131. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Ávarp forseta.

[14:52]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Halldóri Ásgrímssyni, hlý orð í minn garð. Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að óska honum velfarnaðar í starfi forsætisráðherra.

Forseti Alþingis og forsætisráðherra þurfa að eiga náið samstarf um þingstörfin og vænti ég góðs í þeim efnum.

Ég færi fráfarandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni utanríkisráðherra, þakkir fyrir gott samstarf á liðnum árum með óskum um að hann nái skjótum og góðum bata.

Ég þakka hv. alþingismönnum það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að kjósa mig á ný forseta Alþingis.

Í sumar hefur verið unnið að miklum endurbótum á Alþingishúsinu. Endurbætur á 1. hæðinni hófust í fyrra og var unnið áfram að þeim á þessu ári með því að gert var við leka undir gólfum og þau endurnýjuð. Það var mikið verk. Sömuleiðis hefur verið unnið að viðgerðum og endurbótum á 2. og 3. hæð hússins. Allar hafa þessar framkvæmdir miðað að því að færa húsið sem næst í upprunalegt horf og tryggja um leið varðveislu þess sem einnar mestu gersemar í byggingarlist hér á landi. Framkvæmdir þessar eru fyrstu gagngeru endurbæturnar sem gerðar hafa verið á Alþingishúsinu í 120 ára sögu þess og var tími til kominn.

Endurbæturnar eru ekki allar jafnaugljósar, þótt jafnnauðsynlegar séu. Endurnýjun raf- og vatnslagna lætur lítið yfir sér, en hins vegar er til mikilla bóta og fegurðarauka að lagnir sem lágu utan á veggjum hafa verið fjarlægðar. Gömul gólfborð í þingsal og hliðarherbergjum eru nú sjáanleg og nýtt gólfefni í Kringlu setur glæsilegan blæ á þessa gömlu viðhafnarstofu fyrsta ráðherra Íslands.

Í þingsal og sal efri deildar eru komnar á ný þær ljósakrónur sem þar voru uppi fyrir mörgum áratugum og um leið hefur lýsing í salnum verið endurgerð. Líklega eru þó mest áberandi þær litabreytingar sem orðið hafa í herbergjum í þinghúsinu, en þau hafa nú verið máluð í sínum upprunalegu litum og sýna þá miklu litagleði sem ríkti við byggingu hússins.

Ég vona að alþingismenn séu mér sammála um að þessar endurbætur hafi vel tekist. Ég þakka öllum þeim sem að því verki hafa komið. Þá þakka ég arkitektum, verktökum og starfsfólki Alþingis einstaka lipurð og góða samvinnu til þess að verkið gæti gengið vel fram við erfiðar aðstæður á liðnu sumri. Með þessum framkvæmdum er stærstum hluta endurbóta í þinghúsinu lokið, en þó eru eftir nokkrar endurbætur og fullnaðarfrágangur á 3. hæð hússins sem unnið verður að á næsta ári, auk þess sem lokið verður við viðgerð á útveggjum þess. Á næsta ári verður unnið að endurnýjun á húsbúnaði í Alþingishúsinu, aðallega í þingflokksherbergjum, en það er orðið aðkallandi eins og þingmönnum er kunnugt. Íslensk hönnun verður á þeim húsgögnum sem keypt verða í Alþingishúsið.

Háttvirtir alþingismenn. Hinn 2. júní sl. gerðist það utan ríkisráðsfundar að forseti Íslands synjaði um staðfestingu á lögum frá Alþingi sem forsætisráðherra hafði lagt fyrir hann. Þá urðu kapítulaskipti í sögu Alþingis og samskiptum þess við embætti forseta Íslands.

Ákvörðun sína um að synja lögum frá Alþingi staðfestingar tilkynnti forseti Íslands á fundi sem hann boðaði blaðamenn til á Bessastöðum 2. júní. Synjun sína reisti forseti Íslands á 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Í yfirlýsingu sinni segir hann m.a. að harðar deilur hafi orðið um „þann lagagrundvöll fjölmiðlanna sem mótaður er í frumvarpi sem Alþingi hefur nú afgreitt“.

Síðan segir í 9. tölulið yfirlýsingarinnar, sem virðist vera kjarninn í röksemdafærslu forseta Íslands:

„Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.“

Ummæli forseta Íslands, synjun hans um staðfestingu á lögum frá Alþingi á þeim grundvelli að djúp gjá sé á milli þingvilja og þjóðarvilja og þeir atburðir sem á eftir fóru gefa mér tilefni til að ræða stöðu Alþingis um leið og ég legg áherslu á að Alþingi er æðsta og elsta stofnun þjóðarinnar, að löggjafarvaldið er í höndum Alþingis og Alþingi er hornsteinn menningar og lýðræðislegrar stjórnskipunar hér á landi.

Á Alþingi hafa örlög þjóðarinnar ráðist. Á Alþingi var Gamli sáttmáli staðfestur og þar sótti íslenska þjóðin rétt sinn í hendur konungi Dana, uns fullnaðarsigur var unninn. Íslendingar eignuðust stjórnarskrá 1874.

Fyrr á þessu ári var þess minnst að hundrað ár voru liðin síðan heimastjórn var sett og þingræði hófst hér á landi sem síðan var staðfest í 1. gr. stjórnarskrárinnar frá 1944: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“

Við fögnuðum fullveldi 1. desember 1918 og stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944.

Alþingi og þingræðislegir stjórnarhættir eiga djúpar rætur í hugum Íslendinga.

