131. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Minningarorð um Gauk Jörundsson.

[14:42]

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Dr. juris Gaukur Jörundsson, fyrrverandi umboðsmaður Alþingis, lést hinn 22. sept. sl. Hann átti þá tveim dögum fátt í sjötugt, var fæddur hér í Reykjavík 24. sept. 1934. Hann var sonur hjónanna Jörundar Brynjólfssonar, bónda í Skálholti og síðar Kaldaðarnesi í Flóa, alþingismanns og alþingisforseta um mörg ár, og seinni konu hans, Guðrúnar Dalmannsdóttur húsfreyju. Gaukur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954 og kandídatsprófi í lögum frá Háskóla Íslands 1959 með góðum vitnisburði, stundaði síðan framhaldsnám í Ósló, Kaupmannahöfn og Berlín næstu þrjú ár, 1959–1962. Hann hlaut doktorsnafnbót við lagadeild Háskóla Íslands 1970 fyrir ritgerð um eignarnám.

Gaukur Jörundsson hóf að námi loknu störf hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík en varð nokkrum árum síðar kennari við lagadeild háskólans, fyrst sem lektor en síðar prófessor. Mikið orð fór af kennslu Gauks og fræðistörfum. Tvívegis var hann settur hæstaréttardómari um nokkurra mánaða skeið hvort sinn og gegndi jafnframt varadómarastörfum af og til í Hæstarétti. Áður hafði hann verið hæstaréttarritari tæpt ár. Hann var kjörinn í mannréttindanefnd Evrópu árið 1974 og starfaði þar þangað til nefndin var lögð niður við skipulagsbreytingar 1998. Var Gaukur þá kjörinn af Íslands hálfu í Mannréttindadómstól Evrópu frá 1. nóv. 1998 og sat þar fram á þetta ár.

Þegar Alþingi samþykkti 9. mars 1987 að stofna til embættis umboðsmanns Alþingis með lögum nr. 13/1987, sem tóku gildi 1. jan. 1988, valdist Gaukur Jörundsson til að koma embættinu á fót og móta það. Það var vel ráðið því að Gaukur var í senn traustur fræðimaður og embættismaður og með reynslu af alþjóðlegu mannréttindastarfi. Sá orðstír sem fór af Gauki Jörundssyni, jafnt innan lands sem utan, stuðlaði mjög að því að skapa hinu nýja embætti umboðsmanns Alþingis virðingu og traust sem var nauðsynlegt ef takast átti að bæta stjórnsýsluna og skapa borgurunum þá vernd og skjól sem að var stefnt með álitum umboðsmanns. Gaukur var tvívegis endurkjörinn umboðsmaður Alþingis, í árslok 1991 og 1995, með einróma samstöðu alþingismanna og gegndi hann embættinu til 1. nóv. 1998.

Samhliða embættisstörfum var dr. Gaukur óðalsbóndi í Kaldaðarnesi. Alþingi stendur í þakkarskuld við dr. Gauk Jörundsson fyrir brautryðjandastarf hans í þágu embættis umboðsmanns Alþingis. Hann reyndist verðugur þess trausts sem Alþingi bar til hans.

Ég bið þingheim að minnast Árna Ragnars Árnasonar alþingismanns, Gylfa Þ. Gíslasonar og Gunnars G. Schrams, fyrrverandi alþingismanna, og fyrsta umboðsmanns Alþingis, Gauks Jörundssonar, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]