131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:51]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér þóttu orð hv. þm. Drífu Hjartardóttur afar óviðeigandi. Ég hélt að ég hefði á mjög málefnalegan hátt óskað eftir því að ákveðnir hæstv. ráðherrar yrðu viðstaddir umræðuna. Ég skal fara örlítið yfir það.

Ég taldi eðlilegt að hæstv. félagsmálaráðherra væri hér. Töluvert mikið hefur verið rætt um samskipti ríkis og sveitarfélaga, fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þau koma vissulega mikið við fjárlögin.

Hæstv. menntamálaráðherra hlýtur að tengjast því sem við höfum rætt um varðandi hækkun innritunargjalda í háskólum, endurskoðun á reiknilíkönum í framhaldsskólum og áætlaðan nemendafjölda í framhaldsskólum og háskólum. Það er auðvitað eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra sé viðstödd umræðuna og gefi einhverjar skýringar.

Það hlýtur að vera eðlilegt að hæstv. samgönguráðherra sé viðstaddur þar sem ein meginaðhaldsaðgerð hæstv. ríkisstjórnar er í samgöngumálum. Við slíkar aðstæður hlýtur viðkomandi fagráðherra að koma nálægt umræðunni.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur gefið skýringar á því af hverju hann svarar ekki jafnóðum. Hann ætlar að svara spurningum þingmanna síðar í umræðunni. Það er að sjálfsögðu eðlilegt.

En, herra forseti, að kalla slíkar óskir lýðskrum er með ólíkindum. Það hlýtur að nálgast það að hæstv. forseti hefði átt að aðvara hv. þingmann. Slíkt orðalag á ekki að eiga sér stað úr þessum stóli þegar svona mál eru rædd, þegar þau eru ígrunduð með þessum hætti. Ekki nóg með það heldur liggur hér fyrir samkomulag um að lögð verði sérstök áhersla á að fagráðherrar verði viðstaddir umræðuna. Það er óviðunandi ef samkomulagið á eingöngu að ná til ákveðins hluta en ekki allra.

Það verður að fást skýring á því hvernig á því stendur að hæstv. ráðherrar láta ekki sjá sig og taka ekki þátt í umræðunni. Er skýringin sú að hæstv. ráðherrar telja enga ástæðu til þess? Vilja þeir með því sýna í verki viðhorf framkvæmdarvaldsins til löggjafarvaldsins? Við höfum auðvitað fundið smjörþefinn af þessu í vinnu fjárlaganefndar á undanförnum árum. Við vorum einmitt að vona að breyting yrði á og þá í aðra átt en þessa. Eða er skýringin sú, herra forseti, að það hafi hreinlega gleymst að koma þessu samkomulagi til skila til hæstvirtra ráðherra? Það er nauðsynlegt að við fáum fullnægjandi skýringar á því sem hér er á ferðinni. Við þetta verður ekki unað.