131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:27]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá málflutningur sem var viðhafður áðan fannst mér að mörgu leyti ekki sanngjarn. Hv. þm. talaði eins og skattalækkanir gögnuðust engum nema hátekjumönnum. Það er þannig að við hvert 1% sem skatturinn er lækkaður fylgir því um 4 þús. kr. aukning gagnvart skattleysismörkum. Ef við setjum það upp að við ætlum að lækka skatta á einstakling um 4% mun það líka gagnast lágtekjufólkinu um 16 þús. kr. á mánuði. Hér er því um mjög mikilvægt mál að ræða. Auðvitað má stilla hlutum upp með mismunandi hætti en ég verð að segja að mér finnst málflutningur Samfylkingarinnar í skattamálum mjög misvísandi. Talað var um það í aðdraganda síðustu kosninga að hækka skattleysismörkin. Nú rúmu ári eftir kosningar er hún komin með það stefnumið að lækka matarskattinn. Ég held að Samfylkingin þurfi að skýra skattstefnu sína betur því að það eru dálítið misvísandi skilaboð sem þaðan koma.