan stórskuldugir út, úr betrunarhúsinu, vegna kaupa á fíkniefnum í fangelsinu. Nú þýðir ekkert að hlaupa til og fara að loka alla inni. Um slíkt er auðveldara að tala en úr að bæta en einungis er þetta eitt örlítið dæmi um ástandið hvað það er slæmt og hvað það er erfitt í fangelsismálum.

Ég skal viðurkenna að sá sem gefur sig að úrbótum í fangahjálp eða fangelsismalum verður alltaf fyrir vonbrigðum. Þetta eru það viðkvæm og vandasöm mál, sú góða hugsun sem að baki liggur bíður oft skipbrot, en það þýðir ekki að það eigi að gefast upp. Sú efnislega tillaga sem hér liggur fyrir um þessi mál er að mínu mati til mikilla bóta, að þessi leið sé athuguð.

Mér er sagt af kunnugum mönnum, eins og kom hér fram hjá frsm. áðan, að Bretar hafi fyrstir sett löggjöf um vinnuskyldu í stað refsingar. Þetta gafst illa í Bretlandi og þær upplýsingar sem ég hef eru eiginlega öllu verri en fram komu hjá flm., en vera má að mínar upplýsingar séu ekki jafnnákvæmar. Það gafst fyrst og fremst illa vegna þess að dómar voru þannig að í upphafi var þetta eingöngu bundið við skilorðsbundna dóma, þannig að maður sem var dæmdur skilorðsbundið var dæmdur í vinnuskyldu. Þetta þýddi í raun þyngingu refsingar og þyngingu dóma. Og vegna mikils atvinnuleysis í Bretlandi, þá snerust verkalýðsfélög mjög harkalega á móti slíkum dómum.

Svíar hafa ekki tekið þetta form upp um vinnuskyldu í stað fangelsisvistar. Túlkun sérfræðinga í þessum málum, t.d. í Svíþjóð, er að ekki megi nota vinnuna sem hugsanlega hegningu eða eitthvert böl. Hins vegar reka þeir opin fangelsi og fleiri form á fangelsisvistun, misjafnlega ströng eftir eðli afbrota. Eitthvað í þá átt sem hér er lagt til mun vera til í Vestur-Þýskalandi gagnvart ungu fólki, t.d. mun þekkjast eitthvað í sumum fylkjum að þeir sem staðnir eru að ljótum umferðarbrotum eru látnir vinna á sjúkradeildum sem vista bæklaða sem lent hafa í og slasast hafa í slæmum umferðarslysum. Hér á Íslandi yrðu þá ökuníðingar með slæm umferðarbrot látnir vinna á Grensásdeildinni og þá við umönnun þeirra sem slasast hafa í umferðarslysum. Ég held að það væri nú fátt sem frekar hjálpaði ungu fólki. Ég er ekki endilega að segja að þetta ættu að vera menn sem hafa valdið slysum, ég held að þeir geri sér það enn þá betur ljóst.

Dómarnir eru yfirleitt þannig, eins og kom fram hjá frsm., að vinnuframlag kemur í stað ákveðinnar fangelsisvistar. Skilorðseftirlitið annast þessa vinnumiðlun og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Viðkomandi sem dæmdur hefur verið til refsingar verður að skrifa undir yfirlýsingu um að ef hann brjóti af sér í starfi, þá verði hann að taka út fangelsisdvöl. Vitanlega eru ekki í þessum hópi menn sem hafa verið dæmdir fyrir t.d. kynferðisafbrot eða annað þess háttar eða annað það sem gerir þá mjög hættulega umhverfi sínu. Mér er sagt að í Danmörku fari fjölgandi mælidómum yfir ungu fólki til samfélagsþjónustu utan vinnutíma og reyndar í Noregi líka, en þetta mun þó vera komið lengst í Danmörku. Þess vegna ber að fagna þessari till. sem hér liggur fyrir, en við skulum gera okkur fyllilega ljóst að fámennið hér gerir öll þessi mál vandasamari og viðkvæmari.

Ég hef áður lýst hér í þingræðum andstyggð minni á ástandi íslenskra fangelsismála og afstaða mín er enn sú sama. En ég held að óhjákvæmilegt sé að efla skilorðseftirlitið, þ.e. eftirlit með þeim sem hlotið hafa skilorðsbundna dóma. Ég held að þar sé unnið ákaflega jákvætt starf sem hafi afstýrt fleiri fangelsisdómum og þar sé einnig hægt að bæta og ég held að hægt sé að spara óhemjufé og afstýra mikilli mannlegri ógæfu ef skilorðseftirlitið væri eflt.

Tími minn er á þrotum. Ég vil þó að endingu tipla hér á þremur atriðum. Það er ógurlegur skortur á allri félagslegri þjónustu í fangelsum hérlendis og menntunaraðstæður hafa aftur staðnað. Ég vil ítreka þakklæti mitt fyrir þessa till. sem hér kemur fram til flm. og framsögu. Ég þekki of marga, bæði af æskufélögum og yngri menn sem ég hef haft kynni af, sem hafa verið dæmdir til fangelsisvistar og hafa komið þaðan stórskaddaðir út svo að jafnvel hefur enginn möguleiki verið á björgun. Ég held að þess vegna ætti að taka þessa till. alvarlega og í nefnd væri unnið að málinu.

Ég fékk samþykkta nefndarskipun hér fyrir fjórum eða fimm árum síðan. Mér er sagt að sú nefnd sé enn að störfum. Ég held að dómsmrn. ætti frekar að snúa sér að þessum jákvæðu úrræðum en að elta tillögur refsiglaðra og skammsýnna deildarstjóra í þessum málum og er þar mál að linni.