131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:53]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Hvort þarna var um fréttatilkynningu að ræða eða samkomulag skiptir að mínu mati ekki höfuðmáli. Það skiptir máli hvað stóð í því. Þetta var vissulega fréttatilkynning um samkomulag sem við gerðum. Í því voru ákvæði um að tvöfalda bætur til yngstu öryrkjanna og taka upp aldurstengdar bætur sem hafði verið baráttumál Öryrkjabandalagsins frá 1998. Til þess átti að verja rúmum milljarði króna og það var það sem ríkisstjórnin samþykkti. Hins vegar voru á kreiki hugmyndir um útfærslu á þessu samkomulagi og það var ákveðið að setja útfærsluna í nefnd. Ráðuneytið bað um að þessar útfærslur yrðu reiknaðar út og þar komu upp þær upphæðir sem deilt hefur verið um síðan. Aðalatriðið er hvað stóð í þessu samkomulagi, það skiptir ekki máli þó að það hafi ekki verið undirritað, það var ekki neitt undirritað en það skiptir ekki máli að mínu mati. Þetta var fréttatilkynning um samkomulag og í henni var tíundað hvaða markmiðum ætti að ná og það skiptir mestu máli hvað stóð í henni.