131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:49]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ræddi það áðan að þenslan hefði ekki orðið eins mikil á áhrifum Kárahnjúka eins og gert var ráð fyrir og hv. þm. Jón Bjarnason spyr mig hvort það sé vont að hafa erlent vinnuafl á Kárahnjúkasvæðinu. Ég tel að það sé ekki. Ég held að það sé bara af hinu góða. Ég get ekki séð annað og ég spyr hann á móti: Hvað kemur honum til að halda að laun verkamanna á Kárahnjúkasvæðinu haldi laununum niðri? Það hlýtur að eiga að greiða þar eftir ákveðnum töxtum eins og annars staðar. En það mun verða miklu meiri atvinna fyrir Íslendinga eða íslenska ríkisborgara þegar álverksmiðjan rís á Reyðarfirði. Það hefur miklu meiri margfeldisáhrif út í vinnumarkaðinn þegar sú mikla verksmiðja rís.

Hvað varðar komugjöldin, og það er alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að ég ber hag heilbrigðisþjónustunnar mjög fyrir brjósti, en þetta er bara upphafsverð og ég tek undir með formanni fjárlaganefndar þegar hann sagði það hér áðan að að sjálfsögðu á að uppfæra komugjöldin með reglulegu millibili, að taka það ekki í einhverjum stökkum. Þetta á bara að fylgja vísitölunni og uppfæra eftir því sem við á. Ég tel ekki að komugjöldin séu þannig að fólk ráði ekki við þau. Það verður allt að kosta eitthvað og það gerir það svo sannarlega. Það kostar allt eitthvað og það er ekkert til sem heitir ókeypis.