131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:30]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Ég vil þakka þessa fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar varðandi innritunargjöld í Háskóla Íslands. Þetta heita innritunargjöld en ekki skólagjöld. En Vinstri grænir vilja öllum hlutum ljótt nafn gefa. Þetta er gjald sem á að standa straum af innritunarkostnaði við Háskóla Íslands. Það er mjög mikilvægt að í þessari umræðu höfum við það fyrir framan okkur að háskólinn sjálfur fór fram á þessa hækkun en um þessar mundir er verið að skoða forsendur þessara verðlagshækkana og rökstuðning háskólans fyrir þeim.

Ég held að við þingmenn verðum að bera þá virðingu fyrir þeirri samkomu sem hér er, löggjafarþinginu, að hér er einungis um frumvarp að ræða sem komið er til efnislegrar meðferðar þingsins og við skulum sjá hverjar lyktir þessa máls verða.