131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:31]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var býsna lífleg og ánægjuleg ræða. Hv. þm. var mjög ánægður langt fram eftir ræðu sinni en síðan kom í ljós undir lokin að það er nú eitt og eitt atriði sem má laga í ríkisrekstrinum og taka örlítið til, en ég var farinn að halda að hv. þm. ætlaði að klára ræðu sína með eintómu lofi um allt og alla. En það tókst ekki og það er rétt að taka undir lokaorð hans um að það er mjög ánægjulegt að menn skuli hafa rumskað og áttað sig á því að það gæti nú þurft að taka eitthvað til í ríkisrekstrinum. Það er ánægjulegt og við vonum að það komi eitthvað út úr því.

Það sem ég ætlaði fyrst og fremst að spyrja hv. þm. um — ég hafði það ekki alveg á hreinu þegar hann talaði um skattalækkanirnar hvort hann var að tala sig upp í ánægjuna með þetta allt saman eða hvort þetta er virkilega sannfæring hans um að þetta sé nákvæmlega rétt forgangsröðun. Við höfum talað um það — ég ætla að biðja hv. þm. að vera ekki að blanda saman endilega öllum flokkum í stjórnarandstöðunni í þessum málum vegna þess að ekki er algjör samstaða um það — að svigrúm væri til þess að lækka skatta. En við teljum afar nauðsynlegt að forgangsraða í þeim efnum og við höfum sagt að það séu ákveðnir hópar í samfélaginu sem eiga að hafa forgang. En við erum ósammála ríkisstjórninni í því. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sé fyllilega sannfærður um að sú forgangsröðun, að þau dæmi sem hv. þm. nefndi um að þeir sem hæstar hafa tekjurnar fái mest, sé rétt. Ég vil minna hv. þm. á að það er ekki rétt hjá honum að það séu mjög margir sem ekki greiði skatta. Það er nefnilega þannig að að eru langflestir ef ekki allir sem greiða einhverja skatta. Málið er að það eru ekki allir beinir skattar. Við skulum ekki gleyma því að virðisaukaskatturinn er lagður m.a. á matvörur.

Ég vil spyrja hv. þm. að því hvort hann sé ekki sammála okkur í Samfylkingunni um að það sé býsna nauðsynlegt að lækka matarskattinn svokallaða og við höfum verið með beina tillögu um það að helminga hann núna í fyrsta skrefi.