131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:10]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er stórt spurt. Í 300 milljarða kr. fjárlagafrumvarpi er búið að tína einn lið út og spurt hvort hann sé til marks um aðhald. Þingmaðurinn veit vitanlega að ríkissjóður hefur átt lóð í Berlín í mörg ár sem ekki hefur verið byggt á en staðið til að byggja þar sendiherrabústað. Það verður ekki hjá því komist, m.a. vegna krafna frá borgaryfirvöldum í Berlín og yfirvöldum þar í landi, að nýta þessa lóð sem fékkst á mjög góðum kjörum á sínum tíma og mun hagstæðari en aðrir þurftu að greiða fyrir sambærilegar lóðir. Nú er að því komið að klára að byggja þennan bústað og vonandi verður hann íslensku þjóðinni til sóma þegar upp er staðið. Hann er náttúrlega dýr vegna þess að byggingarkostnaður er hár í Þýskalandi. En sem betur fer munu þau útgjöld ekki hafa áhrif til þenslu á byggingarmarkaði hér innan lands vegna þess að hann er byggður í útlöndum. Þetta ætti að skýra sig sjálft.

Samfylkingin er sjálfri sér lík. Hún gerir á víxl kröfur um meiri útgjöld og minni útgjöld, meiri tekjur og minni tekjur. Hvað rekur sig á annars horn í málflutningi Samfylkingarinnar í ríkisfjármálum. Er ekki komið nóg, hv. þm., í þeim efnum?