131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:58]

Jón Bjarnason (Vg):

Góðir Íslendingar. Þann 1. febrúar 1904 fengum við heimastjórn með íslenskum ráðherra, einn af stærstu sigrum á leið okkar í átt að fullu sjálfstæði. Þjóðin fékk að horfa á fínar skrúðgöngur í sjónvarpi þar sem skósíð jakkalöfin sleiktu rauða dreglana í minningu atburðarins.

En vestur á Ísafirði var íslenskur alþýðumaður sem taldi sig líka eiga hlut í sigurhátíðinni. Heimastjórnarhátíð alþýðunnar á Ísafirði 21. ágúst sl. er fyrir mér einn af hápunktum sumarsins. Fullyrt er að hátt á þriðja þúsund manns hafi verið saman kominn á Silfurtorginu þessa kvöldstund. Kyndlarnir, stemmningin, gleðin og baráttuviljinn lýsti torgið. Samtakahópi íslensks alþýðufólks undir forustu Vestfirðingsins Jóns Fanndals Þórðarsonar hafði ofboðið sjálfumgleði jakkalafanna sem höfðu slegið eign sinni á sjálfstæðisbaráttuna.

Í ávarpi komst Jón Fanndal svo að orði:

„Við erum hér til að minnast merks áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem skilaði okkur áleiðis til lýðveldis. Næsta stóráfanga verður minnst 1. desember 2018. Ég ætla rétt að vona að alþýða þessa lands fái að vera viðstödd þau hátíðahöld.“

Hann vitnaði í ræðu Sigurðar Eggerz frá 1. des. 1918, en hann sagði:

„Það eru ekki aðeins stjórnmálamennirnir er miklu ráða um mál þjóðarinnar sem skapa hina nýju sögu. Nei, það eru allir. Bóndinn sem stendur við orfið og ræktar jörð sína, hann á hlutdeild í þeirri sögu. Daglaunamaðurinn sem veltir steininum úr götunni, hann á hlutdeild í þeirri sögu. Sjómaðurinn sem situr við árkeipinn, hann á þar hlutdeild.“

Það var þetta fólk sem hélt heimastjórnarhátíð á Silfurtorginu á Ísafirði.

Hinn 30. ágúst hóf göngu sína nýr framhaldsskóli í Grundarfirði fyrir byggðirnar á norðanverðu Snæfellsnesi. Baráttumál heimamanna um langt árabil var í höfn. Á annað hundrað unglingar sækja nú framhaldsskóla Snæfellinga í heimangöngu sem ella hefðu þurft að fara burt.

„Ég get ekki lýst því hvað við erum glöð,“ sagði Björg Ágústsdóttir sveitarstjóri á fundi með fjárlaganefnd.

Góðir Snæfellingar. Til hamingju með nýja skólann ykkar.

Nám í heimabyggð til 18 ára aldurs hefur verið baráttumál Vinstri grænna. Enn eru heilu byggðarlögin sem verða að senda börnin frá sér við 16 ára aldur. Styrkur til jöfnunar námskostnaðar er veittur unglingum sem þurfa að sækja nám fjarri heimilum sínum. Dapurt er að upphæðin hefur staðið óbreytt sl. þrjú ár. Nú er fyrirséð fjölgun nemenda og að óbreyttu mun stuðningur til hvers og eins lækka. Alþingi ber skylda til að jafna hlut þessara nemenda.

Lagt hefur verið sérstakt opinbert fjármagn til að úrelda sláturhús og loka mikilvægum vinnustöðum einstakra héraða. Þessi sára hagræðing átti að skila sér í hærra verði til bænda. En hver varð raunin? Verð til bænda fyrir kjöt á innanlandsmarkaði lækkaði um 8% á síðasta ári og í haust stendur það nánast í stað. Í sláturhúsi eru dilkar bænda flokkaðir í hina ýmsu verðflokka eftir settu gæðamati. Í borðinu hjá stórmörkuðunum eru allir bitarnir nánast í einum og sama verðflokki. Þarna er eitthvað stórlega að.

Góðir áheyrendur. Sumarið sem nú kveður hefur um margt verið viðburðaríkt. Við höfum notið mikillar árgæsku og góðviðris um allt land. Hvar sem farið er um okkar fallega land blasir við vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu. 12% aukning gjaldeyristekna í ár er ein stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar með um 40 milljarða kr. gjaldeyristekjum og enn eru ótæmandi möguleikar til eflingar og vaxtar í þessari atvinnugrein. Áfram er það hin hreina ímynd landsins sem mestu skilar, víðáttan, sérstæð náttúra, óbeislaðir fossar og mikilúðleg gljúfur. Við hljótum að spyrja: Hvernig hljómar „Skín við sólu Skagafjörður“ þegar búið er að stífla Héraðsvötnin og beisla kraft jökulánna og eyðileggja einstæða möguleika þar til flúðasiglinga sem kunnáttumenn segja að standi lítt að baki því besta sem gerist í heiminum?

Við Íslendingar verðum að fara að skilja að við verðum að rækta og vernda þá dýru möguleika sem við eigum. — Góðar stundir.