131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:33]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var dálítið spaugilegt svona beint í kjölfarið á yfirlýsingum um samstarf stjórnarandstöðuflokkanna um hin ýmsu mál á komandi þingi skuli þingmenn sjá ástæðu til þess að beina því til þingmanna stjórnarflokkanna að stjórnarandstöðuflokkunum verði ekki ruglað saman í umræðunni. En ég get fullvissað hv. þm. um það að ég hef sannfæringu fyrir því að það upplegg sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og þær aðgerðir sem gerðar hafa verið í skattalækkunarátt hingað til eru samkvæmt því sem ég hef sannfæringu fyrir að sé rétt.

Það er auðvitað þannig að enginn grundvallarmunur er á stefnu Samfylkingarinnar um lækkun virðisaukaskattsins á matvæli og stefnu Sjálfstæðisflokksins um nákvæmlega sama mál, alveg eins og það var í sjálfu sér ekki mikill munur milli þessara tveggja flokka fyrir síðustu kosningar hvað það snerti að það væri svigrúm hér til skattalækkana. Það hefur áður komið fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að áhugi er á því að lækka virðisaukaskatt og ég hygg að það hafi jafnframt komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að útfærsla á því hvernig virðisaukaskatturinn verður tekinn til endurskoðunar sé í gangi.