131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:10]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var athyglisvert svar við spurningu minni. Það var almennt hjá hv. þm. en hann svaraði hins vegar ekki spurningunni efnislega. Hann nefndi að það væri rétti tíminn að lækka skatta þegar samneyslan væri á því stigi að rétt væri að gera það. Bíddu, hvað hefur ríkisstjórnin verið að gera síðustu 13 ár? Ríkisstjórnin hefur verið að auka fjárframlög til samneyslunnar, til heilbrigðiskerfisins, til menntakerfisins og hefur komið okkur Íslendingum í fremstu röð á þessum sviðum miðað við það sem þekkist í Evrópu og raunar víðar. Hversu langt þarf að ganga að mati hv. þm. til að þær aðstæður skapist að rétt sé að fara út í skattalækkanir?

Hann talaði um Bandaríkjamenn, að við gætum ekki lært mikið af Bandaríkjamönnum, Íslendingar. Ég vil benda hv. þm. á að Bandaríkjamenn gera margt betur en Evrópumenn í þeim málaflokkum sem hv. þm. er mjög annt um. Ég bendi honum á frétt í Morgunblaðinu í dag þar sem fram kemur að átta af tíu bestu háskólum heimsins eru í Bandaríkjunum og það er vegna þess að Bandaríkjamenn eyða mun hærra hlutfalli af landsframleiðslu sinni til menntamála en nokkurn tíma Evrópulöndin. Það má því ýmislegt gott segja um Bandaríkjamenn og læra af þeim. En mér líkar ekki hvernig hv. þm. talar um þá þjóð og þá stefnu sem þar er rekin og heldur ekki hvernig hann talar um þá Íslendinga sem hafa há laun og kallar þá hátekjulið. Ég leyfi mér að mótmæla því að það sé rangt að lækka skatta með þeim hætti sem hér hefur verið boðað. Það er einfaldlega sanngjarnt að þeir sem hæstu skattana greiða fái mestu skattalækkunina í krónutölu. Það er einfaldlega sanngjarnt og eðlilegt.