131. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Minning Gylfa Þ. Gíslasonar.

[14:29]

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Gylfi Þ. Gíslason prófessor, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra og fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis, lést hér í borg 18. ágúst sl., 87 ára að aldri.

Hann var fæddur í Reykjavík 7. febr. 1917. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Gíslason, ritstjóri og skáld, og Þórunn Pálsdóttir húsmóðir.

Gylfi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1936 og hélt þá utan til náms og lauk kandídatsprófi í rekstrarhagfræði frá háskólanum í Frankfurt am Main 1939. Doktorsprófi lauk hann við sama háskóla 1954. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands 1971.

Er Gylfi Þ. Gíslason kom heim frá námi varð hann fyrst starfsmaður í Landsbanka Íslands 1939–1940 en hóf þegar háskólakennslu sem átti eftir að verða meginviðfangsefni hans samhliða stjórnmálastörfum. Hann varð kennari við hinn nýstofnaða Viðskiptaháskóla Íslands 1939–1940, dósent 1940–1941. Árið 1941 var hann skipaður dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og prófessor árið 1946. Samhliða háskólakennslu dvaldist Gylfi við framhaldsnám í háskólum í Danmörku, Sviss og Bretlandi 1946, í Bandaríkjunum 1952 og Þýskalandi 1954. Enn fremur var hann stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík 1939–1956, að einu ári undanskildu.

Dr. Gylfi fékk snemma áhuga á stjórnmálum og hneigðist til róttækrar jafnaðarstefnu. Hann var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn í tvennum kosningum árið 1942 í Vestmannaeyjum, 25 ára gamall. Eftir talsverð átök fór svo fjórum árum síðar að Gylfi var valinn til að skipa efsta sæti á lista Alþýðuflokksins í Reykjavík við kosningarnar 1946. Hann hlaut kosningu og átti samfellda setu á Alþingi í 32 ár, fram að kosningum 1978.

Þegar Hermann Jónasson myndaði ráðuneyti þriggja flokka 24. júlí 1956 varð Gylfi Þ. Gíslason annar tveggja ráðherra Alþýðuflokksins í þeirri ríkisstjórn og fór með mennta- og iðnaðarmál. Hann fór með sömu málaflokka, auk viðskiptaráðuneytisins, í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins undir forustu Emils Jónssonar frá 23. des. 1958 fram til 20. nóv. 1959. Er stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem síðar hefur oft verið nefnd viðreisnarstjórn, var mynduð þann dag varð Gylfi mennta- og viðskiptaráðherra í ráðuneyti Ólafs Thors og síðar í ráðuneytum Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafsteins uns því stjórnarsamstarfi lauk eftir kosningarnar 1971, en stjórnarskipti urðu 14. júlí. Hafði hann þá gegnt ráðherrastörfum rétt tæp 15 ár samfellt, lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður til þessa. Á ráðherraferli sínum hafði hann forustu um fjölda nýmæla í menningarmálum og efnahagsmálum sem hafa orðið þjóðinni til hags og framfara. Hann var formaður Alþýðuflokksins 1968–1974. Frá árinu 1968 til loka þingferils síns 1978 var hann formaður þingflokks Alþýðuflokksins.

Eftir þingkosningarnar í júní 1974 skapaðist óvissa í íslenskum stjórnmálum. Meirihlutastjórn hafði ekki verið mynduð er nýkjörið Alþingi kom saman um miðjan júlímánuð til að undirbúa þjóðhátíð á Þingvöllum í tilefni 1100 ára búsetu í landinu. Við þær aðstæður var Gylfi Þ. Gíslason kosinn forseti sameinaðs Alþingis og stjórnaði hátíðarfundi Alþingis á Lögbergi með þeirri reisn sem hæfði.

Er ráðherrastörfum dr. Gylfa lauk sumarið 1971 dvaldist hann erlendis nokkra mánuði en var síðan skipaður á ný prófessor í viðskiptadeild Háskóla Íslands 1972 og gegndi því embætti til starfsloka, 1987. Hann var rómaður fyrir líflega kennslu og góð kennslurit handa stúdentum. Eftir hann liggur fjöldi rita og urmull greina í blöðum og tímaritum víða um lönd.

Gylfi Þ. Gíslason var valinn til margs konar nefndarstarfa á stjórnmálaferli sínum og skal þar fátt eitt nefnt. Hann sat í viðskiptaráði 1943–1946, í bankaráði Framkvæmdabanka Íslands 1953–1966 og í stjórn Framkvæmdasjóðs 1966–1971. Hann var fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1956–1965 og í stjórn Alþjóðabankans 1965–1971. Hann sat í þjóðleikhúsráði 1954–1987. Dr. Gylfi var afar áhugasamur um norrænt samstarf, sat í Norðurlandaráði 1971–1978, var formaður Norræna félagsins 1984–1991 og átti sæti í stjórn Norræna hússins í allmörg ár.

Hér hefur æviferill Gylfa Þ. Gíslasonar verið rakinn og þau stjórnmálastörf sem hann tókst á hendur. Hann var skarpur málflytjandi, skýr í framsetningu og um margt fyrstur til að tileinka sér nútímaleg vinnubrögð í stjórnmálum, svo sem í samskiptum við fjölmiðla. Vissulega var hann stundum umdeildur og talsvert umrót í samfélaginu á ráðherraárum hans, en um drengskap hans efuðust fáir. Gylfi Þ. Gíslason var menningarmaður í besta skilningi þess orðs. Menntun, einkum málefni háskólans og tónlistarfræðslu, bar hann mjög fyrir brjósti. Í tómstundum undi hann sér löngum við að njóta tónlistar.

Í minningarriti sínu, Viðreisnarárin, sem hann skrifaði að ævikveldi, þótti honum mest um vert að eiga hlut að þeim miklu umskiptum sem urðu í efnahagslífi Íslendinga um 1960 og á árunum þar á eftir. Hann viðurkenndi fúslega að þjóðfélagsskoðanir sínar frá æskuárum hefðu breyst. Það segir sig sjálft að á svo löngum tíma sem hann sat í ríkisstjórn voru mörg mikilvæg mál til lykta leidd, en vænst mun honum hafa þótt um lyktir handritamálsins og sú stund eftirminnileg er hann veitti viðtöku Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða fyrir hönd Íslendinga í sumarbyrjun 1971.

Ótvírætt verður dr. Gylfi Þ. Gíslason talinn til forustumanna Íslendinga þegar saga okkar tíma verður skrifuð. Enn er þó ótalið það sem eflaust mun lengi halda minningu hans á lofti en það eru hin ljúfu sönglög sem hann samdi og eru þjóðinni hjartfólgin.