131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:20]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Helst gat maður talið þegar maður sat úti í sal og hlustaði á hv. þm. Birki J. Jónsson að við ættum að þakka fyrir það að eiga bestu ríkisstjórn í heimi. Það sem helst kom fram hjá þingmanninum var að þessi góða ríkisstjórn muni bæta kjör lágtekjufólks. Spurning mín til hv. þm. er þessi: Af hverju er það ekki gert nú? Af hverju eru þær skattalækkanir sem verið er að ráðast í ekki notaðar til þess að bæta sérstaklega hag lágtekjufólks?

Ég vil benda á fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu sem fram kom í fjölmiðlum 29. júlí fyrr á þessu ári. Þá var búið að leggja skatt á einstaklinga og lögaðila og þar kemur fram að 148 þús. einstaklingar í landinu greiða almennan tekjuskatt. 10% af þeim greiða hátekjuskattinn svokallaða til viðbótar, eða 14.896 einstaklingar. Það eru þessir 14.896 einstaklingar sem aðallega njóta nú skattabreytinga ríkisstjórnarinnar. Þeir aðilar fá 2% lækkun á hátekjuskatti og til viðbótar njóta þeir að mestu þessa 1% sem verið er að lækka almennan tekjuskatt um. Því hljótum við að spyrja hv. þm.: Af hverju í ósköpunum, ef ríkisstjórnin er svona góð, af hverju í ósköpunum ef það er rétt sem hv. þm. segir að hún muni bæta kjör láglaunafólks, af hverju í ósköpunum notar þá ríkisstjórnin ekki það svigrúm sem nú er og gerir þetta með fjárlögum ársins 2005? Það þýðir ekkert að vísa alltaf í einhverja óræða framtíð. Við erum að tala um það sem er að gerast núna og svörin sem við þurfum eru: Af hverju ekki nú? Af hverju seinna?