131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:34]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt að það er og hefur verið ákveðin samstaða með stjórnarandstöðunni og hún verður auðvitað áfram í ákveðnum málum. En það hefur hins vegar legið ljóst fyrir, hélt ég, í þessum þingsal að það væri ekki full samstaða varðandi skattamálin, það á því ekki að koma nokkrum manni á óvart. Ég var bara að biðja hv. þm. um að gæta nákvæmni í málflutningi þannig að ekki væri verið að rugla hlutum saman.

Það út af fyrir sig kemur mér ekki á óvart að hv. þm. er sammála þessari stefnu, þessari ójafnaðarstefnu sem ríkisstjórnin fylgir og það er auðvitað ekkert við því að gera. Þannig er bara staðan í íslenskum stjórnmálum að það er ójöfnuður sem ræður för og við verðum auðvitað að taka afleiðingunum af því.

Það er hins vegar athyglisvert að nú kemur hér hver þingmaðurinn á fætur öðrum og jafnvel hæstv. ráðherra til þess að lýsa því yfir að þeir séu sammála leið Samfylkingarinnar í virðisaukaskattsmálinu, þ.e. að lækka þurfi matarskattinn um helming. Það er út af fyrir sig ekki nýtt vegna þess að eins og hv. þm. benti á kom þetta fram í málflutningi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar. Þar af leiðandi er spurningin sú í þessu samhengi: Hvað er það sem dvelur orminn langa? Ekki trúi ég því að Framsóknarflokkurinn sé allt í einu orðinn svona gífurlega öflugur í stjórnarsamstarfinu að hann geti stoppað virðisaukaskattslækkun. Það er þá eitthvað algjörlega nýtt ef Framsóknarflokkurinn getur stoppað eitthvað í þessu stjórnarsamstarfi. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm. hreinlega um það: Hvað lengi telur hv. þm. að það taki að beygja Framsóknarflokkinn í þessu máli? Það væri einmitt þjóðþrifamál að beygja hann í þessu máli frekar en ýmsum öðrum sem menn hafa verið að eyða kröftum í.