131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:31]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til að endurtaka það sem hér hefur komið fram í máli okkar, mín og hv. þm. Magnúsar Stefánssonar.

Aðeins vegna þeirrar áherslu sem hann leggur á að allt sé ígrundað. Ég er auðvitað sammála hv. þingmanni í að ígrunda þurfi þetta mál afskaplega vel og vanda það þannig að ekki komi upp einhver misskilningur. Hins vegar getum við ekki eytt endalausum tíma í það að vera með ígrundun. Við þurfum að fara að stíga fyrstu skrefin. Ég vænti þess að skref verði stigin í vetur, stór og mikil. Við höfum hafið þetta verk á vissan hátt, en því þarf að fylgja eftir.

Ég vil minna á að hér voru sett ný fjárreiðulög árið 1996. Það verður að segjast eins og er að það hefur gengið misjafnlega að framfylgja þeim. Það er kannski fyrsta skrefið að við reynum að nálgast þau eins mikið og við getum því þar er vissulega mjög margt sem tekið er á. Ég nefni sem dæmi fjáraukalög fyrir árið 2004 vegna þess að þau liggja á borðum okkar þingmanna núna. Það er þetta dæmi, það frumvarp eða þau frumvörp sem fyrir hafa legið. Ég verð að hafa þann fyrirvara á að ég er ekki búinn að skoða þetta frumvarp mjög mikið núna. Frumvörp undanfarinna ára hafa því miður verið því marki brennd að þau hafa ekki staðist nákvæma skoðun í samanburði við fjárreiðulög, þ.e. að inni í fjáraukalagafrumvörpum og fjáraukalögum hafa oft og tíðum, því er nú verr og miður, verið þættir sem ekki eiga þar heima. Þetta er hlutur sem þarf að laga en það þarf að gerast í takt við framkvæmdarvaldið.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, til að fyllilega náist utan um það þarf nefndin að ná að sýna sjálfstæði í störfum sínum. Það er t.d. spurning sem menn hljóta að þurfa að ræða í nefndinni, hvort það sé eðlilegt, allt það samstarf sem formaður og varaformaður eiga við framkvæmdarvaldið. Væri ekki eðlilegt að kosið væri hlutfallskosningu í nefndinni ef eitthvert slíkt samráð í minni hóp þyrfti að eiga sér stað?