131. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Forseti Íslands setur þingið.

[14:07]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 15. september 2004 var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman föstudaginn 1. október 2004.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst klukkan 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 15. september 2004.

Ólafur Ragnar Grímsson.

–————————

Halldór Ásgrímsson.

 

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman föstudaginn 1. október 2004.“

 

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.

Þegar alþingismenn koma saman til fundar á ný hafa orðið þáttaskil í stjórn landsins. Nýr forsætisráðherra tók við embætti 15. september og núverandi utanríkisráðherra vék úr þeim stóli eftir ábyrgðarskeið sem er einstakt í sögu þjóðarinnar. Við þessi tímamót færi ég hæstvirtum ráðherra Davíð Oddssyni þakkir fyrir farsæl störf, forustu á umbrotatímum og mikilvægt framlag til hagsældar og velferðar Íslendinga sem skipar honum í sérstakan virðingarsess í annálum þings og þjóðar.

Ég bið honum jafnframt góðrar heilsu og vona eins og landsmenn allir að hann nái sem fyrst fullum bata. Það er þraut að glíma við erfið og margþætt veikindi en eðliskostir, staðfesta og bjartsýni sem hann býr yfir í ríkum mæli eru haldgott veganesti. Þegar Alþingi kemur nú saman væntum við öll að hann geti innan tíðar tekið sem fyrr fullan þátt í störfum þingsins.

Ég býð hæstvirtan forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson velkominn til nýrra ábyrgðarstarfa. Fjölþætt reynsla hans við forustustörf undanfarna áratugi og viðamikil þekking mun örugglega létta honum verkin við krefjandi úrlausnarefni. Sambúð Alþingis og oddvita ríkisstjórnar er grundvallarþáttur í stjórnskipun landsins og löng þingreynsla verður nýjum forsætisráðherra farsæll leiðarvísir í þeim efnum.

Breytingarnar sem orðið hafa á þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá því hann kom í fyrsta sinn ungur maður í þennan sal eru vissulega umfangsmeiri en nokkurn gat órað fyrir og hlutur Alþingis skiptir þar sköpum. Þá voru Íslendingar að hefja lokasókn til að ná fullum rétti yfir hafinu umhverfis landið og líkt og áður fór í hönd erfið barátta. Við höfðum þó fullan sigur og vert er að minnast þess að Alþingi var jafnan í forustu þegar kom að málefnum hafsins. Hér myndaðist iðulega samstaða og samstarf allra flokka. Sá einhugur færði baráttu þjóðarinnar byr í seglin og Íslendingum umráðarétt sem tryggði forræði okkar á fiskimiðum, veitti okkur aðgang að auðlindum sem reyndust forsenda lífskjaranna sem við nú njótum.

Framganga Alþingis í hafréttarmálum er merkur kafli í þjóðarsögu og leiddi til umskipta á heimsvísu, nýrra alþjóðalaga sem orðið hafa undirstaða að samvinnu þjóða í áratugi. Hlutverk Alþingis var því í senn örlagaríkt um hagsmuni Íslendinga og veigamikið fyrir veröldina.

Þessi arfleifð felur Alþingi ábyrgð og opnar sóknarfæri þegar nú er enn hafin umræða á alþjóðavettvangi um málefni hafsins, um viðbrögð þjóða við þeim breytingum sem verða skýrari með ári hverju: hækkandi loftslagshita, bráðnun jökla og ísbreiðunnar við skaut jarðar. Þær breytingar ógna einnig hafstraumunum sem ráða miklu um lífshætti jarðarbúa.

Hafsvæðið umhverfis Ísland er í brennidepli hvað þetta snertir. Hingað kemur Golfstraumurinn sunnan úr höfum og blandast ferskvatninu sem berst með ám og ís úr norðri. Sú blanda þegar mismunandi saltstig og ólíkur hiti sjávar koma saman skapar drifkraftinn sem knýr færiband hafstraumanna kringum hnöttinn, færiband sem ræður úrslitum við stýringu loftslagsins sem þjóðir heims hafa vanist, hver í sinni álfu; Afríku, Ameríku, Evrópu og Asíu.

Lykillinn að auknum skilningi á þeim hættum sem loftslagsbreytingar munu færa mannkyni öllu er fólginn í hafinu umhverfis Ísland og héðan til annarra svæða á norðurslóðum. Því er mikilvægt að við höldum vöku okkar og séum í fremstu sveit við eflingu rannsókna og alþjóðlegrar umræðu á þessu sviði, sviði sem veitt getur Alþingi mikla vegsemd, líkt og þegar Alþingi á síðustu öld færði Íslendingum virðingu og þökk annarra þjóða vegna forustunnar í landhelgismálum.

Nýlega tóku íslenskir þingmenn þátt í vestnorrænum fundi þar sem kynntar voru nokkrar niðurstöður úr loftslagsskýrslu Norðurskautsráðsins en hún verður birt á ráðherrafundi hér á Íslandi eftir fáeinar vikur.

