131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:27]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara nota andsvarsrétt minn til að þakka hv. þingmanni, Magnúsi Stefánssyni fyrir að koma inn á það starf sem unnið er í fjárlaganefndinni varðandi það að breyta verkferlum og reyna að ná betur utan um þá vinnu sem þar er unnin. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er býsna mikilvægt. Það er hins vegar búið að standa yfir í of langan tíma en við hv. þingmann er ekki að sakast í þeim efnum því að hann er auðvitað til þess að gera nýtekinn við sem formaður í fjárlaganefnd. Það hefur verið unnið betur á því ári sem liðið er frá því hann tók við en nokkur ár þar á undan. Þetta er hins vegar gífurlega mikilvægt verkefni og nauðsynlegt að ná sem allra mesti samstöðu um verkið. Ég mun í ræðu á eftir fjalla sérstaklega um það sem ég tel mikilvægast í þeim efnum. Ég vildi á þessu stigi aðeins rifja upp nokkra þætti og þá fyrst og fremst það hvernig ég ásamt fleirum höfum verið að upplifa það að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið virðast tengjast of sterkum böndum, það sé ekki nægilega mikill munur þar á, þ.e. að löggjafarvaldið, fjárlaganefndin í þessu tilfelli, sé ekki nægilega sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Því er nú verr og miður og verður að segjast alveg eins og er að oft og tíðum finnst manni eins og meiri hluti fjárlaganefndar upplifi sig sem stimpil, þ.e. að það sé fyrst og fremst hlutverk meiri hlutans að stimpla það sem kemur frá ríkisstjórninni.

Það er auðvitað ekki hlutverk nefndarinnar að gera slíkt heldur, eins og hv. þingmaður Magnús Stefánsson benti á, að sinna eftirlitshlutverki og gera þess vegna sjálfstæðar kannanir á stöðu stofnana og sjálfstæðar tillögur um breytingar. Ég vona að sú vinna sem við erum í muni bæta þetta og gera það þannig að fjárlaganefndin verði sjálfstæðari og geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir.