131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:22]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 og þjóðhagsspá fyrir árin 2004–2010 sýnir að traust stjórn efnahagsmála undanfarin ár mun áfram skila miklum ávinningi til alls almennings þessa lands. Á árunum milli 1990 og 2000 var mjög mikilvægum stöðugleika í efnahagslífinu náð. Sá stöðugleiki var grundvöllur að bættum lífskjörum. Við byggjum enn á þeim stöðugleika og í langtímaáætlunum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum eru lagðar línurnar um hvernig þeim stöðugleika verður viðhaldið.

Stefna stjórnarflokkanna í ríkisfjármálum er í grófum dráttum sú að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur og gera enn betur. Efnahagsstjórn ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar gerbylti umhverfi atvinnulífs á Íslandi. Tekjuskattur á fyrirtæki var lækkaður verulega og er nú með því allra lægsta sem þekkist í Evrópu gjörvallri. Hver þekkir ekki muninn á stöðu fyrirtækjanna í dag og fyrir 10–12 árum? Við höfum á undanförnum árum séð fjölmörg öflug fyrirtæki verða til, atvinnulífið dafnar og aldrei fyrr hafa jafnmörg félög tekið með jafnkröftugum hætti þátt í alþjóðlegri samkeppni. Fyrirtæki á Íslandi veita almenningi framúrskarandi þjónustu og öflugt atvinnulíf er jafnframt forsenda þess að atvinnustig haldist hátt hér á landi en atvinnuleysi á Íslandi er langt undir því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Virðulegi forseti. Fyrir upphaf þessa kjörtímabils var ljóst að beita þurfti ríkisfjármálum til að hamla gegn þenslu. Þegar frumvarp til fjárlaga er nú lagt fram öðru sinni á líðandi kjörtímabili má sjá að ríkisstjórnin er á réttri braut með þetta mikilvæga verkefni. Því ber að fagna. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir helstu leiðum sem farnar eru í þessu markmiði. Fyrst er þar að nefna að afkoma ríkissjóðs batnar á næsta ári og verður 11,2 milljarðar. Þetta eru metnaðarfull en jafnframt raunhæf markmið um innan við 2% vöxt samneyslunnar. Dregið verður úr framkvæmdum á helsta þenslutímanum en við þær aukið síðar þegar framkvæmdatíma vegna stóriðjuframkvæmdanna lýkur. Bætt afkoma ríkissjóðs er farin að skila sér í lægri skuldum ríkisins og þar með lægri vaxtagreiðslum.

Auk þess sem stöðugleikinn er forsenda áframhaldandi uppbyggingar atvinnulífsins skapar aðhald í ríkisfjármálum svigrúm til skattalækkana. Farið hefur verið ágætlega yfir þetta í dag en þingmenn stjórnarandstöðunnar standa sína plikt og gagnrýna frumvarpið frá öllum hliðum. Þeir reyna með öllum ráðum að slá ryki í augu almennings með afmörkuðum dæmum og talnaleik. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að draga athygli frá kjarna málsins. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá stefnir í að hið nýja hagvaxtarskeið sem hófst árið 2003 geti orðið eitthvert lengsta hagvaxtarskeið sem hér hefur mælst. Er von að stjórnarandstöðunni líði illa við þessar aðstæður.

Þegar frumvarp til fjárlaga var rætt í þessum sal fyrir ári síðan spurði stjórnarandstaðan: Hvar eru skattalækkanirnar? Óþolinmæðin var mikil en eins og menn muna voru fyrstu skrefin tekin á síðasta þingi og nú liggur fyrir að haldið verður áfram á sömu braut. Skattar verða lækkaðir frekar. Þá kemur stjórnarandstaðan og spyr: Af hverju að lækka þessa skatta? Við hefðum gert þetta öðruvísi. Stjórnarandstaðan er á móti vegna þess að hún á að vera á móti. Þessi málflutningur er svo gegnsær að staðreyndir málsins blasa við hverjum þeim sem kynnir sér það.

Sagt var að hinn ósanngjarni erfðafjárskattur yrði lækkaður. Hann hefur verið lækkaður um helming. Við vildum hátekjuskattinn burt. Hann hefur verið lækkaður og mun falla niður. Stjórnarflokkarnir vildu lækka tekjuskatt. Í þessu frumvarpi kemur fram að fyrsti áfangi lækkunarinnar er handan við hornið. Árin 2006 og 2007 verður tekjuskattur lækkaður enn frekar. Tekjuskattur til ríkis mun þá hafa lækkað úr 30,41% árið 1997 niður í 21,75% árið 2007, þ.e. þegar þessum áföngum er lokið. Þegar þær lækkanir hafa komið til framkvæmda mun ríkið hafa gefið eftir 28% af þessum tekjustofni á téðu árabili. Það eru umtalsverðar skattalækkanir. Loks verður eignarskatturinn afnuminn eins og fram hefur komið í umræðu í dag. Það er til vitnis um hve vel árar hjá Íslendingum að samhliða þessum lækkunum á sköttum hafa framlög til ýmissa velferðarmála verið stóraukin og enn verður bætt í.

Stjórnarandstaðan gerir mikið úr því í umræðum um fjárlagafrumvarpið að stjórnarflokkarnir beini sjónum sínum eingöngu að þeim sem betur eru settir í þjóðfélaginu. Ekkert gæti verið fjær sannleikanum. Kaupmáttur lægstu launa hefur stóraukist ár eftir ár og mun halda áfram að vaxa. Það er út af fyrir sig rétt að þegar almenna skattprósentan er lækkuð kemur það þeim best sem mesta greiða skattana en það er líka eðlilegt. Það er einfaldlega erfitt að lækka skatta þess sem enga skatta greiðir en lækkun tekjuskattsins mun óumdeilanlega koma öllum skattgreiðendum til góða. Þannig munu ráðstöfunartekjur einstaklings með 150 þús. kr. mánaðarlaun hækka um 4,7% við lækkun tekjuskatts um 1% og skattgreiðsla viðkomandi einstaklings lækkar um 18 þús. kr. á ári bara í þessum fyrsta áfanga. En í þessu sambandi er rétt að minna á að gert er ráð fyrir 3,25% kaupmáttaraukningu á næsta ári.

Í öllum aðalatriðum eru því mjög jákvæð teikn á lofti í ríkisfjármálum. Við getum lækkað skatta og haldið áfram á sama tíma að auka framlög til mennta- og heilbrigðismála og fjölmargra annarra mikilvægra málaflokka. Umræðan um fjárlagafrumvarpið á þessu haustþingi mun m.a. snúast um forgangsröðun í þeim efnum. En við skulum þó ekki gleyma því í umræðum um fjármál ríkisins að enn eru víða tækifæri til hagræðingar í ríkisrekstrinum. Það er viðvarandi verkefni að endurskoða rekstur hins opinbera og við eigum að nýta kosti einkarekstrarins á fleiri sviðum en gert er í dag. Fjölgun starfsmanna hjá hinu opinbera á undanförnum árum vekur ákveðinn ugg auk þess sem fjöldi ríkisstofnana er óeðlilega mikill. Dæmi er um að verkefni sem tímabundið njóta stuðnings á fjárlögum fari þangað ítrekað inn undir safnliðum. Þannig fer fram ýmis starfsemi ítrekað ár eftir ár, eitt ár í senn inn á fjárlögin og er þannig kostuð af opinberu fé án þess að um eiginlegan ríkisrekstur sé að ræða. Það má finna fjölmörg svona dæmi sem við þurfum að beina sjónum okkar að og laga.

Ég vil rifja það upp að samkvæmt tillögu til þingsályktunar sem ég ásamt þingmönnum tveggja annarra þingflokka lagði fram á síðasta kjörtímabili er haldið úti 50 ríkisstofnunum með færri en tíu ársverk. Það eru fjölmörg slík dæmi sem við eigum að halda áfram að huga að og gera betur. Eins og ég sagði áðan er það viðvarandi verkefni að huga að ríkisrekstrinum hvar sem við stöndum í honum.

Með vísun til alls þessa vil ég ljúka máli mínu með því að fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu sem fylgir frumvarpi til fjárlaga að ráðist verði í sérstaka endurskoðun á rekstri ríkisins.