Synjunarákvæði stjórnarskrárinnar eru leifar af þeirri trú að konungurinn — einvaldurinn — fari með guðs vald. Þingið stóð gegn vilja konungs og leiðrétti vald eins manns með því að taka það til sín.

Alþingi er kjörið af þjóðinni. Þar á fólk með ólíkar skoðanir og stefnur sína fulltrúa. Þar ráða menn ráðum sínum og leiða mál til lykta. Þótt forseti lýðveldisins sé kjörinn á sama hátt getur hann ekki mælt sig við Alþingi.

Ég geri ekki öðrum hv. alþingismönnum upp orð né skoðanir en mér kom aldrei til hugar að forseti Íslands synjaði um staðfestingu á lögum frá Alþingi. Svo hefur verið um fleiri. Samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar taka lög frá Alþingi gildi þótt forseti synji um staðfestingu, en leggja skal lögin „svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu.“ (SJS: Því var það þá ekki gert?) Til þess að svo megi verða þarf sérstaka löggjöf um atkvæðagreiðsluna, en hún hefur ekki verið sett né um hana hugsað fyrr en eftir synjun forseta Íslands um staðfestingu á lögum frá Alþingi 2. júní sl.

Við vitum hvað síðan gerðist. Skoðanir voru mjög skiptar um nánast allt er varðaði framkvæmd og gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar, m.a. hvort rétt væri að skilyrða lágmarksþátttöku í atkvæðagreiðslunni eða hvort áskilinn fjöldi atkvæðisbærra manna yrði að greiða atkvæði gegn lögum frá Alþingi til þess að þeim yrði hnekkt. Og enn voru þeir sem töldu að ekki skipti máli hvort 10% eða 90% kosningarbærra manna í landinu tækju þátt í slíkri atkvæðagreiðslu.

Loks deildu lögfræðingar um hvort Alþingi mætti samþykkja breytingar á hinum nýju fjölmiðlalögum eða ekki. Það var jafnvel gengið svo langt að segja að Alþingi mætti ekki nema lögin úr gildi. Hvergi er þó stafkrókur fyrir því í stjórnarskránni að sú staða geti komið upp að forseti Íslands geti með athöfnum sínum eða athafnaleysi skert löggjafarvald Alþingis.

Er skemmst frá hinum svokölluðu fjölmiðlalögum að segja að Alþingi var kallað saman til sumarþings hinn 5. júlí þar sem lagt var fram stjórnarfrumvarp til breytinga á lögunum. Því var vísað til allsherjarnefndar en meiri hluti hennar lagði síðan til í grófum dráttum að fjölmiðlalögin yrðu efnislega felld úr gildi og samþykkti Alþingi það samhljóða 22. júlí.

Forseti Íslands staðfesti síðan lögin, en vék enn að Alþingi í yfirlýsingu sinni: „Alþingi hefur nú fellt úr gildi lögin sem ollu hörðum og langvarandi deilum og mynduðu djúpa gjá milli þingvilja og þjóðarvilja.“ Ég vil ekki nú við setningu Alþingis gaumgæfa þessi orð forseta Íslands, og er þó ástæða til, enda eru allar hugmyndir um þjóðarvilja óljósar og enginn í aðstöðu til að þekkja þjóðarvilja um einstök mál.

Hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslu byggjast á því að þær eigi sér aðdraganda og að málið sé vel undirbúið, vel kynnt og vel reifað. Það ber að gefa þjóðinni tækifæri og tóm til þess að kynna sér efni slíks máls. Þjóðin verður að geta skeggrætt það svo að það geti þroskast í umræðunni. Það er vandasamt að leggja mál fyrir dóm þjóðarinnar og valið verður að vera afdráttarlaust en ekki um minni háttar atriði sem eðlilegt er að séu jafnan til endurskoðunar. Að öðru leyti eru ekki efni til að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Kjarni þess sem ég vil segja nú við setningu Alþingis er að eftir atburði sumarsins stendur löggjafarstarf Alþingis ekki jafntraustum fótum og áður. Það er alvarleg þróun og getur orðið þjóðinni örlagarík nema við sé brugðist. Ákvæði stjórnarskrárinnar um æðstu stjórn ríkisins, Alþingi, framkvæmdarvald og dómsvald, þurfa endurskoðunar við. Hver skal vera staða Alþingis, hver forseta Íslands og ríkisstjórnar og hver dómstóla?

Slík endurskoðun hefur látið á sér standa þar sem menn almennt hafa talið önnur mál brýnni, enda hefðu skapast ákveðnar venjur og hefðir sem ástæðulaust væri að hrófla við en einstök ákvæði stjórnarskrárinnar hvorki verið skilin né framkvæmd eftir bókstafnum.

Þau hörðu átök sem urðu á Alþingi í vor og sumar gera slíka endurskoðun á stjórnarskránni örðugri en ella mundi. Einstökum alþingismönnum kann að finnast sem þeir hafi fest sig í ákveðnum skoðunum og skilyrðum sem þeir vilja ekki víkja frá að svo komnu. Því má vera að niðurstöðu sé ekki að vænta meðan það þing situr sem kjörið var í maí 2003.

Eftir sem áður verður að hefja verkið.

Staða Alþingis verður að vera hafin yfir vafa og löggjafarstarfið í traustum skorðum.

Ég endurtek þakkir mínar til þingheims fyrir að fela mér að gegna störfum forseta. Það er ásetningur minn að eiga gott samstarf við alla hv. alþingismenn.