Loftslagsskýrslan og önnur um þróun mannlífs á norðurslóðum eru markverðasti ávinningurinn af formennsku Íslendinga í Norðurskautsráðinu og þær munu báðar sæta tíðindum víða um heim. Einkum er líklegt að loftslagsskýrslan verði grundvöllur að víðtækum umræðum á alþjóðavelli enda geyma norðurslóðir skýrastar vísbendingar um áhrifin sem umsvif mannsins hafa á hitastig jarðarinnar.

Ör bráðnun jökla og vöxtur stórfljóta á norðurslóðum hækka yfirborð sjávar um veröld víða og hafa að líkindum í för með sér að aflvélin í hafinu umhverfis Ísland sem knýr hafstraumabeltið, beltið sem umlykur allar álfur, kunni að stöðvast í næstu framtíð. Innan örfárra áratuga gætu slík umskipti hafa orðið í norðanverðu Atlantshafi að lífshættir allra jarðarbúa biðu af þeim sökum varanlegt tjón og stór hluti landa yrði óbyggilegur.

Þessar breytingar munu einnig umturna öllum fiskstofnum sem veitt hafa okkur lífsbjörg frá landnámstíð, fiskstofnum sem útfærslu landhelginnar var ætlað að vernda. Sérfræðingar hafa og fyrir skömmu fært rök að því að jöklar Íslands kunni að hverfa með öllu á þessari öld eða þeirri næstu og mundi slíkt gerbreyta öllum vatnabúskap og virkjunarkostum sem við höfum lengi talið fjársjóð til framtíðarnota.

Margir hafa gefið heldur lítið fyrir spádóma af þessu tagi en vitnisburður vísindamanna verður sífellt öruggari og erlendis hljóma nú skýrar margvíslegar viðvaranir. Forsætisráðherra Breta flutti fyrir skömmu stefnuræðu á ráðstefnu í elsta og virtasta háskólasetri enskrar þjóðar og áréttaði að viðbrögðin við loftslagsbreytingum væru mikilvægasta verkefni heimsbyggðar á komandi árum, að við yrðum að ná samkomulagi sem forðaði börnum okkar og afkomendum frá hættunum sem eru á næsta leiti. Nýjasta hefti hins virta tímarits National Geographic er helgað ítarlegri umfjöllun um hvernig breytingar á loftslagi, hafstraumum og hitastigi á norðurslóðum eru vísbendingar um uggvænlega umturnun á loftslagi jarðar, umbyltingu sem tíðir fellibyljir við strendur Ameríku eru ef til vill vísbending um.

Niðurstöður vísindamanna og efnisþættir alþjóðlegrar umræðu berast okkur nú úr öllum áttum; og loftslagsskýrsla Norðurskautsráðsins mun verða lögð til grundvallar af æðimörgum. Íslendingum hefur þegar verið þakkað víða um heim fyrir forustu við þá efnissöfnun og hróður okkar mun vaxa enn frekar þegar skýrslan verður birt á ráðherrafundinum í Reykjavík.

Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu verður lengi metin að verðleikum og vil ég færa fyrrverandi utanríkisráðherra, embættismönnum og sérfræðingum sem hér hafa komið að einstæðu verki alúðarþakkir þjóðarinnar. Forustan í Norðurskautsráðinu er líklega eitt mikilvægasta verkefnið sem Íslendingar hafa á umliðnum árum sinnt á alþjóðavelli og vonandi verður hún öðrum þjóðum til eftirbreytni en Rússar munu innan skamms setjast þar í okkar sæti.

Alþingi hefur nú þegar með þátttöku þingmanna í fundi Vestnorræna ráðsins sem haldinn var á Grænlandi látið til sín taka í þessum efnum en þó er verkið nýhafið, fram undan er brýn umræða og ákvarðanir, ekki aðeins hér heima heldur einnig á vettvangi æðstu stofnana þjóða heims.

Líkt og Alþingi vísaði veg í hafréttarmálum á liðinni öld og samstaða og einhugur hér í salnum voru forsenda árangurs sem skipti sköpum hefur Alþingi nú sögulegt tækifæri til að taka forustu um viðbrögð við þeim breytingum sem eru að verða í hafinu við Íslandsstrendur, breytingum sem einnig ná til norðurslóða og munu hafa ógnvænleg áhrif á lífsskilyrði allra jarðarbúa, ekki eftir margar aldir heldur jafnvel innan fáeinna áratuga.

Alþingi er í betri stöðu en þjóðþing flestra landa til að láta að sér kveða og tengja saman áreiðanlegustu niðurstöður fræðimanna og samræður á alþjóðavettvangi um þá nýskipan sem getur forðað okkur, börnum okkar og afkomendum frá slíkum hættum.

Framlag Alþingis til hafréttarmála á fyrri árum er reynslusjóður sem mun nýtast vel í slíku verki og ég óska alþingismönnum öllum farsældar á þeirri vegferð sem nú blasir við. Vonandi skapast hér í salnum einhugur og samstaða sem eru forsenda þess að svo brýnt erindi skili árangri, Íslendingum og heimsbyggð allri til heilla.

Ég býð alþingismenn velkomna til starfa og bið þá að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn og bið ég Halldór Ásgrímsson, 7. þm. Reykv. n., að ganga til forsetastóls.