131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég hef ekkert við fundarstjórn forseta að athuga. En ég verð á hinn bóginn að segja að mér er orða vant eftir ræðu hv. þm. Drífu Hjartardóttur áðan. Ef virðing þingmanna og sjálfsvirðing birtist í því sem hún sagði áðan þá erum við í vanda stödd. Ef þingheimur lætur sér það nægja að sjá ráðherra ríkisstjórnarinnar á ferli í þinghúsinu, langa stund eða skamma, þegar við ræðum um stærsta mál haustsins, fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, þá er Vöggur litlu feginn. Það gefur augaleið. Kannski birtist vandi þingsins í orðum hv. þm. Drífu Hjartardóttur, að láta sér nægja það.

Við búum við það að hér eru gerð rammafjárlög. Þau eru með þeim hætti að fagráðherrarnir koma með tillögur og bera ábyrgð á sínum römmum. Af þeim ástæðum hefur umræðan í dag m.a. birst í því að einstökum ráðherrum hefur verið hlýtt yfir. Þeir eru spurðir spjörunum úr, hvað býr að baki tölunum. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra viti upp á punkt og prik hvað að baki liggur. Þannig er gangverkið í þessu, viti einhver ekki af því.

Ég vil sérstaklega bjóða nýja hæstv. ráðherra velkomna til starfa við 1. umr. En mér finnst ekki mikill bragur á því að fyrstu dagar þeirra í nýjum embættum á hinu háa Alþingi séu þannig að þeir séu fjarverandi.

Ég þakka engum fyrir það ef hæstv. ráðherrar láta svo lítið að koma til þings í skamma stund eða langa eða að hér þurfi þingheimur að bíða mínútum eða klukkutímum saman eftir að hæstv. ráðherrar komi til fundarins. Þetta er stærsta mál haustsins. Hér eiga þeir að sitja hvað sem tautar og raular og taka þátt í umræðunni, ekki bara vera hér á kreiki.

Ég var að rifja upp að þetta hafi ekki verið með þessum hætti. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta nýja verklag sé með hans velvilja? Ég neita að trúa því. Ég held þvert á móti að hann vilji ekki hafa þetta svona.

Ég vil enn fremur spyrja ráðherra að því hvort eitthvað hafi misfarist í boðun við ríkisstjórnarborðið. Gleymdist hreinlega að láta, a.m.k. nýja fagráðherra, vita af því hvert gangverkið er í þessum efnum? Eða er hæstv. ríkisstjórn kannski alveg sama? Er þetta nýjasta birtingarformið á þreytu hennar og uppgjöf? Kannski er það svo.