131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:24]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef nefnt of lága tölu í því sem framsóknarmenn ætla að innheimta í komugjöldum á heilsugæslustöðvum. Kannski verður þetta orðið enn hærra næst þegar hv. þingmaður kemur í ræðustól, ef stefna Framsóknarflokksins nær fram að ganga sem horfir.

Er það tilfellið, frú forseti, að 40% hækkun á innritunargjöldum í Háskóla Íslands séu verðlagshækkanir? Er það svo? Nei, frú forseti, þarna er um beina stefnubreytingu að ræða. Þarna er um beina innheimtu á skólagjöldum að ræða. Eða hefur almennt verðlag á þessum tíma hækkað um 40%? Guði sé lof ekki.

Mig langar líka til að inna hv. þingmann eftir því hvort hann muni beita sér fyrir því sem formaður fjárlaganefndar að staðið verði við það loforð sem hæstv. heilbrigðisráðherra gaf öryrkjum um að þeir fengju að því sem talið var á síðasta ári einhvers staðar nálægt einum og hálfum milljarði kr., en var aðeins fullyrt að þeir hlytu. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra lýsti á sl. vetri væri að þessu sinni aðeins hægt að efna þetta í áföngum, u.þ.b. tvo þriðju við síðustu áramót og restin kæmi síðan á næstu fjárlögum. Þetta er tilvitnað bæði í viðtali við hæstv. ráðherra og í grein og í ágætri ritstjórnargrein Morgunblaðsins frá 27. nóvember 2003 er þetta rakið undir nafninu ,,Orð skulu standa“. Mun hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar beita sér fyrir því að Alþingi standi við þessi góðu fyrirheit og það góða handsalaða loforð sem hæstv. heilbrigðisráðherra stóð að við öryrkja?