131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:51]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki samþykkja að svokallaðar aðhaldsaðgerðir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hafi tekist vel og gengið eftir nema þá hugsanlega þau áform hæstv. fjármálaráðherra að knýja stofnunina til aukinnar einkavæðingar.

Ég ætla aðeins að víkja að öryrkjasamkomulaginu og spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig standi á því að ráðuneytið eða ríkisstjórnin hafi ekki gert athugasemd við fréttaflutning eftir blaðamannafundinn í Þjóðmenningarhúsinu vegna þess að þar var samkomulaginu lýst í smáatriðum, hver hækkun grunnlífeyris væri og tilgreind talan 421 kr. minnkun fyrir hvert aldursár. Það var greint frá þessu í öllum fjölmiðlum og í bréfi frá heilbrigðisráðuneytinu 9. apríl var þetta enn áréttað, í bréfi sem sent var til Tryggingastofnunar til útreiknings á útfærslunni þannig að samkomulagið var tíundað í öllum fjölmiðlum landsins en engin athugasemd var gerð við þetta, enda var það svo að í umræðu um málið á Alþingi í fyrra kom fram að hér væri um að ræða áfanga til þess að efna þetta samkomulag. Nú er hætt að ræða um þetta sem samkomulag, hæstv. fjármálaráðherra, sem án efa á eftir að koma nánar inn á málið í lokaræðu sinni, vísar til þess sem fréttatilkynningar.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Hvernig stóð á því að ráðuneytið eða hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gerði ekki athugasemd við fréttaflutning fjölmiðla í kjölfar undirritunar samningsins?