131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[22:03]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Gott kvöld, góðir Íslendingar. Ákveðin vatnaskil eiga sér stað í íslenskri stjórnmálasögu seinni tíma, nú þegar Framsóknarflokkur tekur við forustuhlutverki í ríkisstjórninni eftir 13 ára lyklavöld Sjálfstæðisflokksins að forsætisráðuneytinu. Að sjálfsögðu er það hið besta mál ef nú fer aðeins að draga úr völdum og áhrifum Sjálfstæðisflokksins. Það er engu stjórnmálaafli hollt að vera of lengi við völd í einu. Alkunna er úr mannkynssögunni, að vald spillir.

Finna má fjölmörg dæmi þess að valdablokkir hafa riðað til falls vegna þess að þeir sem leiddu þær voru orðnir svo blindir á eigin veikleika að þeir gáðu ekki að sér og voru að lokum fjarlægðir úr stöðum sínum. Valdið spillir einnig vegna þess að sá sem hefur það of lengi fer sjálfkrafa að trúa því að honum séu allir vegir færir, að hann komist upp með hvað sem er, hann verður sleginn siðblindu. Við sjáum nú æ fleiri dæmi þess að kominn sé tími til að núverandi valdhafar hér á landi taki sér ærlegt frí frá því að stjórna. Hægt er að tína til mörg nýleg dæmi um það að ríkisstjórnin sé nú hætt að sjást fyrir í hroka sínum og siðblindu. Nefna má vægast sagt vafasamar ráðningar tveggja hæstaréttardómara, tilraun stjórnarflokkanna til að demba einhliða yfir þjóðina afar hroðvirknislegri löggjöf um starfsumhverfi fjölmiðla, lítilsvirðingu þessara flokka við ákvæði stjórnarskrárinnar og endalaust dekur þeirra við þá sem mest mega sín í þjóðfélaginu. Oftar en ekki á kostnað þeirra sem minnst mega sín. Þeir eru látnir sitja hjá.

Góðir áheyrendur. Ég vil nota tækifærið nú til að koma að því sem við í Frjálslynda flokknum teljum eina sárustu ákvörðun sem núverandi stjórnarflokkar hafa tekið á sínum ferli og er þá mörgu slæmu til að jafna. Ákvörðun sem á margan hátt endurspeglar hvernig framkvæmdarvaldið hér á landi, í formi ráðherra og foringja stjórnarflokkanna, leyfir sér að hunsa þingræðið og löggjafarvaldið, jafnvel brjóta lög til að koma fram vilja sínum. Það er ákvörðun um aðild Íslands að hinu viðbjóðslega stríði sem nú geisar í Írak þaðan sem daglega berast fréttir af hrottafengnum árásum á saklausa borgara. Stríð þar sem hundruð særast og falla, stríð sem hæstv. forsætisráðherra minntist ekki á í ræðu sinni fyrr í kvöld og mér fannst hann tala um af töluvert mikilli léttúð eða réttara sagt gera lítið úr.

Hér bera formenn stjórnarflokkanna gríðarlega þunga ábyrgð og maður spyr sig oft að því hvernig þeir sofi um nætur. Það voru þeir sem tóku þá ákvörðun að gera okkur, íslenska þjóð, sem hafði heitið því að fara aldrei með ófrið á hendur öðrum þjóðum að yfirlýstum stuðningsaðilum við innrásina í Írak, innrás sem fyrir löngu hefur snúist upp í tilgangslaus fjöldamorð og stjórnleysi sem kyndir undir hryðjuverkaöflum sem aldrei fyrr. Þessi ákvörðun var aldrei borin undir þjóðina eða Alþingi. Hún var ekki einu sinni rædd í þingflokki hæstv. forsætisráðherra sem á þeim tíma var utanríkisráðherra.

Góðir landsmenn. Þessari staðreynd megum við aldrei gleyma þegar við nú á nokkurra klukkutíma fresti, dag eftir dag, viku eftir viku, fáum fregnir og sjáum myndir af þeim skelfilegu atburðum sem eiga sér stað í Írak og eiga kannski eftir að breiðast út í formi hroðalegra hermdarverka hryðjuverkamanna víða um heimsbyggðina. Aðild Íslands að árásinni á Írak sem nú hefur staðið yfir í rúmlega eitt og hálft ár nánast árangurslaust eru mestu mistök sem okkur hefur orðið á í utanríkismálum. Þessi mistök verðum við að leiðrétta. Fyrsta skrefið í þá átt er að fella þá ríkisstjórn sem ber ábyrgðina og nú fer með völd hér á landi.

Fyrir hönd Frjálslynda flokksins óska ég landsmönnum öllum velfarnaðar og gæfu á vetri komanda.