131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:02]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það var ánægjulegt að sjá hve vel hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra hefur náð sér á strik og er kominn hér meðal okkar. Mig langaði að gera athugasemd við eitt í ræðu hans, það sem kom fram um að ekki væri rétt að bera saman ríkisreikning og fjárlagafrumvarpið. Ég ætla að spyrja: Hvað eigum við þá að bera saman? Mér er spurn. Fróðlegt væri að fá að heyra það hjá sjálfstæðismönnum sem koma hér á eftir. Hvað eigum við að bera saman?

Talsverð tíðindi urðu þann 15. september sl. þegar nýr umhverfisráðherra tók til starfa. Ég vil nota tækifærið hér og óska Sigríði Önnu Þórðardóttur alls velfarnaðar í starfi. Ég á von á því að hún skili þar góðu starfi.

Önnur tíðindi urðu líka þann 15. september. Tveir ráðherrar höfðu stólaskipti, þ.e. foringjarnir tveir í stjórnarflokkunum. Ekki er að vænta mikilla umskipta við þau skipti, enda nær ómögulegt að greina nokkurn minnsta mun á pólitísku viðhorfi foringjanna ef frá er skilið að annar þeirra vill stundum og stundum ekki ganga í Evrópusambandið. Það er einnig orðið mjög erfitt að greina einhvern mun á stjórnarflokkunum tveim, sérstaklega eftir að búið er að gera óþekka þingmanninn óvirkan. Óþekki þingmaðurinn leyfði sér við og við að viðra eigin viðhorf sem voru foringjunum ekki þóknanleg. Flokkarnir eru nú algjörlega sameinaðir í flestum málum, svo sem því að styðja árásina á Írak, að hafa óbreytt kvótakerfi, horfa fram hjá vanda sjávarbyggðanna, skipta opinberum fyrirtækjum og bönkum á milli velunnara flokkanna, leyna bókhaldi eigin flokka, standa að vafasömum embættisveitingum í æðstu stöður landsins, skerða tjáningarfrelsi ítrekað með fjölmiðlafrumvörpum og ríkisvæða Skjá 1, auka miðstýringu landbúnaðarins og auka útgjöld ríkisins. Hver veit nema flokkarnir sameinist í einn stóran kvótaflokk til sjávar og sveita? Ég tel það líklegra en hitt eftir að hafa hlýtt hér á stefnuræðu forsætisráðherra.

Af stefnuræðunni má ráða að allt sé í miklum blóma í stjórn ríkisins. Kennaradeilan kemur ríkisstjórninni nánast ekkert við ef marka má orð forsætisráðherra en þó hlýtur það að vera algjör afneitun að halda því fram að svo sé, sérstaklega í ljósi þröngrar fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Forsætisráðherrann er í fleiri málum í algjörri afneitun og blekkingu, svo sem þegar hann talar um að breytingar sem gerðar voru á fiskveiðistjórnarkerfinu til hins verra væru til þess að auka einhverja sátt. Breytingarnar sem urðu við að setja trillurnar inn í kvótakerfið munu án efa koma niður á Norðvesturkjördæminu, og hvatinn til brottkasts eykst. Það er eins og að maðurinn trúi því að með því að fara með sömu lygina nógu oft fari fólk að trúa henni.

Auðvitað hef ég vissan skilning á því að guðfaðir kvótakerfisins, sjálfur forsætisráðherra, vilji að þjóðin sættist við kerfi sem hann hefur auðgast á. Það er mikill barnaskapur að ætla að þjóðin sættist við kerfi sem skilar helmingi minni þorskafla á land en fyrir daga kerfisins. Hvers vegna í ósköpunum ætti þjóðin að gera það?

Utanríkisþjónustan hefur þanist út undanfarin ár. Má rekja fjárausturinn til persónulegs metnaðar ráðherra. Það er ekki nokkurt vit í því að verja mörg hundruð milljónum í einhverja kosningabaráttu til þess að fá sæti í öryggisráðinu. Þessi sóun á almannafé hefur verið gagnrýnd. Henni er svarað með enn frekari útgjöldum og höfuðið bitið af skömminni með því að skipa fjölda nýrra sendiherra. Þar af eru nokkrir sem er ekki einu sinni ætlað að starfa í utanríkisþjónustunni.

Helsta og nánast eina vandamálið sem forsætisráðherra sér í ríkisbókhaldinu er öryrkjarnir. Hann virðist hafa tekið upp þann sið forvera síns að fara með ófriði á hendur öryrkjum. Ríkisstjórninni virðist þykja mikill manndómur í því að svíkja og pretta öryrkja landsins og helst mæta þeim reglulega í dómsölum. Staðreyndir málsins eru skýrar, ríkisstjórnin hefur ekki efnt samkomulag sem hún gerði við öryrkja fyrir síðustu kosningar. Ráðherrann sem gerði samkomulagið fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands hefur ítrekað viðurkennt að stjórnvöld hafi ekki enn staðið við sinn hlut. Enn fremur hefur hann upplýst að hægri hönd hans við frágang samkomulagsins var enginn annar en Halldór Ásgrímsson. Í stað þess að reyna að afsaka svikin með fjölgun öryrkja ætti forsætisráðherra að hafa manndóm í sér til að svara því hvers vegna fötluðum standi ekki lengur til boða nein störf í þessu landi, frekar en þúsundum annarra atvinnulausra. Hann ætti að hafa kjark til að hefja máls á því gerbreytta atvinnustigi sem hver einasti viti borinn maður veit að er ástæðan fyrir því að öryrkjum hefur fjölgað síðustu árin. Dettur nokkrum virkilega í hug að einhver trúi því að öryrkjar geti fótað sig á vinnumarkaði þar sem þúsundir fullfrískra einstaklinga ganga um án fastrar atvinnu, sumir mánuðum og jafnvel árum saman?

Ríkisstjórnin hunsar að sinna landsbyggðinni. Þegar bent er á augljósan vanda hinna dreifðu byggða byrjar nánast alltaf sami söngurinn, um Kárahnjúka og ál. Það er orðið löngu tímabært að stjórnvöld átti sig á því að uppbygging á Austfjörðum gagnast lítt Siglfirðingum, Skagfirðingum, Húnvetningum og Vestfirðingum. Sumar aðgerðir stjórnvalda beinast beinlínis gegn hagsmunum íbúanna, svo sem gerræðisleg lokun landbúnaðarráðherra á sláturhúsinu í Búðardal. Stefna hans mun án nokkurs efa verða til þess að verð á kjöti mun hækka til neytenda.

Ein aðgerð er augljós fyrir Norðvesturkjördæmið sem forsætisráðherra hefur lofað að beina sjónum sínum að en það er að afnema gjaldið í Hvalfjarðargöngin. Stjórnvöld ættu að vera löngu búin að því.

Forsætisráðherra rifjaði upp anda sjálfstæðisbaráttunnar þegar menn töldu ekkert sæmandi Íslandi og Íslendingum nema hið besta. Ég get tekið heils hugar undir það. Þess vegna á Ísland svo sannarlega skilið betri ríkisstjórn en nú er við völd.

Ég þakka þeim sem hlýddu.