131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:36]

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær óskir sem fram hafa komið um að fagráðherrar verði hér við umræðuna. Í sjálfu sér væri ekkert eðlilegra en að þeir fagráðherrar sem hafa við það að glíma að fást jafnvel við mikinn niðurskurð, eins og samgönguráðherrann hæstvirtur í sínu ráðuneyti, komi hér og geri grein fyrir því hvernig brugðist verði við, hvernig þessi niðurskurður í vegamálum komi t.d.við vegáætlun og hvaða vinna sé í gangi í ráðuneytinu til þess að skipuleggja þessa hluti sem leiða af þeim mikla niðurskurði sem þar er — þetta á auðvitað við um fleiri ráðherra en hæstv. samgönguráðherra — til þess að skýra fyrir bæði þingi og þjóð hvaða áhrif helstu ákvarðanir í fjárlögunum hafa á a.m.k. þau ráðuneyti þar sem mest kemur við á hverjum tíma. Það er mjög eðlilegt að þetta gerist þannig. En hér virðist hafa verið að myndast með árunum einhvers konar afstaða hjá stjórnarliðinu á Alþingi sem gengur út á það að sitja af sér umræður í Alþingi, sitja þær bara af sér, að leyfa þeim bara að tala í stjórnarandstöðunni, reyna að lifa þetta svona einhvern veginn af, vera í bakherbergjum eða bara ekki í húsinu. Þetta er ekki boðlegt. Hér eiga menn að gera grein fyrir stefnu sinni. Að minnsta kosti gæti maður haldið að þeir væru ekki í neinum vandræðum með það. Nógu kotrosknir eru þeir yfir því hvað stefnan sé nú góð á hinum ýmsu stundum. Ætti t.d. hæstv. samgönguráðherra ekki geta komið hér og stillt málum upp? Hann hlýtur að hafa tekið þátt í að samþykkja þennan niðurskurð í vegamálum sem er fram undan. Hann hlýtur að geta sagt frá því hvernig hann ætlar að bregðast við úr því hann ætlar að taka stærsta pokann. Það ætti hann að gera við þessa umræðu.