131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:43]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum verið algerlega hreint sammála um að við viljum bæta fjárlagaferlið. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að dregin sé upp skýr mynd af því sem við getum borið saman. En það sem Samfylkingin hefur lagt sig sérstaklega fram um er að draga upp villandi mynd af fjárlögunum og samanburði þeirra við ríkisreikninginn. Það er ekki til þess að bæta umræðuna um fjárlögin eða fjárlagaferlið þannig að ef að við hv. þm. Einar Már Sigurðarson getum sameinast um að reyna að draga upp skýra mynd af því sem við fjöllum um þá er almenningur í landinu betur upplýstur um það um hvað við erum að tala. En forsendan er sú að ekki sé verið að reyna að villa um fyrir fólki í umræðunni.