131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:59]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekki að láta minna mig á sannsögli í þessum ræðustól og biðst undan því að fá slíkar áminningar. Staðreyndir þessa máls eru að leiðin sem Öryrkjabandalagið vildi fara, og kynnti í nefndinni sem ég nefndi áðan, kostaði 500 millj. Ég hefði auðvitað gjarnan viljað uppfylla það en það var ekki í samræmi við samkomulagið sem við gerðum. Ég vonast auðvitað til að sá dagur komi að við getum haldið áfram að bæta kjör öryrkja.

Mér finnst ábyrgðarleysi að fara ekki yfir það núna á þessari stundu og gera sér grein fyrir ástæðunum fyrir þeirri útþenslu sem er í fjölda öryrkja í landinu. Mér finnst það í þágu öryrkja að gera það. Mér finnst að við verðum að staldra við og komast að því hvað það er í þjóðfélagsgerð okkar sem veldur því að t.d. ungum konum frá 25 ára aldri og upp í þrítugt, að öryrkjum í þeim aldurshópi fjölgar langt fram yfir aðra aldurshópa. Þurfum við ekki að staldra við og komast að ástæðunum fyrir því? Þurfum við ekki að laga eitthvað í þjóðfélagsgerðinni hjá okkur eða hvaða ástæður eru fyrir því? Er það ekki í þágu öryrkja?